Nú er oft talað um að hafa töglin og hagldirnar í einhverju. Hvað er að hafa tögl og hagldir? Voru þetta verkfæri og ef svo er hvernig voru þau notuð hér áður fyrr?Kvenkynsorðið högld var notað um horn- eða trélykkju sem reipi var dregið í gegnum þegar baggar voru bundnir. Ágæt skýringarmynd af högldum er á bls. 520 í Íslenskri orðabók Eddu frá 2002 (og síðar). Tagl í orðasambandinu merkir ‘reipi’ og orðasambandið í heild merkir ‘hafa öll ráð í höndum sér’. Það er úr heyskaparmáli. Jón Friðjónsson lýsir verklaginu vel í riti sínu Mergur málsins (2006:870). Lýsing hans er þessi: „Ef tveir unnu við heyband hélt annar um reipin (töglin) við hagldirnar (lá á bagganum) og gætti þess að reipið hlypi ekki til baka. Á honum hvíldi því ábyrgðin, hann stjórnaði verkinu, og sá sem hvort tveggja gerir ræður öllu, og ef einn batt hafði hann bæði tögl og hagldir.“ Góð skýringarmynd fylgir. Mynd:
- Sarpur - Högld. (Sótt 1.07.2016).