Við hjúin veltum fyrir okkur nýverið hvaðan upphrópunin eða notkun orðsambandsins „alla malla“ (með mjúkum L-um) kemur?Upphrópunin alla malla þekkist á prenti að minnsta kosti frá því fyrir miðja 20. öld. Elsta dæmi á timarit.is er úr blaðinu Fálkanum frá 1946: „— Stórkostlegt! sagði frú Petra. — Alla malla, sagði Dúlla Kalla. — Skrattinn sjálfur, sagði Örn skipstjóri og ræskti sig.“ Í talmáli er upphrópunin eldri og nær ómögulegt að segja hversu gömul hún er. Heimildarmaður hafði samband við mig og sagðist muna eftir henni í rúm áttatíu ár. Hún hefði bæði verið notuð jákvætt: „Alla malla hvað þú ert í fallegum kjól“ og neikvætt: „Alla malla, hamagangurinn í krakkkanum.“ Annar heimildarmaður rakti upprunann til þess að danskur maður, búsettur hérlendis, hafi átt í erfiðleikum með að segja „almáttugur minn“ og sagði eitthvað í líkingu við „alla malla“. Að baki alla malla er án efa upphrópunin „almáttugur“ sem margir nota enn, einkum til að tjá aðdáun, undrun eða hræðslu. Ekki þótti hér áður fyrr rétt að leggja nafn Guðs við hégóma en almáttugur er í bænamáli mjög tengt því: almáttugur, góður Guð. Alla malla var því ágæt lausn. Mynd:
- Henry Every - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 25.02.2016).