Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Rannsóknasetrið á Hornafirði var stofnað 30. nóvember 2001. Setrið er til húsa í þekkingarmiðstöðinni Nýheimum á Höfn og tekur virkan þátt í fjölbreyttri starfsemi sem þar á sér stað.
Meginhlutverk rannsóknasetursins er að auka þekkingu um umhverfi, náttúrufar, menningu og samfélag á Suðausturlandi, bæði með sjálfstæðum rannsóknum og með því að veita fræðimönnum og nemendum, erlendum jafnt sem innlendum, aðstöðu til rannsókna- og fræðastarfs. Hlutverk þess er einnig að auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf, líkt og önnur setur sem starfa innan vébanda Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands.
Meginviðfangsefni rannsóknasetursins á Hornafirði eru annars vegar rannsóknir á sviði umhverfismála og náttúruverndar (meðal annars rannsóknir á landslagi og um stjórnun friðlýstra svæða) og hins vegar rannsókna- og þróunarverkefni sem varða sjálfbæra ferðaþjónustu og margvíslega nýsköpun í ferðaþjónustu í dreifðum byggðum (til dæmis vetrarferðaþjónustu, fræðandi ferðaþjónustu, matarferðaþjónustu og ævintýraferðaþjónustu). Við setrið eru einnig stundaðir rannsóknir á bókmenntum og listum og þar hafa enn fremur verið unnin verkefni í landfræði, jöklafræði og þjóðfræði.
Mörg verkefni rannsóknasetursins hafa verið unnin í samstarfi við deildir eða stofnanir Háskóla Íslands á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda Íslenska landslagsverkefnið sem var unnið í samstarfi við Líffræðistofnun. Rannsóknasetrið hefur einnig staðið reglulega fyrir vettvangsnámskeiðum í samvinnu við ýmis svið og námsbrautir við Háskóla Íslands og fleiri háskólastofnanir.
Höfn í Hornafirði séð til norðvesturs.
Rannsóknarsetrið hefur unnið að fjölmörgum samstarfsverkefnum með Þórbergssetri á Hala í Suðursveit og Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Setrið hefur einnig unnið náið með Ríki Vatnajökuls, ferðaþjónustu-, matvæla- og menningarklasa Hornafjarðar, og með klasanum Friði og frumkröftum í Skaftárhreppi. Þá hefur setrið unnið ýmis viðamikil ráðgjafar- og þjónustuverkefni fyrir sveitarfélagið Hornafjörð og fyrir suður- og vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Rannsóknasetrið hefur jafnframt unnið að margvíslegum samstarfsverkefnum með þekkingarsetrum og stofnunum í öðrum landshlutum.
Setrið hefur enn fremur tekið þátt í og leitt nokkur fjölþjóðleg verkefni, meðal annars Northern Environmental Education Development (NEED) sem varðaði þróun umhverfismenntar og fræðandi ferðaþjónustu á friðlýstum svæðum og Northern Environment for Sustainable Tourism (NEST) sem snerist um þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu í tengslum við þjóðgarða og önnur friðlýst svæði.
Verkefni rannsóknasetursins hafa verið styrkt eða fjármögnuð af fjölmörgum aðilum, þar á meðal Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP), Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, Vaxtarsamningi Austurlands, Vaxtarsamningi Suðurlands, Tækniþróunarsjóði Rannís, Vinum Vatnajökuls – hollvinasamtökum Vatnajökulsþjóðgarðs, og Atvinnu- og rannsóknasjóði Hornafjarðar.
Forstöðumaður rannsóknasetursins er dr. Þorvarður Árnason, umhverfis- og náttúrufræðingur. Aðrir fastráðnir starfsmenn eru Soffía Auður Birgisdóttir, cand. mag., bókmenntafræðingur og sérfræðingur við setrið, og Sandra Björg Stefánsdóttir, BA, ferðamálafræðingur og verkefnastjóri. Auk þeirra starfa að jafnaði 1-2 lausráðnir starfsmenn hjá setrinu og einnig vinnur töluverður fjöldi framhaldsnema að verkefnum sem tengjast setrinu eða sérfræðingum þess.
Nánari upplýsingar um rannsóknasetrið og verkefni þess má finna á http://stofnanir.hi.is/hornafjordur/ og www.need.is.
Mynd:
forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
Útgáfudagur
22.3.2011
Spyrjandi
Ritstjórn
Efnisorð
Tilvísun
Þorvarður Árnason. „Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði.“ Vísindavefurinn, 22. mars 2011, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70851.