Af hverju heita rúsínur þessu nafni en aðrir þurrkaðir ávextir eru bara kallaðir t.d. þurrkaðir banananar, þurrkuð jarðarber o.s.frv.?Orðið rúsína er tökuorð í íslensku yfir þurrkuð vínber. Elsta myndin er rúsín og kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu 1584 (1Sam 25:18). Þá mynd notaði einnig Þorlákur Skúlason í biblíuþýðingunni 1644 og Steinn Jónsson í þýðingunni 1728 en í þýðingunni frá 1813 er komið orðið rúsína. Hallgrímur Pétursson notaði myndina rúsín í kvæði og hún er einnig notuð í dómabók frá 1724:
Sikur rusjn og sveskur - - - - 48 fiskar.

Uppruni orðsins rúsína er í miðaldalatínu. Orðið rúsína varð einrátt yfir þurrkuð vínber þegar á 18. öld.
Eru þær [þ.e. vínþrúgur] stundum nýar sognar og þurkadar, og at því búnu Rúsínur heitnar.Í heimild frá 1786 eru nefndir þrír þurrkaðir ávextir:
Rúsínur, kórennur og Svedskiur.Þegar á 18. öld varð orðið rúsína einrátt yfir þurrkuð vínber. Það er tökuorð úr dönsku rosin sem aftur þáði orðið úr þýsku Rosine. Í þýsku barst orðið úr fornfrönsku rosin. Upprunans er að leita í miðaldalatínu racimus, racēmus ‘(vínberja)klasi’ en orðinu ūva ‘ber’ er sleppt. Enska myndin raisin er fengin að láni úr frönsku raisin. Eins og fram kom áðan eru bæði kúren(n)ur og sveskjur þurrkaðir ávextir og eru bæði orðin tökuorð úr dönsku, sveskja frá 18. öld, eiginlega ‘plóma frá Damascus’, á latínu damascēna (prūna) en kúren(n)a frá 19. öld, eiginlega ‘frá Kórintuborg’. Aðrir þurrkaðir ávextir voru fluttir inn án þess að með þeim flyttust sérstök orð, til dæmis epli og apríkósur. Í hinum tilvikunum bárust tökuorðin til landsins með þurrkuðu ávöxtunum. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Halldór Halldórsson. 1958. Nokkur ávaxtaheiti. Örlög orðanna. Bókaforlag Odds Björnssonar, Akureyri.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
- Raisin - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 21.03.2016).