Hvenær kom fyrsta uppþvottarvélin til Íslands og hvenær urðu þær algengar á íslenskum heimilum?Fyrstu uppþvottavélarnar voru gerðar í Bandaríkjunum um miðja 19. öld. Leirtaui og borðbúnaði var snúið í þessum vélum með handafli á meðan vatn sprautaðist yfir. Þessar fyrstu vélar þóttu ekki nógu hentugar og festu sig ekki í sessi. Fyrsta nothæfa uppþvottavélin kom fram nokkrum áratugum seinna og er hún uppfinning konu að nafni Josephine Garis Cochrane (1839-1913) sem bjó í Shelbyville í Illinoisfylki í Bandaríkjunum. Cochrane fékk einkaleyfi á uppfinningu sinni í árslok 1886 en hún hannaði fyrstu gerð vélarinnar með aðstoð vélvirkjans George Butters. Að sögn líkaði Cochrane ekki hvernig þjónustufólk hennar fór með postulín heimilisins við uppvask. Hún lagði þess vegna höfuðið í bleyti og kom fram með hugmynd um vél sem gæti komið í stað uppvaskaranna. Vélin var eins konar koparketill með láréttu hjóli í botninum. Í hjólinu voru hólf sem diskar, bollar og undirskálar pössuðu í. Hjólinu var snúið með handafli og heitt sápuvatn sprautaðist úr botni ketilsins upp á leirtauið og lak svo niður. Þetta var í fyrsta skipti sem vatnsþrýstingur var notaður til að hreinsa óhreinindi en ekki einhvers konar burstar.

Teikning sem fylgdi umsókn Josephine Cochrone fyrir einkaleyfi á uppþvottavél. Fleiri teikningar og útskýringar á þeim má sjá með því að smella á viðeigandi heimild hér neðst í svarinu.

Auglýsing um SterilVask-uppþvottavélina sem birtist í Alþýðublaðinu 23. desember 1943. Vélin var íslensk hönnun og smíði.
Vél þessi er eins og skápur í laginu, hvítgljáandi og er henni komið fyrir ofan við eldhúsvask. Er þannig mjög auðveltað tengja hana við heitavatnskranann, með stuttri gúmmíslöngu, en heita vatnið, sem úr vélinni rennur, meðan hún er í gangi, fer niður í vaskinn og má ef til vill nota það til að þvo upp með potta og pönnur meðan vélin er í gangi. Í vélinni er tvær hillur og eru á neðri hilluna settir diskar, en glös, bollar, skeiðar o.fl. á efri hilluna. Skápurinn rúmar venjulegan borðbúnað fimm manna fjölskyldu. Að aflokinni máltíð þarf húsmóðirin aðeins að setja borðbúnaðinn inn í uppþvottavélina, loka hurðinni og opna fyrir heitvatnskranann. Tekur þá vélin til starfa og má þá að fimm mínútum liðnum taka út allan borðbúnaðinn, hreinþveginn og þurrkaðan, þannig að aðeins þarf að strjúka yfir hann með þurrumklút. —Talið er að þvotturinn sé sóttkveikjudrepandi og nefnir verkfræðingurinn vélina í samræmi við það „sterilvask". Með því að nota sér þetta geta reykvískar húsmæður losnað að mestu við óþægindi þau og tímaeyðslu, er samfara er venjulegum uppþvotti, losnað við óhreina klúta og aukið heilbrigðislegt öryggi heimilisfólksins. (Vísir, 21. 12. 1943, bls. 2)Heimildir:
- Dishwasher - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 29. 2. 2016).
- No. 1476 Inventing the Dishwasher. (Skoðað 29. 2. 2016).
- Woman Invented Dishwasher | USPTO. (Skoðað 29. 2. 2016).
- JOSEPHINE COCHRANE (1839-1913) Invented the Dishwasher | FORGOTTEN NEWSMAKERS. (Skoðað 29. 2. 2016).
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
- Vísir, 21.12.1943 - Timarit.is.
- Teikning af fyrstu Cochrane uppþvottavélinni: Josephine Garis Cochrane Dishwasher Patent 1886. (Sótt 29. 2. 2016).
- Mynd af auglýsingu: Alþýðublaðið, 22.12.1943 - Timarit.is. (Sótt 3. 3. 2016).