Hvers vegna er íslenski ritháttur alþjóðaorðsins symphony (symfony)" sinfónía? M hefur breyst í N og Y hefur breyst í I.Rithátturinn sinfónía er nokkuð gamall í málinu. Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elst dæmi frá 1925 en á Tímarit.is frá 1926. Frá svipuðum tíma er rithátturinn sinfóníutónleikar og sinfóníuhljómsveit. Vissulega er rétt að Englendingar skrifa symphony og Frakkar symphonie en Ítalir nota ritháttinn sinfonia og Þjóðverjar bæði sinfonie og symphonie. Danir nota symfoni og hefur sá ritháttur hugsanlega borist hingað frá Danmörku. En um miðja 20. öld var tónlistarmálið hér ekki síður sótt til Þýskalands og Ítalíu og það skýrir tvenns konar rithátt hérlendis. Rithátturinn með -in- varð síðan ofan á, til dæmis í nafni Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1956. Við höfum einnig þegið ritháttinn sinfónía að láni. Í bók dr. Hallgríms Helgasonar tónskálds, Tónmenntir, er eftirfarandi klausa:
Brahms gerði skemmtilega greinarmun á sinfóníu og symfóníu, er hann sagðist hafa samið eina sinfóníu en þrjár symfóníur. Með þessari einu á hann við verk sitt nr. 2 í D-dúr. (l–ö:200)Orðið sinfónía er fengið að láni úr miðaldalatínu symphōnia og var upphaflega notað um hljóðfæri, samanber symfón í íslenskum heimildum. Síðar fékk það merkinguna 'hljómkviða'. Latneska orðið er ættað úr grísku þar sem syn- merkir 'sam' og phōnē 'rödd, hljómur'. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Hallgrímur Helgason. 1980. Tónmenntir l–ö: Alfræði Menningarsjóðs. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, Reykjavík.
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
- File:Gaga Symphony Orchestra.jpeg - Wikimedia Commons. (Sótt 23.05.2016).