Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins ólíkir og hundar geta verið er rétt að taka fram strax í upphafi að í raun tilheyra allir hundar sömu tegund. Hún kallast á latínu Canis lupus familiaris eða Canis familiaris. Tegundin greinist hins vegar í fjölmörg ólík kyn.
Það er enn deilt um það meðal vísindamanna hvenær tegundin hundur kom fram en eins og sjá má á latnesku heiti hundsins er hann svo skyldur gráúlfinum (Canis lupus) að hann telst í raun vera undirtegund úlfsins. Margt bendir til þess að deilitegundin hundur hafi komið fram í Evrasíu fyrir um 18-32 þúsund árum. Á þeim tíma var enn kuldaskeið í álfunni og akuryrkja ekki byrjuð.
Hundar hafa fylgt manninum mjög lengi en fræðimenn eru ekki á einu máli um hvernig það vildi til að samband manna og úlfa komst á og hvort það leiddi til þróunar hunda eða hvort sérstök einkenni hunda voru komin fram áður en menn tóku úlfa eða hunda í sína þjónustu. Hugsanlega hafa úlfar haldið sig nærri veiðimönnum, hirt leifar frá þeim og fylgt þeim eftir þar sem von var á æti. Þannig gæti hafa myndast varfærnislegt samband eða einhvers konar samvinna á milli manna og úlfa. Kannski hófst það þegar menn áttuðu sig á nytsemi úlfa til veiða eða varna og lærðu jafnframt að auðvelt væri að temja úlfanna og hægt að taka yrðlinga til mótunar. Hvernig sem þetta gekk fyrir sig varð afleiðingin sú að smám saman þróaðist deilitegundin hundur sem er ólík hinum villta úlfi bæði í útliti og eðli.
Hundar eru af ýmsum stærðum og gerðum en allir tilheyra þeir sömu tegundinni Canis lupus familiaris.
Í dag eru til fjölmörg hundakyn eða ræktunarafbrigði, sumar heimildir segja að hrein ræktunarafbrigði séu allt að 300 talsins. Sennilega eru um 80% þeirra yngri en 300 ára gömul en þó eru til afbrigði sem eru mörg þúsund ára gömul.
Það er ekki mögulegt að tilgreina eitt afbrigði sem það elsta í heimi en hér á eftir koma dæmi um nokkur mjög gömul hundakyn.
Ætla má að elstu ræktunarafbrigðin séu úlfsleg og beri sterkan svip af forfeðrum sínum, gráúlfinum. Dæmi um fornt hundakyn er kanadíski sleðahundurinn sem var ræktaðir af svokölluðu Thule-fólki fyrir meira en 4.000 árum síðan. Samkvæmt rannsóknum hefur þetta afbrigði haldist mjög arfhreint í langan tíma. Þessir hundar eru afskaplega fjölhæfir vinnuhundar, bæði voru þeir látnir draga þungar birgðar og einnig notaðir við veiðar á sel og hvítabirni.
Kanadískir sleðahundar (e. Canadian Eskimo Dog).
Skyldleikarannsóknir hafa sýnt að grænlenskir sleðahundar eru mjög skyldir kanadísku sleðahundunum og má fastlega telja að þetta sterkbyggða kyn sé einnig afar gamalt. Hvenær aðskilnaður varð milli þessara afbrigða er ekki vitað en sennilega hefur það orðið eftir að Inúítar námu land á Grænlandi. Dæmi um önnur gömul hundakyn á þessum slóðum eru síberískur husky og alaska malamut, en öll þessi afbrigði eru komin frá fornu sleðahundakyni sem var útbreitt meðal Inúíta á norðurslóðum fyrir meira en þúsund árum.
Svonefndir faraó-hundar eru skyldir fornum egypskum tesem-hundum sem lifðu í Egyptalandi á tímum faraóanna. Þeir finnast nú aðallega á Möltu og teljast vera þjóðarhundar Maltverja. Sagan segir að þeir hafi borist til Möltu með Fönikíumönnum fyrir meira en 2.000 árum og hefur kynið haldist nær einangrað allar götur síðan.
Líkt og faraó-hundar eru íbisa-hundar líklega upprunalega frá Egyptalandi. Þeir bárust með Fönikíumönnum til eyjunnar Íbisa í vestanverðu Miðjarðarhafi fyrir meira en 2.000 árum. Þetta eru afburðaveiðihundar, mjög sprettharðir og hafa afar næmt þefskyn.
Faraó-hundar eru gamalt hundakyn. Þeir eru upprunalega frá Egyptalandi en bárust þaðan til Möltu þar sem þeir eru í hávegum hafðir.
Norskir elghundar eru af fornu skandinavísku kyni svokallaðra spitz-hunda og teljast vera upprunalegastir af þessum norrænu kynum. Aðrir hundar af þessari ræktunarlínu eru finnskir og sænskir lapphundar og jampthundar. Um aldur þessa skandinavíska kyns veit enginn nákvæmlega en vísbendingar eru um að það sé allt að 3.000 ára gamalt. Sem dæmi um langan aldur þá hafa beinagrindur norskra elghunda fundist í fornum víkingagröfum. Norskir elghundar eru þjóðarhundar Norðmanna og teljast til þjóðargersema líkt og íslenski fjárhundurinn.
Enginn veit hversu gamalt kyn dingóar eru en þeir eru það fornir að þeir teljast vera sér deilitegund út frá gráúlfinum og kallast Canis lupus dingo. Nokkur einkenni þeirra eru frábrugðin „venjulegum“ hundum af deilitegundinni Canis lupus familiaris, meðal annars vantar dingóa smalaklóna (e. declaw) auk þess sem gelt þeirra er nokkuð frábrugðið gelti flestra annarra afbrigða. Sennilega eru dingóar komnir af úlfum sem lifðu annaðhvort á Indlandi eða suðurhluta Kína og bárust með mönnum sem numu land í Ástralíu fyrir um 4.600 til 18.000 árum. Sé það rétt eru þeir komnir af suður-asískum úlfum en ekki túndruúlfum líkt og til að mynda norskir elghundar og sleðahundar norðurhjarans. Dingóar eru í dag stærsta landrándýr Ástralíu og skæður afræningi kengúra og annarra grasbíta álfunnar.
Dingóar eru afar gamalt hundakyn og teljast raunar sérstök deilitegund.
Sönghundar frá Papúa Nýju-Gíneu er einangrað kyn sem minnir mjög á dingóa í Ástralíu og telst afar upprunalegt. Þetta eru villihundar af sömu deilitegund og dingóar, Canis lupus dingo og því nokkuð fjarskyldir familiaris-deilitegundinni sem við teljum vera eiginlega hunda. Að öllum líkindum eru sönghundarnir tugþúsund ára gamalt kyn. Nafnið fær hundurinn af sérstöku góli sem hann gefur frá sér. Lítið er vitað um vistfræði villtra sönghunda en eitthvað hefur verið um að þeir hafa verið tamdir og þá reynst ágætur félagsskapur.
Að lokum liggur leið okkar suður til Afríku, nánar tiltekið til miðhluta álfunnar þar sem í dag er Kongó. Þar er fornt afbrigði sem kallast basenji og minnir um margt á hina egypsku tesem-hunda. Samanburðarrannsóknir á erfðaefni hinna ýmsu úlfastofna benda til þess að basenji-hundar séu komnir af suður-asískum úlfum, jafnvel suður-kínverskum líkt og dingóar. Það leiðir hugann að því hvort besenji séu komnir beint af dingóum en ekki hefur tekist að sýna fram á það.
Heimildir og myndir:
Clutton-Brock, Juliet (1999). A natural history of domesticated (2 útg.). Natural History Museum (London, England): Cambridge University Press.
Jón Már Halldórsson. „Hver er elsta hundategund í öllum heiminum?“ Vísindavefurinn, 6. janúar 2017, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71793.
Jón Már Halldórsson. (2017, 6. janúar). Hver er elsta hundategund í öllum heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71793
Jón Már Halldórsson. „Hver er elsta hundategund í öllum heiminum?“ Vísindavefurinn. 6. jan. 2017. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71793>.