Orðin huldufólk og álfar merkja nú í flestra hugum eitt og hið sama. Álfar eru oft nefndir ásamt ásum í Eddukvæðum og stöku sinnum í dróttkvæðum og fornsögum. Engar lýsinga eru samt á atferli þeirra eða útliti nema á einum stað í Snorra Eddu þar sem þeim er skipt í ljósálfa og dökkálfa. Búa ljósálfar í Álfheimum og eru fegri en sól sýnum en dökkálfar búa í jörðu niðri og eru svartari en bik. Samt eru þeir sagðir enn ólíkari ljósálfum að innræti. Orðið huldumaður sést ekki á bók fyrr en seint á 15. öld og huldufólk ekki fyrr en á 17. öld. Þetta orð vann hinsvegar mjög á síðustu þrjár aldir en álfur fékk aukamerkinguna afglapi. Ef nokkur blæmunur er á orðunum í þjóðsögum er hann helst sá að oft sést getið um kóngafólk meðal álfa en ekki hjá huldufólki. Ljúflingar er enn eitt nafn á þessum vættum.Heimildir og mynd:
- Íslensk orðabók, 2. útgáfa. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Reykjavík, Bókaútgáfa menningarsjóðs, 1988.
- Árni Björnsson. Íslenskt vættatal. Reykjavík, Mál og menning, 1990.
- Mynd: Myndlist.is. (Sótt 23. 9. 2016).