Hvernig er orðtakið „að rota jólin“ hugsað? Hvaðan er það komið? Hvernig rotar maður jólin? Er það gamall siður?Orðatiltækið að rota jólin er þekkt að minnsta kosti frá síðari hluta 19. aldar. Það var haft um hvers kyns veislu- og hátíðahöld á þrettándanum, sem er seinasti dagur jóla. Orðatiltækið vísar til þess að rækilegur botn er sleginn í jólin. Á þrettándann var til siðs að bera fram það sem enn var eftir af jólamat og drykk. Með þeim veisluhöldum rotuðu menn jólin. Í grein í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags árið 1894 segir höfundurinn Ólafur dbrm. Sigurðsson frá veisluhöldum á þrettándanum:
En þar á mót vissi jeg til, að þrettándinn var af sumum talinn tyllidagur, og var það góðgætis-át kallað að rota jólin.Í Þjóðólfi tæpum 10 árum fyrr (1886) er annað dæmi um orðatiltækið. Þar er þrettándabrenna til marks um að jólin séu rotuð:
Jólin voru rotuð hér á þrettándakveld með brennu nálægt skólavörðunni og blysför og álfadans, sem skólapiltar hjeldu suður á tjörninni.
- Árni Björnsson, Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning 1993.
- Þjóðólfur - 2. tölublað (08.01.1886) - Tímarit.is. (Sótt 20.12.2021).
- Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags - Megintexti (01.01.1894) - Tímarit.is. (Sótt 16.12.2021).
- Álfabrenna á Melavellinum á þrettándanum 1974. Ljósmynd úr safni Tímans: Facebook. (Sótt 21.12.2021).