Staðarnafnið Kleifar er algengt. Kleifar í Skötufirði, Kleifar í Seyðisfirði. Magnea frá Kleifum (í Kalbaksvík). Svo hef ég heyrt talað um að Kleifarnar og hef skilið það þannig að fara fram á lága kletta til að sjá fram af þeim. Þá er til Hestakleif milli Mjóafjarðar og Ísafjarðar við Djúp. Hvað þýðir þetta orð kleifar?Það er rétt að heitið Kleifar eða einhver mynd þess finnst á nokkrum stöðum á landinu. Í Bæjartali, gagnasafni á vef Stofnunar Árna Magnússonar sem geymir íslensk bæjarnöfn, kemur heitið Kleif fimm sinnum fyrir og Kleifar átta sinnum. Auk þess eru bæjarheitin Kleifarkot, Kleifarstekkur, Kleifastaðir og Kleifaárvellir þar að finna. Varðandi örnefnið Kleif eða Kleifar má benda á Örnefnasjá á vef Landmælinga Íslands. Orðið kleif getur merkt ‘halllendi, brött brekka (grýtt)’ eða ‚hæð‘, einnig ‚geil í fjallshlíð eða fjallsskarð‘, skylt orðunum klífa og klif. Fleirtalan kleifar merkir oft ‚ávalir eða afsleppir klettar‘. (Íslensk orðabók, 784; Ásgeir Blöndal Magnússon, 473). Á vef Stofnunar Árna Magnússonar er að finna ítarlegri umfjöllun um örnefni með orðliðnum -kleif. Heimildir og mynd:
- Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
- Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. prentun. Reykjavík 2005.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 13. 5. 2016).