Niðurstöðurnar eru til bráðabirgða en merkið upp á 5 sigma, sem við sjáum við 125 GeV, er afgerandi. Þetta er sannarlega ný öreind. Við vitum að hún gæti aðeins verið bóseind og hún er þyngsta bóseind sem við höfum fundið.5 sigma lýsir hversu mikil vissa býr að baki uppgötvuninni. Slík vissa þykir nógu sannfærandi til að slá föstu að athugunin sýni í raun nýja öreind. Þó þykir fullsnemmt að staðfesta að um sé að ræða Higgs-bóseindina, fremur en aðra áður óþekkta öreind. Stóri sterkeindahraðallinn (e. Large Hadron Collider, LHC) er hringlaga neðanjarðarmannvirki, 27 km í ummál, sem CERN reisti á landamærum Sviss og Frakklands á árunum 1998-2008. Helsti tilgangurinn með smíði hans var að staðfesta eða hrekja tilvist Higgs-bóseindarinnar, sem stundum er uppnefnd „Guðseindin“. Higgs-bóseindin kann að vera lykillinn að spurningunni um hvaðan efni hefur massa sinn.

Loftmynd af svæðinu þar sem hraðalinn er að finna. Rauði hringurinn markar legu hans.
Niðurstöðurnar vekja miklar eftirvæntingar. [...] Þetta markar mikinn áfanga í skilningi okkar á eðli alheimsins. Uppgötvun öreindar sem er í samræmi við væntingar um Higgs-bóseindina leggur leiðina að nákvæmari rannsóknum með meiri gögnum og gæti varpað ljósi á aðra leyndardóma alheimsins.Frekara lesefni og heimildir:
- Vísindavefurinn: Hvað er Higgs-bóseind og hvers vegna er hún stundum kölluð Guðseindin (God particle)? eftir Kristján Rúnar Kristjánsson.
- CERN Press Release. (Skoðað 4.7.2012).
- BBC News - Higgs excitement at fever pitch. (Skoðað 4.7.2012).
- Higgs boson - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 4.7.2012).
- Loftmynd: LHC (CERN). (Sótt 4.7.2012).