Af hverju er vandamál að íbúafjölda landsbyggðarinnar sé að fækka? Hvaða afleiðingar hefði það í för með sér t.d. ef byggð legðist 100% af á Vestfjörðum? Hvað er hægt að gera til að sporna við þessari þróun? Þekkist þetta vandamál í öðrum löndum?Þann 1. janúar 2015 bjuggu 117.818 einstaklingar utan höfuðborgarsvæðisins og höfðu þeir aldrei verið fleiri frá upphafi Íslands byggðar. Það er því langt frá því að fólki sé að fækka á landsbyggðinni. Hins vegar hefur fólki fjölgað hraðar á höfuðborgarsvæðinu en utan þess og því býr sífellt lægra hlutfall þjóðarinnar á öðrum landsvæðum. Byggðarlög utan höfuðborgarsvæðisins eru þó afar fjölbreytt og þróun byggðar hefur verið með mjög ólíkum hætti. Því er réttara að tala um „landsbyggðir“ en einsleita „landsbyggð“ í þessu sambandi. Byggðarlög í allt að hundrað kílómetra fjarlægð frá Reykjavík hafa vaxið hraðar en höfuðborgarsvæðið sjálft á síðustu áratugum og mynda öfluga heild með um 50 þúsund íbúum á Vesturlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum. Á Norðurlandi hefur skapast vísir að borgarsamfélagi á Akureyri sem í samspili við helstu byggðakjarna í Skagafirði, Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu styður fjölbreytta verslun, þjónustu, menntun og menningu á svæði sem telur um 30 þúsund íbúa. Á Austurlandi hafa Egilsstaðir vaxið sem þjónustumiðstöð um hálfrar aldar skeið, en með stóriðju á Reyðarfirði og uppbyggingu í sjávarútvegi og ferðaþjónustu mynda Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð saman tiltölulega fjölbreytt en nokkuð brotakennt atvinnu- og þjónustusvæði með um tíu þúsund íbúa.

Byggðarlög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa vaxið hraðar en höfuðborgarsvæðið sjálft. Mynd af Selfossi.

Patreksfjörður er einn þeirra byggðakjarna á Vestfjörðum þar sem fólki hefur fjölgað allra síðustu ár eftir margra ára fækkun. Á sumrin er vegalengdin milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar 178 km en 444 km yfir vetrartímann.
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sóttar 17. 11. 2015).