Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig kom það til að fyrsta Keflavíkurgangan var haldin?

Stefán Pálsson og Páll Hilmarsson

Í október 1957 var samþykkt tillaga hjá Rithöfundafélagi Íslands þess efnis að félagið beitti sér fyrir almennum borgarafundi í Reykjavík til að herða á kröfunni um brottför Bandaríkjahers frá Íslandi. Fundurinn var haldinn í Gamla bíói 8. desember. Þessu var fylgt eftir með stofnun samtakanna „Friðlýst land“ 20. mars 1958. Helsta starf samtakanna var útgáfa samnefnds bæklings og blaðs auka fundahalda víða um land.

Á aðalfundi haustið 1958 var kosið fimmtán manna framkvæmdaráð. Meðal fulltrúa var rithöfundurinn Einar Bragi sem einnig sat í ritnefnd ásamt Ragnari Arnalds og Bjarna Benediktssyni frá Hofteigi. Rökrétt er að líta á þessi samtök sem forvera Samtaka hernámsandstæðinga.

Fyrsta Keflavíkurgangan var haldin þann 19. júní árið 1960.

Fyrsta Keflavíkurgangan var haldin þann 19. júní árið 1960. Undirbúningur hennar var skammur og var fjölmiðlum fyrst kynnt hugmyndin á blaðamannafundi í Unuhúsi tíu dögum fyrr. Hugmyndin að göngunni var fengin frá Bretlandi og hafði hún verið rædd í fulltrúaráði samtakanna „Friðlýst land“ þá um veturinn. Upp úr því myndaðist þrettán manna hópur sem ákvað að efna til göngu gegn herstöðinni á Miðnesheiði og sjá um skipulagningu hennar.

Í hópnum voru: Ólafur Pálmason, Hannes Sigfússon, Einar Bragi, Drífa Viðar, Guðmundur Magnússon, Þorvarður Örnólfsson, Tryggvi Emilsson, Ragnar Arnalds, Björn Þorsteinsson, Jónas Árnason, Ása Ottesen, Kjartan Ólafsson og Kári Arnórsson.

Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur söfnuðust saman við hlið herstöðvarinnar að morgni, héldu stuttan fund en gengu síðan áleiðis til Reykjavík eftir Keflavíkurveginum.

Lögð var áhersla á að þeir sem ætluðu að ganga alla leið skráðu sig til leiks á skrifstofu göngunnar í Mjóstræði 3. Um 250 svöruðu kallinu og stóðu velflestir við stóru orðin og gengu frá hliði herstöðvarinnar til Reykjavík eftir Keflavíkurveginum. Leiðin er um 50 km löng. Veðrið lék þennan fyrsta Keflavíkurgönguhóp heldur grátt með regnhraglanda, auk þess sem lítil reynsla var komin á hvernig best væri að haga sér á slíkum ferðum. Einhverjir munu hafa mætt prúðbúnir og gengið á blankskóm en máttu súpa seyðið af því með hælsæri og blöðrum. Um miðja vegu hafði verið komið fyrir tjaldi þar sem boðið var upp á heita súpu og sýrublöndu hópnum til hressingar.

Á myndinni til vinstri sést m.a. Þórbergur Þórðarson. Hann var í hópi göngumanna þótt ekki gengi hann alla leið. Á myndinni til hægri sést Áslaug Thorlacius ásamt Kristínu dóttur sinni og dótturdóttur.

Einar Bragi ýtti göngunni úr vör með ávarpi þar sem hann hét viðstöddum því að þúsundir myndu slást í hópinn áður en á leiðarenda yrði komið. Sú digurbarkalega spásögn rættist. Nokkur þúsund manns gengu síðasta spölinn og fylgdust með útifundi við Miðbæjarskólann þar sem Jóhannes úr Kötlum, Gils Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jónas Árnason og Þorvarður Örnólfsson héldu stutt ávörp.

Eftir gönguna var ákveðið að halda skrifstofu hennar lengur opinni og hefja þegar undirbúning að stofnun formlegra félagasamtaka. Það var gert á Þingvallafundi síðar um sumarið þar sem Samtök hernámsandstæðinga voru formlega stofnuð. Urðu þau þá þegar leiðandi afl í baráttunni gegn herstöðvum á Íslandi.

Alls urðu Keflavíkurgöngur ellefu talsins. Aðrar göngur voru haldnar árin: 1961, 1964, 1965, 1968, 1976, 1978, 1981, 1983, 1987 og 1991.


Texti þessa svars og myndirnar birtust áður á sögusýningunni Keflavíkurgöngur í 50 ár. Sýningin var opnuð í Þjóðarbókhlöðu 30. mars 2010. Hægt er að lesa um sýninguna hér: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn: Forsíða. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Upprunalega spurningin frá Bárði Bjarka hljóðaði svona: Hvers vegna er ekkert um Keflavíkurgöngunar á vefnum ykkar?

Höfundar

Stefán Pálsson

sagnfræðingur

Páll Hilmarsson

B.A. í mannfræði

Útgáfudagur

5.11.2015

Spyrjandi

Bárður Bjarki Lárusson

Tilvísun

Stefán Pálsson og Páll Hilmarsson. „Hvernig kom það til að fyrsta Keflavíkurgangan var haldin?“ Vísindavefurinn, 5. nóvember 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71009.

Stefán Pálsson og Páll Hilmarsson. (2015, 5. nóvember). Hvernig kom það til að fyrsta Keflavíkurgangan var haldin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71009

Stefán Pálsson og Páll Hilmarsson. „Hvernig kom það til að fyrsta Keflavíkurgangan var haldin?“ Vísindavefurinn. 5. nóv. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71009>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig kom það til að fyrsta Keflavíkurgangan var haldin?
Í október 1957 var samþykkt tillaga hjá Rithöfundafélagi Íslands þess efnis að félagið beitti sér fyrir almennum borgarafundi í Reykjavík til að herða á kröfunni um brottför Bandaríkjahers frá Íslandi. Fundurinn var haldinn í Gamla bíói 8. desember. Þessu var fylgt eftir með stofnun samtakanna „Friðlýst land“ 20. mars 1958. Helsta starf samtakanna var útgáfa samnefnds bæklings og blaðs auka fundahalda víða um land.

Á aðalfundi haustið 1958 var kosið fimmtán manna framkvæmdaráð. Meðal fulltrúa var rithöfundurinn Einar Bragi sem einnig sat í ritnefnd ásamt Ragnari Arnalds og Bjarna Benediktssyni frá Hofteigi. Rökrétt er að líta á þessi samtök sem forvera Samtaka hernámsandstæðinga.

Fyrsta Keflavíkurgangan var haldin þann 19. júní árið 1960.

Fyrsta Keflavíkurgangan var haldin þann 19. júní árið 1960. Undirbúningur hennar var skammur og var fjölmiðlum fyrst kynnt hugmyndin á blaðamannafundi í Unuhúsi tíu dögum fyrr. Hugmyndin að göngunni var fengin frá Bretlandi og hafði hún verið rædd í fulltrúaráði samtakanna „Friðlýst land“ þá um veturinn. Upp úr því myndaðist þrettán manna hópur sem ákvað að efna til göngu gegn herstöðinni á Miðnesheiði og sjá um skipulagningu hennar.

Í hópnum voru: Ólafur Pálmason, Hannes Sigfússon, Einar Bragi, Drífa Viðar, Guðmundur Magnússon, Þorvarður Örnólfsson, Tryggvi Emilsson, Ragnar Arnalds, Björn Þorsteinsson, Jónas Árnason, Ása Ottesen, Kjartan Ólafsson og Kári Arnórsson.

Keflavíkurgöngur fóru þannig fram að þátttakendur söfnuðust saman við hlið herstöðvarinnar að morgni, héldu stuttan fund en gengu síðan áleiðis til Reykjavík eftir Keflavíkurveginum.

Lögð var áhersla á að þeir sem ætluðu að ganga alla leið skráðu sig til leiks á skrifstofu göngunnar í Mjóstræði 3. Um 250 svöruðu kallinu og stóðu velflestir við stóru orðin og gengu frá hliði herstöðvarinnar til Reykjavík eftir Keflavíkurveginum. Leiðin er um 50 km löng. Veðrið lék þennan fyrsta Keflavíkurgönguhóp heldur grátt með regnhraglanda, auk þess sem lítil reynsla var komin á hvernig best væri að haga sér á slíkum ferðum. Einhverjir munu hafa mætt prúðbúnir og gengið á blankskóm en máttu súpa seyðið af því með hælsæri og blöðrum. Um miðja vegu hafði verið komið fyrir tjaldi þar sem boðið var upp á heita súpu og sýrublöndu hópnum til hressingar.

Á myndinni til vinstri sést m.a. Þórbergur Þórðarson. Hann var í hópi göngumanna þótt ekki gengi hann alla leið. Á myndinni til hægri sést Áslaug Thorlacius ásamt Kristínu dóttur sinni og dótturdóttur.

Einar Bragi ýtti göngunni úr vör með ávarpi þar sem hann hét viðstöddum því að þúsundir myndu slást í hópinn áður en á leiðarenda yrði komið. Sú digurbarkalega spásögn rættist. Nokkur þúsund manns gengu síðasta spölinn og fylgdust með útifundi við Miðbæjarskólann þar sem Jóhannes úr Kötlum, Gils Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jónas Árnason og Þorvarður Örnólfsson héldu stutt ávörp.

Eftir gönguna var ákveðið að halda skrifstofu hennar lengur opinni og hefja þegar undirbúning að stofnun formlegra félagasamtaka. Það var gert á Þingvallafundi síðar um sumarið þar sem Samtök hernámsandstæðinga voru formlega stofnuð. Urðu þau þá þegar leiðandi afl í baráttunni gegn herstöðvum á Íslandi.

Alls urðu Keflavíkurgöngur ellefu talsins. Aðrar göngur voru haldnar árin: 1961, 1964, 1965, 1968, 1976, 1978, 1981, 1983, 1987 og 1991.


Texti þessa svars og myndirnar birtust áður á sögusýningunni Keflavíkurgöngur í 50 ár. Sýningin var opnuð í Þjóðarbókhlöðu 30. mars 2010. Hægt er að lesa um sýninguna hér: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn: Forsíða. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Upprunalega spurningin frá Bárði Bjarka hljóðaði svona: Hvers vegna er ekkert um Keflavíkurgöngunar á vefnum ykkar?...