Guttormur hét maður, sonur Sigurðar hjartar; hann var móðurbróðir Haralds konungs; hann var fósturfaðir konungs og ráðamaður fyrir landi hans, því að konungur var þá á barns aldri, fyrst er hann kom til ríkis. Guttormur var hertogi fyrir liði Haralds konungs, þá er hann vann land undir sig, og var hann í öllum orustum, þeim er konungur átti, þá er hann gekk til lands í Noregi.Þessi Guttormur hefur þess vegna ekki verið neinn aukvisi! Guttormur var notað á Norðurlöndum frá fornu fari. Í bókinni Nöfn Íslendinga segir þetta um nafnið:
Að baki nafninu Guttormur liggja fornnorrænu karlmannsnöfnin Guðþorm(u)r, Guðorm(u)r, sbr. fornsænsku Guthormber, í forndönsku Guththorm. Þetta eru hugsanlega tvímyndir af sama orðinu, þ.e. Guðþormur, skylt sögninni þyrma "vægja, hlífa, sýna mjúklæti og miskunn", merkir í raun "sá sem Guð þyrmir". Einnig er hugsanlegt að Guðormur sé af öðrum toga, sett saman af Guð- og ormur.Við getum þess vegna svarað spurningunni hér fyrir ofan með því að segja að Guttormur sé fornt norrænt nafn. Heimildir:
- Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni, Nöfn Íslendinga, Mál og menning, Reykjavík, 1991.
- Egils saga
- Landnámabók
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.