Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Mikið finnst mér orðið sem er notað núna „uppreist æru“ undarlegt. Væri ekki betra að segja „uppreist æra“ eða að menn fái „uppreista æru“? Ég hef aldrei heyrt þetta notað svona. Alltaf „uppreisn æru“.
Í íslensku lagamáli er talað um „uppreist æru“. Þetta á einkum við almenn hegningarlög (nr. 19/1940), svo og lög um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, en viðkomandi ákvæði þeirra laga byggjast á hegningarlögunum. Orðalagið er þó mun eldra í lagamáli, og kemur að minnsta kosti fyrir í „Tilskipun fyrir Ísland um uppreist á æru“ sem konungur gaf út árið 1870. Mörgum kemur þetta orðalag spánskt fyrir sjónir og vilja heldur tala um uppreisn æru. Hvers vegna er myndin uppreist notuð í lagamáli; og er jafngilt að tala um uppreist æru og uppreisn æru?
Bæði uppreist og uppreisn eru kvenkynsnafnorð, mynduð af reisa upp. Bæði orðin koma fyrir í fornu máli – uppreist þó mun algengara – og merkja ‘bæting stöðu eða aðstæðna’ („Forbedring af Stilling eller Vilkaar“) samkvæmt orðabók Fritzners (Ordbog over Det gamle norske Sprog). Það er merkingin sem orðin hafa í uppreist/uppreisn æru. En auk þess merkir uppreist í fornu máli ‘samblástur til að sýna fjandskap’ („Reisning, Opstand til Udøvelse af Fiendtligheder“) samkvæmt Fritzner, en uppreisn kemur ekki fyrir í þeirri merkingu að fornu – sem er þó algengasta merking orðsins í nútímamáli.
Fyrsta síða úr „Tilskipun fyrir Ísland um uppreist á æru“ sem konungur gaf út árið 1870. Fengið úr Lovsamling for Island.
Þegar komið er fram á 17. öld má þó finna dæmi um bæði orðin í báðum merkingum. Á seinni hluta 19. aldar virðast orðin vera alger samheiti, og eru álíka algeng ef marka má tímarit.is. Upp úr aldamótunum 1900 fer að draga í sundur með orðunum – uppreisn verður sífellt algengari mynd en uppreist sjaldgæfari. Dæmum um uppreist fækkar sérstaklega eftir 1960, og á tímabilinu frá 1980 til dagsins í dag eru 100 sinnum fleiri dæmi um uppreisn en um uppreist á tímarit.is. Lengst af hafa bæði orðin báðar merkingarnar, en síðasta aldarfjórðunginn eða svo kemur uppreist þó nær eingöngu fyrir í sambandinu uppreist æru.
Vegna þess að myndin uppreist er nær horfin úr málinu er eðlilegt að fólk hvái þegar það heyrir hana og haldi jafnvel að um villu sé að ræða. Sumir hafa líka gert því skóna að á orðunum uppreist og uppreisn sé merkingarmunur – það fyrrnefnda merki ‘endurreisn’ en það síðarnefnda ‘upprisa gegn valdi’. Slík aðgreining styðst þó ekki við neina hefð, eins og áður segir, og þótt visulega megi segja að uppreist hafi glatað merkingunni ‘upprisa gegn valdi’ á allra síðustu árum lifa báðar merkingar góðu lífi í uppreisn.
Í fornu máli merkti uppreist ‘samblástur til að sýna fjandskap’. Áströlsk áróðursmynd frá árinu 1808 sem tengist svonefndri Rommuppreisn.
Þegar hugtakið „uppreist æru“ kom inn í lagamálið voru báðar myndirnar uppreist og uppreisn algengar í málinu og höfðu sömu merkingu. Ekki er hægt að fullyrða neitt um það hvers vegna myndin uppreist var notuð í þessu sambandi í lagamálinu í upphafi – ef til vill hefur það verið alger tilviljun. Hins vegar er alþekkt að lagamál er íhaldssamt og þess vegna eðlilegt að uppreist haldist þar í þessu sambandi þótt sú mynd verði undir í almennu máli.
En í almennu máli er langoftast talað um uppreisn æru – dæmin um það samband á tímarit.is eru 20 sinnum fleiri en dæmin um uppreist æru. Þótt myndin uppreisn sé ekki notuð í texta laganna er hún stundum notuð í lagamáli, til dæmis finnast dæmi um hana bæði í héraðsdómum og hæstaréttardómum. Það verður því ekki séð að neitt sé athugavert við það að tala um uppreisn æru í stað uppreist æru, ef menn kjósa svo, enda hefði fyrrnefnda myndin rétt eins getað ratað inn í lagatexta á sínum tíma.
Myndir:
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvort er réttara að tala um uppreisn æru eða uppreist æru?“ Vísindavefurinn, 26. janúar 2016, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71450.
Eiríkur Rögnvaldsson. (2016, 26. janúar). Hvort er réttara að tala um uppreisn æru eða uppreist æru? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71450
Eiríkur Rögnvaldsson. „Hvort er réttara að tala um uppreisn æru eða uppreist æru?“ Vísindavefurinn. 26. jan. 2016. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71450>.