Í heiminum búa um sex milljarðar manna. Meðalmassi mannkyns er líklega um 20-40 kíló (vegna fjölda barna). Þá er heildarmassi alls mannkyns um 200 milljarðar kílógramma eða 200 milljón tonn. Þetta er þó ekki nema brotabrot (um það bil 0,00000000001%) af massa jarðar þannig að þetta myndi ekki hafa nein áhrif á jörðina sem heild. Öðru máli gegnir um þá sem væru neðst í þessum turni. Þeir þyrftu að halda uppi um 200 milljón tonnum. Líkami þeirra mundi falla saman undir þvílíku álagi. Til samanburðar er mesta þyngd sem maður hefur lyft tæp 3 tonn. Þessi turn myndi væntanlega ná 5-10 milljarða metra upp frá jörðinni og þá er eins gott fyrir þá efstu að passa sig á tunglinu sem er einungis tæpar 400 milljónir metra frá jörðinni. Ekki þarf að hafa áhyggjur af sólinni því hún er um 150 milljarða metra frá jörðu.
Mynd: Fourmilab Smellið á myndina að ofan til að taka ykkar eigin myndir af jörðinni með aðstoð gervihnattar. HB