Á mínu heimili hefur myndast smá togstreita á milli mín og mannsins míns en ég nota iðulega orðið ristavél en hann tekur það ekki gott og gilt og notar orðið brauðrist. Því spyr ég: Er orðið ristavél ekki til?Margir spyrjendur hafa spurt Vísindavefinn sambærilegra spurninga. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans um brauðrist eru frá fyrri hluta 20. aldar. Orðið ristavél kemur þar ekki fyrir. Sama er að segja um Íslenska orðabók sem síðast var gefin út hjá Eddu. Ristavél finnst þó í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls sem aðgengileg er á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hún er einnig í Stafsetningarorðabókinni frá 2006. Elstu dæmi um ristavél á timarit.is eru úr auglýsingum frá níunda tug síðustu aldar. Orðið ristavél er því greinilega til en brauðrist er þó algengara orð yfir sama hlut. Mynd:
- Large Order Of Toast | Submitted to the Flickr group 7 Days … | Flickr. (Sótt 1.07.2016). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0