Hvað er marglytta og hvaða gagn gerir hún fyrir okkur mennina?Marglyttur tilheyra fylkingu holdýra (Cnidaria). Holdýr eru gjarnan flokkuð í hveljur, sem skiptast í smáhveljur (Hydrozoa) og stórhveljur (Scyphozoa), en til þeirra heyra marglyttur, og holsepa (Anthozoa) sem eru til dæmis kóraldýr og sæfíflar. Marglyttur eru skæðir afræningjar. Þær veiða ýmsar lífverur, sér í lagi aðrar marglyttur. Á matseðli marglyttna eru einnig sviflægar krabbaflær, hrogn og fisklirfur auk þess sem smáfiskar falla í valinn fyrir stærstu marglyttum. Hér við land eru marglyttur afræningjar á seiði ýmissa nytjastofna og þess vegna gætu einhverjir litið á þær sem meindýr í hafinu sem leggjast á verðmæta fiskistofna líkt og hvalir. En marglyttur eru hluti vistkerfisins og vel staðsettar í flóknum fæðuvef hafsins. Það eru til nokkur hundruð tegundir af marglyttum en aðeins fáeinar þeirra eru ætar. Marglyttur hafa ekki mikið verið nýttar til manneldis í okkar heimshluta en eru vel þekkt fæða í nokkrum Asíulöndum. Þar þykja þær hið mesta hnossgæti. Í Kína er til dæmis löng hefð fyrir neyslu marglytta og það sama má segja um Kóreu, Tævan, Víetnam og Japan. Marglyttur eru nánast bragðlausar. Þær innihalda 5% prótín og 95% vatn og eru því ágætar til að drýgja mat. Marglytturnar geymast ekki eins og þær koma upp úr sjónum heldur þarf að vinna þær strax. Þær eru fyrst lagðar í saltpækil í nokkra daga og síðan þurrkaðar. Yfirleitt eru þær svo útvatnaðar áður en þær eru notaðar í hina ýmsu rétti. Þótt marglyttur séu fyrst og fremst matur þar sem þær eru nýttar þá má geta að á sumum svæðum er talið að neysla á marglyttum geti nýst til að létta á verkjum í beinum og vöðvum. Hér við land finnst marglyttutegund sem mögulega mætti nýta til manneldis þar sem hennar er neytt í Austur-Asíu. Þetta er bláglyttan (Aurelia aurita) sem er líklega sú tegund marglytta sem hefur hvað mestu útbreiðslu allra marglytta. Heimildir og mynd:
- Jellyfish as food - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 8. 8. 2016).
- Y-H. Peggy Hsieh, Fui-Ming Leong og Jack Rudloe. (2001). Jellyfish as food. Hydrobiologia 451:11–17. (Skoðað 8. 8. 2016).
- Nom sua.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 8. 8. 2016).
- Aurelia aurita - Wikipedia. (Sótt 20.10.2016).