Samkvæmt 90. grein skulu allir sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum afhenda ríkisskattstjóra skýrslu í því formi sem hann „ákveður þar sem greindar eru að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattálagningu. Skýrslu lögaðila og einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal fylgja undirritaður ársreikningur í samræmi við ákvæði laga um bókhald eða eftir atvikum laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ríkisskattstjóri getur gert lögaðilum og einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að skila skýrslu í tölvutæku formi.“ Samkvæmt 91. gr. skulu lögaðilar sem heimild hafa til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 11. gr. A laga um ársreikninga , láta fylgja undirritaðan ársreikning í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð, sbr. 1. mgr. 90. gr., um skattstofna „í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skulu fjárhæðir vera í íslenskum krónum“. Samkvæmt 92. gr. skulu, „[a]llir, sem hafa menn í þjónustu sinni og greiða þeim endurgjald fyrir starfa, ... skulu ótilkvaddir afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um greiðslur þessar ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Jafnframt skulu „[a]llir aðilar, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir og aðrir sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti, milligöngu og aðra umsýslu með hlutabréf, skuldabréf og aðra fjármálagerninga skulu ótilkvaddir afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um slík viðskipti og aðila að þeim, ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.“ Einnig skulu „[b]ankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, sem taka við fjármunum til ávöxtunar skulu ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu skv. 8. gr. laga þessara og afdregna staðgreiðslu og innstæður í bankareikningum og hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Sama gildir um hvers konar útlán til viðskiptamanna og vaxtagreiðslur af þeim.“Það gefur þó auga leið að þessi upplýsingakerfi eru ekki og geta ekki verið fullkomin. Íslensk skattyfirvöld geta beðið erlend skattyfirvöld um upplýsingar sem tengjast skattskilum íslenskra skattþegna. En til þess að slíkar beiðnir skili árangri þurfa erlend skattyfirvöld bæði að safna upplýsingum og vera tilbúin að afhenda þær. Skattaskjól einkennast af að hvorug þessara forsendna er uppfyllt. Á þessu er að hluta tekið með samvinnu skattyfirvalda milli landa, sem rætur sínar á að rekja til Þjóðabandalagsins í lok þriðja áratugar 20. aldar. Kerfi af þessu tagi eru þó ekki altæk. Þannig eru dæmi um að tekjur innanlands séu utan „eftirlitskerfisins”. Það sama á við um erlendar tekjur. Óframtöldum tekjum jafnt og framtöldum er varið til neyslu eða fjárfestinga. Séu óframtaldar tekjur notaðar til að berast á í neyslu eða til að byggja upp mikinn auð getur það vakið athygli skattyfirvalda. Til að minnka líkur á að skattyfirvöld fái veður af slíkum ósköttuðum auð er freistandi að geyma fjármuni innan lögsögu ríkis sem ekki er hluti af samstarfsneti skattyfirvalda.

Séu óframtaldar tekjur notaðar til að berast á í neyslu eða til að byggja upp mikinn auð getur það vakið athygli skattyfirvalda.

Hægt er leiða að því rök að skattagrið geti gert skattundanskot og geymslu fjár í skattaskjólum eftirsóknarverðari en ella. Myndin sýnir eyjuna Tortólu sem er stærsta eyjan í Jómfrúaeyjaklasanum.
- ^ Foreign Account Tax Compliance Act - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 18.04.2016).
- ^ Sjá grein í Nordic Tax Journal eftir höfunda: Tax Evasion, Tax Avoidance and The Influence of Special Interest Groups: Taxation in Iceland from 1930 to the Present. (Sótt 18.04.2016).
- ^ Jóhannes Hraunfjörð Karlsson (2014). Moulding the Icelandic Tax System. Primary-Industry-Based Special Interest Groups, Taxation, Tax Expenditure, Direct and Indirect State Support, and the Shaping of Tax Rules. (Sótt 18.04.2016). (MSc-ritgerð í hagfræði skrifuð undir leiðsögn Þórólfs Matthíassonar), Háskóli Íslands, Reykjavík. Jóhannes fjallar nánar um þetta í: Saga skatta og skattlagningar á Íslandi frá öndverðu til vorra daga. Óútgefið.
- ^ Sjá grein í Nordic Tax Journal eftir höfunda: Tax Evasion, Tax Avoidance and The Influence of Special Interest Groups: Taxation in Iceland from 1930 to the Present. (Sótt 18.04.2016).
- Luxury yacht - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 18.04.2016).
- British Virgin Islands.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 14. 4. 2016).