Er það ekki rétt hjá mér að þegar sagt er að 'skel hæfi kjafti', þá sé það yfirleitt í neikvæðri merkingu? Og af hverju er orðatiltækið dregið?Orðasambandið þar hæfir skel kjafti er í þessari mynd kunnugt frá 19. öld. Fleiri afbrigði eru til af því og er hið elsta í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans „þar hæfir spónn kjafti“ frá miðri 17. öld. Í málsháttasafni Guðmundar Jónssonar frá 1830 er afbrigðið „þar hæfir spónn múla, en skél kjapti“. Múli er notað um snoppu á skepnu og er ekki alveg ljóst hvers vegna spónninn hæfir henni. Spónn getur verið matskeið einkum úr horni eða beini en einnig agn af sérstakri gerð notað til fiskveiða. Lúðvík Kristjánsson sagnfræðingur nefnir afbrigði sem er í málsháttasafni Hallgríms Scheving frá 1843–1847:
hæfir kjapti skørdug skel (hæfir skelin kjapti)en einnig „hæfir skel kjafti (tranti)“ og „hæfir spónn múla, en skel kjafti“. Hann skrifaði:
Skeljar voru fyrrum notaðar sem spænir. Einkum gerðist það, þar sem skarðast var um búsmuni. Líklegt er þó, að jafnvel á efnaheimilum hafi beiningafólki verið fengnar skeljar til að matast með, þegar það var fjörförult og kom í senn margt á sama bæinn. (I: 151).

Fyrr á tíð voru skeljar stundum notaðar sem matskeiðar. Orðasambandið þar hæfir skel kjafti er alltaf notað í neikvæðri merkingu.
- Lúðvík Kristjánsson. 1980–1986. Íslenzkir sjávarhættir. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
- File:Oysters on the half shell, raw.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 25.05.2016).