Hvenær mynduðust jöklarnir sem nú eru á Íslandi? Eru þeir leifar af stóra jökulskildinum sem náði yfir allt landið?Talið er að fyrir sex þúsund árum hafi nær allir jöklar frá síðasta kuldaskeiði verið horfnir af Íslandi. Í meira en þúsund ár hafði verið 2-3 °C hlýrra en nú er. Þá breiddist birki yfir stóran hluta landsins. Fyrir um fjögur þúsund árum kólnaði nokkuð og enn meira fyrir tvö þúsund og fimm hundruð árum, og þá tóku jöklar að myndast aftur á hæstu fjöllum. Svo uxu þessir jöklar og til urðu allir meginjöklar landsins. Birkikjarr lét undan síga á láglendi og heiðum en mýrlendi stækkaði. Á kuldaskeiði frá um 1300 til 1900 uxu jöklarnir enn frekar og um 1890 náði einn skriðjökla Vatnajökuls (Breiðamerkurjökull) næstum í sjó fram. Síðan hafa jöklarnir rýrnað, einkum síðustu tuttugu ár.
Þetta svar er úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Myndin er úr sömu bók og er eftir Þórarin Má Baldursson. Hvort tveggja er birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.