Er mögulegt að orðið „dandalast“ sé komið frá Enrico Dandolo, sem að var blindur og reið hesti í slagtogi með krossförum til Konstantínópel?Þegar hefur verið skrifað um sögnina að dandalast á Vísindavefnum (sjá svar saman höfundar við spurningunni Hvaðan er orðið "dandalast" komið í þeirri merkingu að vera með einhverjum?). Hún kemur fram í málinu á 18. öld og hana þekkti Jón Ólafsson úr Grunnavík, ritari Árna Magnússonar, sem var afar vel lesinn í fornum bókmenntum. Hann nefnir ekki tengsl við Dandolo í orðabókarhandriti sínu (AM 433 fol.) sem skýringu við dandali eða við samsett orð með dandala- sem fyrri lið. Enrico Dandolo fæddist á 12. öld og lést 1205. Ég fæ ekki séð að nafn hans hafi skilið eftir merki í orðaforða nágrannaþjóða eins og Englendinga, Þjóðverja eða Norðurlandaþjóða og orðsifjabækur, sem ég hef flett í, nefna ekki þessi hugsanlegu tengsl. Ég hygg því að skýring Ásgeirs Blöndal Magnússonar í Íslenskri orðsifjabók (1989: 106) verði að nægja þar til óyggjandi tengsl við Dandolo koma fram. Mynd:
- EnricoDandolo.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 9. 3. 2016).