Árið 1963 stofnaði Makaha fyrsta keppnisliðið á hjólabrettabruni. Fyrsta keppnin var haldin sama ár og var þá bæði keppt í bruni og frjálsri aðferð. Þessi fyrstu hjólabretti sem keppt var á voru þó afar takmörkuð og var það einkum gerð hjólanna sem takmarkaði hreyfigetu þeirra. Áhuginn á hjólabrettum dvínaði því töluvert allt þar til ný gerð hjóla kom á markaðinn um miðjan áttunda áratuginn. Það var Frank Nasworthy sem árið 1972 fann upp svokölluð fjölúretan-hjól sem eru mjög svipuð þeim hjólum sem notuð eru í dag. Þessi hjól gáfu brettinu aukinn hreyfanleika og þar með íþróttinni meiri möguleika. Á sama tíma var kynntur til sögunnar uppbrettur endi (e. kick-tail) á hjólabrettum. Þessi einfalda breyting á byggingu brettanna umbylti hreyfigetu þeirra og gerði ýmsa loftfimleika mögulega sem áður höfðu verið fjarlægur draumur, svo sem að olla. Að olla er einmitt nefnt eftir manninum sem fyrstur sýndi þetta stökk, Alan Gelfands, sem kallaður var „Ollie“. Vinsældir hjólabretta og hjólabrettabruns sem íþróttar breiddust eins og eldur í sinu um allan heim. Árið 1976 var fyrsti hjólabrettagarðurinn byggður í Flórída í Bandaríkjunum. Fljótlega spruttu upp sambærilegir garðar og brautir víðs vegar um Norður-Ameríku, Asíu og Evrópu. Fræknir hjólabrettakappar eins og Tony Alva og Stacey Peralta stigu fram á sjónarsviðið og voru hylltir sem ofurhugar og frumkvöðlar í íþróttinni. Hjólabrettabrun þótti þó vera hættuleg íþrótt og á níunda áratugnum var hún einkum stunduð meðal neðanjarðahreyfinga og átti erfitt uppdráttar að fást viðurkennd sem alvöruíþrótt. Í kringum hjólabrettabrun skapaðist ákveðinn menningarheimur þar sem víð föt og pönkað rokk voru í forgrunni. Samhliða þessu fór ný stefna að ryðja sér rúms hjá hjólabrettaiðkendum, svokölluð götuaðferð (e. street-style). Þá fóru hjólabrettabrunarar út fyrir hina eiginlegu garða og sýndu listir sínar inni í borginni til dæmis á torgum, tröppum og upp á handriðum og grindverkum. Þessi nýi stíll vakti fljótt athygli á hjólabrettum á nýjan leik og ekki síst með tilkomu svokallaðra hjólabrettamynda. Þessar heimildamyndir um hjólabrettakappa breiddust eins og eldur í sinu meðal ungmenna um allan heim og gerðu stjörnur úr atvinnumönnum eins og The videos made stars of vert skaters Tony Hawk og Steve Caballero og götubrunurum eins og Natas Kaupas og Mark Gonzalez. Það var þó ekki fyrr en árið 1995 sem fyrsta stórmótið á hjólabrettum var haldið og hjólabrettaiðkun fékk lögmæta viðurkenningu sem íþróttagrein. Hjólabrettin hafa því í gegnum tíðina haldið áfram að breytast og þróast og lagast að nýjum aðstæðum og breyttri notkun. Tvær gerðir hjólabretta eru algengastar í dag; hefðbundin hjólabretti (81 cm x 23 cm) sem eru einkum notuðuð við frjálsa aðferð og svo langbretti (e. long-board) (96.5 - 152.5 cm x 23 cm) sem eru aðallega notuð við keppni í bruni. Öll hjólabretti byggja þó á svipuðum þáttum. Þau samanstanda af bretti, hjólafestingum og hjólum. Einhver breytileiki er svo í lögun brettanna sjálfra en í dag eru þau þó flest rúnnuð með báða enda uppbretta (e. kick-tail). Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Unglingar tala um að „olla“ á hjólabrettum. Gaman væri að vita hvaðan það orð kemur. eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvernig getum við náð jafnvægi á hjóli með engum hjálpardekkjum? eftir Hildi Guðmundsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson
- Af hverju er auðveldara að halda jafnvægi á hjóli þegar maður er á ferð? eftir Hildi Guðmundsdóttur og Þorstein Vilhjálmsson
- Wikipedia.com. Sótt 26.7.2010.