Til þess að byssur yrðu til í aldanna rás þurftu menn aðallega tvennt: Í fyrsta lagi kunnáttu til að smíða byssurnar sjálfar og skotin, og í öðru lagi þekkingu á púðri og púðurgerð. Fyrra atriðið kom til smám saman í Evrópu í framvindu sögunnar frá steinöld til bronsaldar og þaðan til járnaldar. Að því er varðar síðara atriðið, púðurgerðina, þá tókst Kínverjum það fyrstum manna á áttundu öld eftir Krist eða svo. Þessi þekking og kunnátta barst svo til Evrópu frá Kína á þrettándu öld.Til eru lýsingar á notkun einhvers konar frumstæðrar fallbyssu í hernaði í Kína á fyrri hluta 12. aldar. Talið er að elsta byssa sem fundist hefur sé vopn sem fannst í þorpi í Mansjúríu í Kína og er hún frá um 1290. Múslimar voru farnir að nota einhvers konar handfallbyssur á 13. öld. Smám saman þróuðust byssur frekar og tæknin breiddist út. Fyrst er getið um múskettur (framhlaðninga, forvera riffils) í Kína á 14. öld en seinna í Evrópu. Múskettur urðu með tímanum helsta vopn fótgönguliða og héldu þeim sess allt fram á 19. öld þegar rifflar tóku við. Vitað er að skammbyssur voru komnar fram á sjónarsviðið á 15. öld en þær náðu ekki útbreiðslu fyrr en kom fram á 19. öldina. Heimildir:
- Gun and Gunpowder á Silkroad Foundation. Sótt 4. 3. 2008.
- Á Wikipedia
- Early Modern warfare. Sótt 4. 3. 2008.
- Musket. Sótt 4. 3. 2008.
- Rifle. Sótt 4. 3. 2008.
- Handgun. Sótt 4. 3. 2008.
Þetta svar er í flokknum „bekkirnir spyrja“ þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.