Jökulrákaðar klappir eru eitt af aðaleinkennum svæða sem skriðjöklar hafa farið yfir... Jökulsorfnir klapparhólar hafa oft sérkennilega lögun. Á þeirri hliðinni sem vísar móti skriðstefnunni, slithliðinni, en þar mæddi jökulþunginn mest á, eru þeir fremur sléttir og aflíðandi og oft fagurlega rákaðir eða rispaðir. Hliðin, sem vissi undan straumi, varhliðin, er hins vegar stöllótt og brött og oft með þverhnípt stál, enda hefur jökullinn plokkað þar úr berginu. Jökulsorfnar klappir af þessari gerð nefnast hvalbök. Þau eru mjög algeng hér á landi og setja stundum svip á landslag, svo sem á Mýrum, í Borgarfirði, Eyjafirði og á Fljótsdalshéraði. Í Reykjavík og nágrenni eru hvalbök algeng, t.d. efst í Ártúnsbrekku, á Valhúsahæð og víðar. Hvalbök gefa ásamt jökulrákum skriðstefnu jökla mjög vel og áreiðanlega til kynna og veita vitneskjum um stærð og skriðstefnu ísaldarjökla.Nafnið sjálft vísar að sjálfsögðu til þess hve líkir jökulsorfnir klapparhólar geta verið baki stórhvelis sem rekur kryppuna upp úr sjónum. Heimild og myndir:
- Þorleifur Einarsson. Jarðfræði. Saga bergs og lands. Mál og menning, Reykjavík 1968. Bls. 158-159.
- Teikning: Arthur Holmes. Principles of Physical Geology. Nelson, Edinburgh 1965. Bls. 645.
- Mynd: Roche moutonnée (C) Mat Fascione :: Geograph Britain and Ireland. (Sótt 24. 5. 2016).