Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stjórnvöld beita ýmsum aðgerðum og aðferðum til að ýta undir rétt og góð skattskil. Skattlagning byggir á skýrslugerð skattgreiðandans. Skattgreiðandanum er gert að gefa upplýsingar sem eru þess eðlis að upplýsingagjöfin getur verið honum fjárhagslega kostnaðarsöm. Af þeim sökum skulu skattyfirvöld afla upplýsinga frá þriðja aðila til að sannreyna upplýsingagjöf skattborgarans. Skattyfirvöldum hefur orðið mikið ágengt að útvíkka þennan þátt í eftirliti sínu frá því að skriflegt framtal var lögfest hérlendis ásamt upptöku launamiða, samanber lög nr. 74/1921. Að stofni til byggja núverandi tekjuskattslög (lög nr. 90/2003) á þeim og skipta hér greinar nr. 90-92, höfuðmáli. Vert er að vekja athygli á því sem helst skiptir hér máli í viðkomandi greinum:
Samkvæmt 90. grein skulu allir sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum afhenda ríkisskattstjóra skýrslu í því formi sem hann „ákveður þar sem greindar eru að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipta við skattálagningu. Skýrslu lögaðila og einstaklinga sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal fylgja undirritaður ársreikningur í samræmi við ákvæði laga um bókhald eða eftir atvikum laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð um skattstofna í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Ríkisskattstjóri getur gert lögaðilum og einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að skila skýrslu í tölvutæku formi.“
Samkvæmt 91. gr. skulu lögaðilar sem heimild hafa til að semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli, sbr. 11. gr. A laga um ársreikninga , láta fylgja undirritaðan ársreikning í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga, ásamt sérstakri greinargerð, sbr. 1. mgr. 90. gr., um skattstofna „í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður og skulu fjárhæðir vera í íslenskum krónum“.
Samkvæmt 92. gr. skulu, „[a]llir, sem hafa menn í þjónustu sinni og greiða þeim endurgjald fyrir starfa, ... skulu ótilkvaddir afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um greiðslur þessar ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Jafnframt skulu „[a]llir aðilar, þar með taldir bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir og aðrir sem annast kaup og sölu, umboðsviðskipti, milligöngu og aðra umsýslu með hlutabréf, skuldabréf og aðra fjármálagerninga skulu ótilkvaddir afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um slík viðskipti og aðila að þeim, ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.“ Einnig skulu „[b]ankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, sem taka við fjármunum til ávöxtunar skulu ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu skv. 8. gr. laga þessara og afdregna staðgreiðslu og innstæður í bankareikningum og hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Sama gildir um hvers konar útlán til viðskiptamanna og vaxtagreiðslur af þeim.“
Það gefur þó auga leið að þessi upplýsingakerfi eru ekki og geta ekki verið fullkomin. Íslensk skattyfirvöld geta beðið erlend skattyfirvöld um upplýsingar sem tengjast skattskilum íslenskra skattþegna. En til þess að slíkar beiðnir skili árangri þurfa erlend skattyfirvöld bæði að safna upplýsingum og vera tilbúin að afhenda þær. Skattaskjól einkennast af að hvorug þessara forsendna er uppfyllt. Á þessu er að hluta tekið með samvinnu skattyfirvalda milli landa, sem rætur sínar á að rekja til Þjóðabandalagsins í lok þriðja áratugar 20. aldar. Kerfi af þessu tagi eru þó ekki altæk. Þannig eru dæmi um að tekjur innanlands séu utan „eftirlitskerfisins”. Það sama á við um erlendar tekjur.
Óframtöldum tekjum jafnt og framtöldum er varið til neyslu eða fjárfestinga. Séu óframtaldar tekjur notaðar til að berast á í neyslu eða til að byggja upp mikinn auð getur það vakið athygli skattyfirvalda. Til að minnka líkur á að skattyfirvöld fái veður af slíkum ósköttuðum auð er freistandi að geyma fjármuni innan lögsögu ríkis sem ekki er hluti af samstarfsneti skattyfirvalda.
Séu óframtaldar tekjur notaðar til að berast á í neyslu eða til að byggja upp mikinn auð getur það vakið athygli skattyfirvalda.
Það getur verið erfitt og jafnvel ómögulegt að afla réttra upplýsinga um tekjur og eignir erlendis frá, einkum þegar viðkomandi geymir þær í skattaskjóli. Baráttan gegn skattaskjólum hófst fyrir alvöru eftir hryðjuverkaárásirnar á New York 11. september 2001 en stjórnvöld vildu loka fyrir uppsprettu fjármagns hryðjuverkasamtaka. Árangur þeirra vinnu kemur meðal annars í ljós með FATCA-reglunum (e. Foreign Account Tax Compliance Act)[1], og BEPS-aðgerðaráætluninni (e. Base Erosion and Profit Shifting, BEPS) en báðar þessar aðgerðir gera ráð fyrir samræmdum, sjálfvirkum upplýsingaskilum á tekjum og eignum milli aðildaríkja. Hérlendis tóku sjálfvirk upplýsingaskipti gildi árið 2016 samkvæmt FATCA-reglunum, en taka gildi árið 2017 samkvæmt BEPS-aðgerðaráætluninni. Ábyrgðin á framkvæmdinni er í höndum embættis ríkisskattstjóra.
Samhliða auknum upplýsingaskiptum milli landa hafa mörg ríki veitt skattborgurum sínum grið þegar þeir sjálfviljugir veita upplýsingar vegna vanframtalinna tekna og/eða eigna erlendis. Ýmist eru þessar reglur tímabundnar (Danmörk) eða varanlegar (Svíþjóð). Almennt er gerð sú krafa að skattyfirvöld hafi ekki þegar hafið rannsókn á framtalsskilum, og komi í ljós síðar að skattborgari hafi ekki gefið skattyfirvöldum réttar upplýsingar falla öll grið niður og fullri refsimeðferð er beitt. Grið gera ekki ráð fyrir að fallið sé frá skattgreiðslu heldur er yfirleitt fallið frá fangelsisvist, dráttarvextir lækkaðir og oft eru sektir lækkaðar eða felldar niður.
Hægt er leiða að því rök að skattagrið geti gert skattundanskot og geymslu fjár í skattaskjólum eftirsóknarverðari en ella. Myndin sýnir eyjuna Tortólu sem er stærsta eyjan í Jómfrúaeyjaklasanum.
Áhrif slíkra griða á skattskil og skatttekjur eru mjög umdeild þar sem þeir sem nýta sér skattaskjól og/eða svíkja mest undan skatti tilheyra oft efsta lagi valdayfirstéttar viðkomandi ríkis.[2] Árið 1965 voru til dæmis öllum skattborgurum hérlendis, sem höfðu svikið undan greiðslu tekjuskatts eða söluskatts veitt grið gegn ákveðnum skilyrðum.[3] Engin áhrif eru merkjanleg á skattskil eða skatttekjur vegna þessara aðgerða. Óframtaldar tekjur hafa til dæmis verið áætlaðar á bilinu 6 til 9% af landsframleiðslu á sjöunda áratugnum, en 7 til 11% af landsframleiðslu í aðdraganda Hrunsins.[4]
Að lokum má nefna að sá sem felur fé í skattaskjóli getur ekki notað þá fjármuni með sama hætti og þá fjármuni sem geymdir eru á löglega vísu, hérlendis og erlendis. Þessi staðreynd ætti að hafa letjandi áhrif á þá sem gætu freistast til að skjóta fjármunum undan skatti og geyma í skattaskjóli. Ef skattþegar telja líklegt að skattagrið verði veitt öðru hvoru dregur væntanlega úr þessum latningaráhrifum. Þannig má leiða að því rök að skattagrið geti gert skattundanskot og geymslu fjár í skattaskjólum eftirsóknarverðari en ella.
Tilvísanir:
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. „Hversu gagnleg eru skattagrið til þess að auka skattskil og skatttekjur?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2016, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72016.
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. (2016, 18. apríl). Hversu gagnleg eru skattagrið til þess að auka skattskil og skatttekjur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72016
Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson. „Hversu gagnleg eru skattagrið til þess að auka skattskil og skatttekjur?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2016. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72016>.