Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Stríðið gegn fíkniefnum: Ógöngur refsistefnunnar og nýir kostir í stefnumótun

Helgi Gunnlaugsson

Glíman við þann vanda sem ávana- og fíkniefni valda er ofarlega á forgangslista stjórnvalda margra landa. Hvarvetna í heiminum hefur verið fylgt refsistefnu í þessari baráttu en það þýðir að varsla, neysla og dreifing tiltekinna fíkniefna hefur varðað við hegningarlög. Á síðustu misserum hefur þó mátt greina teikn um áherslubreytingar. En hvað felst í fíkniefnavandanum og hver hafa viðbrögð yfirvalda verið? Og hversu vel hafa þau úrræði dugað sem beitt hefur verið til að stemma stigu við þessum vanda? Í greininni er meðal annars leitað svara við þessum spurningum.

Einkenni fíkniefnaneyslunnar

Þrátt fyrir mikinn viðbúnað yfirvalda hafa ólögleg fíkniefni breiðst hratt út á síðustu áratugum á Vesturlöndum. Rannsóknir sýna að neyslan hefur einkum verið bundin við yngra fólk úr öllum þjóðfélagshópum sem notar efnin á svipaðan hátt og áfengi er notað af meirihluta fólks. Ýmis efni eru prófuð, sér í lagi kannabisefni og er umfangið hverju sinni mjög háð tískusveiflum sem mestanpart eru alþjóðlegar. Ástæður fyrir neyslunni eru ýmsar: nýjungagirni, áhrif frá jafningjahópi og spenna yfir því að prófa bönnuð efni. Yfirleitt fylgir neyslunni tiltekin tíska eða menning, til dæmis fata-, hár- eða tónlistartíska sem og ímyndir sem ýta undir neyslu þessara efna. Einhver hluti þessa hóps leiðist út í misnotkun ýmissa efna, ekki síst áfengis, en mun fleiri virðast taka upp hefðbundnari og viðurkenndari lífsmáta eftir því sem ábyrgð þeirra eykst í lífinu, um þetta vitna bæði erlendar og innlendar mælingar.

Athyglisvert er að breytilegar áherslur réttarkerfisins virðast ekki hafa áhrif á umfang þessarar neyslu hverju sinni sem virðist lúta eigin lögmálum óháð löggjöfinni og framkvæmd hennar. En með því að gera neyslu fíkniefna að glæp er ungt fólk, sem neytir þessara efna, gert að glæpamönnum með öllum þeim óheillavænlegu afleiðingum sem það getur haft á framtíð þeirra. Meginhluti ungs fólks sem neytir þessara efna þarf aukinheldur ekki á aðstoð heilbrigðiskerfisins eða annarra stofnana að halda vegna þessarar neyslu og því er nauðsynlegt að huga vel að því í hverju afskipti opinberra aðila eiga yfirleitt að felast. Yfirveguð og fordómalaus fræðsla um skaðsemi ávana- og vímuefna hlýtur að vera afar mikilvæg um leið og einstaklingurinn verður gerður meira ábyrgur fyrir lífi sínu og heilsu. Þetta er hins vegar aðeins hluti fíkniefnavandans og ekki sá stærsti.

Rannsóknir hafa sýnt að misnotkun sterkra fíkniefna, eins og sprautun í æð, verður einna helst meðal hópa sem standa höllum fæti í félagslegu og sálrænu tilliti. Þeir versla með efnin í skúmaskotum samfélagsins og beita ýmsum brögðum bæði löglegum og ólöglegum til að svala fíkn sinni og komast á sinn hátt gegnum táradal vonbrigða og örvæntingar. Margir telja fíkniefnaneysluna orsök þessa vítahrings og ef efnin væru tekin burt snerist dæmið við. Þetta samband er hins vegar mun flóknara en svo. Það gerist e.t.v. hjá þeim sem hafa félagslegan stuðning, t.d. frá fjölskyldu en þar sem fjölskyldutengsl eru meira eða minna rofin, óregla og vesöld verið ríkjandi, skólaganga í molum er hins vegar ekki ætíð hægt að reiða sig á slíkan stuðning.

Vímuefnameðferð ein og sér dugir oft ekki til að takast á við þennan vanda heldur verður einnig að koma til annarra félagslegra úrræða sem gera einstaklingnum fært að standa á eigin fótum í samfélaginu. Ef það er ekki gert eykst hættan á því að allt fari í sama far óreglu og misnotkunar á ný. Alþjóðlegur samanburður leiðir jafnframt þessa sýn skýrt í ljós. Þar sem félagsskipanin er í hvað mestum ólestri þar er fíkniefnavandinn einnig hvað verstur.

Jafnframt hljóta að vakna spurningar um hvort sá vandi sem stafar af neyslu og vörslu fíkniefna eigi yfirhöfuð heima innan réttarkerfisins. Í dag eru fíklar ekki aðeins langt leiddir með vanda sinn heldur þurfa þeir einnig sífellt að vera í felum því lögreglan er skiljanlega ætíð á næstu grösum. Aðrar stofnanir samfélagsins eins og félags- og heilbrigðisstofnanir þyrftu að koma að þessum málum með mun markvissari hætti um leið og dregið verði smám saman úr afskiptum réttarvörslukerfisins. Vandi vegna neyslu fíkniefna hefur hvarvetna sýnt sig að vera fyrst og fremst félags- og heilbrigðisvandi og því er eðlilegt að tekið sé á honum með þeim hætti.

Tengsl fíkniefna og annarra afbrota

Stundum heyrist því fleygt í opinberri umræðu að neysla fíkniefna leiði af sér önnur afbrot og ofbeldi. En hvers eðlis eru þessi tengsl? Samband fíkniefnanotkunar og annarra glæpa eru óneitanlega fyrir hendi og hefur verið sýnt fram á það í mörgum rannsóknum. Skýringar á þessum tengslum eru hins vegar ekki jafn ljósar. Sumir vilja meina að neyslan sem slík leiði af sér afbrotahegðun en skýringar liggja þó vafalítið talsvert dýpra.

Fyrir það fyrsta er fíkniefnaneysla langt frá því að vera bundin við hóp glæpamanna, heldur nær hún langt inn í raðir venjulegra borgara. Það er því mikil einföldun að setja samasemmerki milli neyslu fíkniefna og annarra afbrota og ofbeldis. Jafnframt verður að taka með í reikninginn bága félagsstöðu þeirra einstaklinga sem lenda hvað verst í fíkniefnavandanum og eru mest áberandi í hópi síbrotamanna. Þeir hafa yfirhöfuð búið við lakari kjör en gengur og gerist í samfélaginu og leita því margvíslegra ráða til að greiða fyrir fíkn sína sem er kostnaðarsöm á hinum svarta markaði.

Rót afbrotavandans liggur því ekki nema að hluta til í fíkniefnanotkuninni sem slíkri, heldur miklu frekar í félagslegum bakgrunni þessara einstaklinga, sem elur af sér bæði misnotkun harðra efna svo og önnur afbrot til þess eins að komast af. Oft verða viðskipti með fíkniefni því afar freistandi kostur til ríkidæmis mitt í allri eymdinni og vonleysinu, með tilheyrandi samkeppni og ofbeldi í undirheimum samfélagsins, þar sem bitist er um sölusvæði og neytendur í skugga lögreglu sem ætíð er á næsta leiti. Harðneskjan í fíkniefnaviðskiptum hefur einmitt verið í kastljósi íslenskra fjölmiðla undanfarna mánuði enda bjóða undirheimarnir eðli málsins samkvæmt ekki upp á aðrar lausnir en ofbeldi ef allt annað þrýtur.

Vandi þessara hópa liggur þó ekki nema að hluta til í fíkniefnaneyslu þeirra enda hófst vandi þeirra iðulega löngu áður en farið var að neyta áfengis og annarra fíkniefna. Vandinn liggur miklu frekar í brotnum fjölskyldutengslum, ófullnægjandi húsnæði, námserfiðleikum og takmarkaðri starfsreynslu og -þjálfun, til að nefna örfáa félagslega þætti sem eru bakgrunnur flestra brotamanna og í raun meginástæðan fyrir erfiðleikum þeirra. Handtökuskýrslur fíkniefnalögreglu bæði hér heima og erlendis draga skýrt upp þessa mynd. Stærstur hluti handtekinna er ýmist atvinnulaus eða ófaglærður í mun ríkari mæli en gengur og gerist í samfélaginu. Örvæntingin er jafnan mikil því skv. athugun lögreglunnar í Reykjavík hefur stór hluti þeirra sem hafa verið handteknir fyrir grun um fíkniefnamisferli gert tilraun til sjálfsvígs eða er í sjálfsvígshugleiðingum. Misnotkun fíkniefna er því nokkurs konar sjúkdómseinkenni hjá þessum einstaklingum frekar en orsök vandans.

Gjaldþrot refsistefnunnar

Bandaríkin hafa lengi verið fyrirmynd þeirra ríkja sem vilja beita harðri refsipólitík gegn fíkniefnavandanum og því fróðlegt að varpa ljósi á þróunina þar. Óvíða er meiri útbreiðsla ólöglegra fíkniefna og þar þrátt fyrir að hvergi sé beitt eins hörðum viðurlögum. Upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar var tekið stærsta skrefið í þyngingu dóma með tilkomu hárra lágmarksrefsinga og lífstíðardóma fyrir alvarleg fíkniefnabrot. Síðan þá hefur fangafjöldi nær þrefaldast og telur nú um tvær milljónir manna. Fangafjöldinn er jafnframt orðinn sá langhæsti á Vesturlöndum og situr nú fjórði hver fangi í heiminum í bandarísku fangelsi.

Hlutfall fíkniefnafanga í Bandaríkjunum er komið í um 60 prósent allra fanga. Á sama tíma hefur vandi vegna fíkniefna ekki minnkað heldur þvert á móti vaxið, ekki síst meðal minnihlutahópa, sem í ofanálag sjá á eftir æ fleiri í fangelsi meðan svokallaðir fíkniefnabarónar hafa að mestu leyti sloppið. Tölur yfir stöðu minnihlutahópa í réttarkerfi Bandaríkjanna gefa einmitt skýra vísbendingu um bágborna stöðu þeirra í samfélaginu. Á meðal svartra karla á aldrinum 15-35 ára eru t.d. á hverjum tíma um 40 prósent ýmist í fangelsi, á skilorði, í reynslulausn eða á handtökulista lögreglunnar og tæpur helmingur fanga er svartur þó hlutfall þeirra í samfélaginu sé einungis um 12 prósent. Sambærilegrar þróunar hefur einnig gætt annars staðar á Vesturlöndum þó einkenni hennar hafi birst skýrast í Bandaríkjunum.

Endurskoðun fíkniefnalöggjafarinnar

Í ljósi reynslunnar af refsistefnunni og þeirrar myndar sem dregin var upp hér að framan af eðli fíkniefnaneyslunnar hafa margar þjóðir farið að endurskoða fíkniefnalöggjöfina. Skilgreiningu á fíkniefnum og viðurlögum við meðferð ýmissa fíkniefna hefur sums staðar þegar verið breytt, sér í lagi hvað varðar neyslu og vörslu fíkniefna til eigin nota. Endurskoðun af þessu tagi hefur m.a. átt sér stað á Spáni, Ítalíu, Portúgal, Írlandi og Lúxemborg þar sem einkaneysla fíkniefna, sér í lagi kannabisefna, varðar í dag ekki við refsilög. Ýmist eru gefnar einfaldar aðvaranir eða sektargreiðslur og leiða mál af þessu tagi að jafnaði ekki til handtöku, ákæru né fangelsunar.

Í þessum ríkjum þótti framkvæmd á fyrri löggjöf taka of mikinn tíma frá löggæsluaðilum og stór hópur ungmenna, sem að öðru leyti var löghlýðinn, var gerður að glæpamönnum með öllum þeim afleiðingum og stimplunaráhrifum sem það hefur. Ef merki sjást um misnotkun efnanna hjá viðkomandi á að senda þá í viðeigandi ráðgjöf eða meðferð á heilbrigðisstofnun og á þetta fyrirkomulag við um Spán, Portúgal og Ítalíu.

Í nýlegri árskýrslu frá Evrópusambandinu (EMCDDA) er búist við að það megi sjá áframhald á þróun til afglæpunar á neyslu fíkniefna. Samkvæmt nýlegri frétt í Morgunblaðinu var sagt frá tillögum af þessu tagi í Noregi. (Morgunblaðið 24.1.200)

Þar mælir nefnd sérfræðinga með því að neysla hvers konar fíkniefna verði leyfð en að sala slíkra efna verði áfram refsiverð þó gert sé ráð fyrir að refsingar verði mildaðar frá því sem nú er. Svipaðar raddir hafa heyrst víðar eins og t.d. í Sviss, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Fyrir um tveimur árum var sett á laggirnar nefnd sérfræðinga í Kanada, með einróma samþykkt þingsins, til að koma með nýjar tillögur í tengslum við fíkniefnabrot.

Dreifing sterkari fíkniefna

Þrátt fyrir þessar breytingar til afglæpunar hvað snertir neyslu fíkniefna til einkanota er víðast hvar lögð áhersla á að þung viðurlög skuli liggja við dreifingu og sölu á sterkari fíkniefnum einsog heróíni og kókaíni . Lögreglan eigi því að draga úr þeirri viðleitni sinni að uppræta neyslu veikari fíkniefna en beina kröftum sínum frekar að innflutningi og dreifingu harðari fíkniefna. Þróun í þessa átt felur í sér að litið er á misnotkun fíkniefna frekar sem félags- og heilbrigðismál en síður sem sakamál og áfram verði litið á sölu og dreifingu sterkari efna í hagnaðarskyni sem refsiverða.

Þótt umræða um lögleiðingu fíkniefna hafi orðið meira áberandi á síðustu árum hefur hvergi komið til slíkrar lögleiðingar á Vesturlöndum. Stundum er Holland nefnt sem dæmi um land þar sem fíkniefni eru frjáls en svo er alls ekki. Þar er hins vegar gerður skýr greinarmunur á veikari og sterkari fíkniefnum og hvort varsla á þeim sé til eigin neyslu eða til sölu í hagnaðarskyni og óvíða í Evrópu er lagt hald á meira magn fíkniefna en einmitt í Hollandi.

Skaðsemi e-pillunnar

Skaðsemi e-pillunnar og þungir dómar hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu. Ekki er um það deilt innan vísindaheimsins að e-pillan er skaðleg og getur leitt til margvíslegra vandkvæða bæði líkamlegra og andlegra. Í nýlegri skýrslu frá Evrópusambandinu (EMCDDA) er því haldið fram að skyndileg dauðsföll af völdum e-pillunnar, amfetamíns eða kókaíns án þess að viðkomandi hafi neytt heróíns heyri þó til undantekninga í Evrópu. E-pillan er samt óneitanlega varasöm og fræðimenn hafa lýst yfir áhyggjum af þeim áhrifum sem langtímaneysla kunni að hafa í för með sér og því sé nauðsynlegt að verja meira fé í rannsóknir á skaðsemi hennar.

Í Bretlandi hefur nefnd sérfræðinga nýverið lagt til að hætt verði að flokka e-pilluna með efnum á borð við heróín og kókaín enda sé neyslan orðin almenn og dauðsföll vegna hennar hlutfallslega fá miðað við önnur efni. Þessa dagana fara einmitt fram heitar umræður um þetta mál í Bretlandi. Hæstirétturinn í Sviss úrskurðaði fyrir fáum árum að e-pillan ætti ekki að flokkast með hættulegum efnum og að minni háttar viðskipti með efnið gætu ekki talist hættulegur glæpur. Rétturinn hafnaði því þeirri kröfu að þyngja bæri níu mánaða fangelsisdóm fyrir sölu á rúmlega 1,300 e-töflum.

Niðurlag

Ólögleg fíkniefni virðast hvarvetna búin að festa sig í sessi og stjórnvöldum hefur enn ekki tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra þrátt fyrir mikinn viðbúnað löggæsluaðila. Rannsóknir, bæði hér á landi og erlendis, sýna að þeir sem hafa áhuga á að nálgast þessi efni segjast geta það hindrunarlaust þrátt fyrir bann.

Ljóst er að engin töfralausn finnst á fíkniefnavandanum en almennt verða stjórnvöld að setja sér raunhæf markmið og leitast eftir mætti að draga úr þeim skaða sem ávana- og fíkniefni valda án þess þó að valda neytendum þeirra meira tjóni en skaðsemi efnanna gefur tilefni til. Ekki má heldur gleyma því að heilbrigðisvandi vegna ólöglegra fíkniefna eins og kannabis, kókaíns eða heróíns bliknar í samanburði við þann vanda sem lögleg fíkniefni eins og tóbak og áfengi valda í Vestur-Evrópu.

Stefna stjórnvalda verður því umfram allt að vera sjálfri sér samkvæm og byggjast á víðtækum rannsóknum sem taka mið af ólíkum áhrifaþáttum neyslunnar og þeirri reynslu sem ríkjandi refsipólitík hefur leitt af sér. Ekki síður ber okkur að efla ábyrgðarkennd einstaklingsins fyrir lífi sínu og heilsu og gera sem flestum kleift að takast á við tilveruna í samræmi við samfélagshugsjónir okkar að öðru leyti.

Höfundur

Helgi Gunnlaugsson

prófessor í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.4.2002

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Helgi Gunnlaugsson. „Stríðið gegn fíkniefnum: Ógöngur refsistefnunnar og nýir kostir í stefnumótun.“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70775.

Helgi Gunnlaugsson. (2002, 20. apríl). Stríðið gegn fíkniefnum: Ógöngur refsistefnunnar og nýir kostir í stefnumótun. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70775

Helgi Gunnlaugsson. „Stríðið gegn fíkniefnum: Ógöngur refsistefnunnar og nýir kostir í stefnumótun.“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70775>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Stríðið gegn fíkniefnum: Ógöngur refsistefnunnar og nýir kostir í stefnumótun
Glíman við þann vanda sem ávana- og fíkniefni valda er ofarlega á forgangslista stjórnvalda margra landa. Hvarvetna í heiminum hefur verið fylgt refsistefnu í þessari baráttu en það þýðir að varsla, neysla og dreifing tiltekinna fíkniefna hefur varðað við hegningarlög. Á síðustu misserum hefur þó mátt greina teikn um áherslubreytingar. En hvað felst í fíkniefnavandanum og hver hafa viðbrögð yfirvalda verið? Og hversu vel hafa þau úrræði dugað sem beitt hefur verið til að stemma stigu við þessum vanda? Í greininni er meðal annars leitað svara við þessum spurningum.

Einkenni fíkniefnaneyslunnar

Þrátt fyrir mikinn viðbúnað yfirvalda hafa ólögleg fíkniefni breiðst hratt út á síðustu áratugum á Vesturlöndum. Rannsóknir sýna að neyslan hefur einkum verið bundin við yngra fólk úr öllum þjóðfélagshópum sem notar efnin á svipaðan hátt og áfengi er notað af meirihluta fólks. Ýmis efni eru prófuð, sér í lagi kannabisefni og er umfangið hverju sinni mjög háð tískusveiflum sem mestanpart eru alþjóðlegar. Ástæður fyrir neyslunni eru ýmsar: nýjungagirni, áhrif frá jafningjahópi og spenna yfir því að prófa bönnuð efni. Yfirleitt fylgir neyslunni tiltekin tíska eða menning, til dæmis fata-, hár- eða tónlistartíska sem og ímyndir sem ýta undir neyslu þessara efna. Einhver hluti þessa hóps leiðist út í misnotkun ýmissa efna, ekki síst áfengis, en mun fleiri virðast taka upp hefðbundnari og viðurkenndari lífsmáta eftir því sem ábyrgð þeirra eykst í lífinu, um þetta vitna bæði erlendar og innlendar mælingar.

Athyglisvert er að breytilegar áherslur réttarkerfisins virðast ekki hafa áhrif á umfang þessarar neyslu hverju sinni sem virðist lúta eigin lögmálum óháð löggjöfinni og framkvæmd hennar. En með því að gera neyslu fíkniefna að glæp er ungt fólk, sem neytir þessara efna, gert að glæpamönnum með öllum þeim óheillavænlegu afleiðingum sem það getur haft á framtíð þeirra. Meginhluti ungs fólks sem neytir þessara efna þarf aukinheldur ekki á aðstoð heilbrigðiskerfisins eða annarra stofnana að halda vegna þessarar neyslu og því er nauðsynlegt að huga vel að því í hverju afskipti opinberra aðila eiga yfirleitt að felast. Yfirveguð og fordómalaus fræðsla um skaðsemi ávana- og vímuefna hlýtur að vera afar mikilvæg um leið og einstaklingurinn verður gerður meira ábyrgur fyrir lífi sínu og heilsu. Þetta er hins vegar aðeins hluti fíkniefnavandans og ekki sá stærsti.

Rannsóknir hafa sýnt að misnotkun sterkra fíkniefna, eins og sprautun í æð, verður einna helst meðal hópa sem standa höllum fæti í félagslegu og sálrænu tilliti. Þeir versla með efnin í skúmaskotum samfélagsins og beita ýmsum brögðum bæði löglegum og ólöglegum til að svala fíkn sinni og komast á sinn hátt gegnum táradal vonbrigða og örvæntingar. Margir telja fíkniefnaneysluna orsök þessa vítahrings og ef efnin væru tekin burt snerist dæmið við. Þetta samband er hins vegar mun flóknara en svo. Það gerist e.t.v. hjá þeim sem hafa félagslegan stuðning, t.d. frá fjölskyldu en þar sem fjölskyldutengsl eru meira eða minna rofin, óregla og vesöld verið ríkjandi, skólaganga í molum er hins vegar ekki ætíð hægt að reiða sig á slíkan stuðning.

Vímuefnameðferð ein og sér dugir oft ekki til að takast á við þennan vanda heldur verður einnig að koma til annarra félagslegra úrræða sem gera einstaklingnum fært að standa á eigin fótum í samfélaginu. Ef það er ekki gert eykst hættan á því að allt fari í sama far óreglu og misnotkunar á ný. Alþjóðlegur samanburður leiðir jafnframt þessa sýn skýrt í ljós. Þar sem félagsskipanin er í hvað mestum ólestri þar er fíkniefnavandinn einnig hvað verstur.

Jafnframt hljóta að vakna spurningar um hvort sá vandi sem stafar af neyslu og vörslu fíkniefna eigi yfirhöfuð heima innan réttarkerfisins. Í dag eru fíklar ekki aðeins langt leiddir með vanda sinn heldur þurfa þeir einnig sífellt að vera í felum því lögreglan er skiljanlega ætíð á næstu grösum. Aðrar stofnanir samfélagsins eins og félags- og heilbrigðisstofnanir þyrftu að koma að þessum málum með mun markvissari hætti um leið og dregið verði smám saman úr afskiptum réttarvörslukerfisins. Vandi vegna neyslu fíkniefna hefur hvarvetna sýnt sig að vera fyrst og fremst félags- og heilbrigðisvandi og því er eðlilegt að tekið sé á honum með þeim hætti.

Tengsl fíkniefna og annarra afbrota

Stundum heyrist því fleygt í opinberri umræðu að neysla fíkniefna leiði af sér önnur afbrot og ofbeldi. En hvers eðlis eru þessi tengsl? Samband fíkniefnanotkunar og annarra glæpa eru óneitanlega fyrir hendi og hefur verið sýnt fram á það í mörgum rannsóknum. Skýringar á þessum tengslum eru hins vegar ekki jafn ljósar. Sumir vilja meina að neyslan sem slík leiði af sér afbrotahegðun en skýringar liggja þó vafalítið talsvert dýpra.

Fyrir það fyrsta er fíkniefnaneysla langt frá því að vera bundin við hóp glæpamanna, heldur nær hún langt inn í raðir venjulegra borgara. Það er því mikil einföldun að setja samasemmerki milli neyslu fíkniefna og annarra afbrota og ofbeldis. Jafnframt verður að taka með í reikninginn bága félagsstöðu þeirra einstaklinga sem lenda hvað verst í fíkniefnavandanum og eru mest áberandi í hópi síbrotamanna. Þeir hafa yfirhöfuð búið við lakari kjör en gengur og gerist í samfélaginu og leita því margvíslegra ráða til að greiða fyrir fíkn sína sem er kostnaðarsöm á hinum svarta markaði.

Rót afbrotavandans liggur því ekki nema að hluta til í fíkniefnanotkuninni sem slíkri, heldur miklu frekar í félagslegum bakgrunni þessara einstaklinga, sem elur af sér bæði misnotkun harðra efna svo og önnur afbrot til þess eins að komast af. Oft verða viðskipti með fíkniefni því afar freistandi kostur til ríkidæmis mitt í allri eymdinni og vonleysinu, með tilheyrandi samkeppni og ofbeldi í undirheimum samfélagsins, þar sem bitist er um sölusvæði og neytendur í skugga lögreglu sem ætíð er á næsta leiti. Harðneskjan í fíkniefnaviðskiptum hefur einmitt verið í kastljósi íslenskra fjölmiðla undanfarna mánuði enda bjóða undirheimarnir eðli málsins samkvæmt ekki upp á aðrar lausnir en ofbeldi ef allt annað þrýtur.

Vandi þessara hópa liggur þó ekki nema að hluta til í fíkniefnaneyslu þeirra enda hófst vandi þeirra iðulega löngu áður en farið var að neyta áfengis og annarra fíkniefna. Vandinn liggur miklu frekar í brotnum fjölskyldutengslum, ófullnægjandi húsnæði, námserfiðleikum og takmarkaðri starfsreynslu og -þjálfun, til að nefna örfáa félagslega þætti sem eru bakgrunnur flestra brotamanna og í raun meginástæðan fyrir erfiðleikum þeirra. Handtökuskýrslur fíkniefnalögreglu bæði hér heima og erlendis draga skýrt upp þessa mynd. Stærstur hluti handtekinna er ýmist atvinnulaus eða ófaglærður í mun ríkari mæli en gengur og gerist í samfélaginu. Örvæntingin er jafnan mikil því skv. athugun lögreglunnar í Reykjavík hefur stór hluti þeirra sem hafa verið handteknir fyrir grun um fíkniefnamisferli gert tilraun til sjálfsvígs eða er í sjálfsvígshugleiðingum. Misnotkun fíkniefna er því nokkurs konar sjúkdómseinkenni hjá þessum einstaklingum frekar en orsök vandans.

Gjaldþrot refsistefnunnar

Bandaríkin hafa lengi verið fyrirmynd þeirra ríkja sem vilja beita harðri refsipólitík gegn fíkniefnavandanum og því fróðlegt að varpa ljósi á þróunina þar. Óvíða er meiri útbreiðsla ólöglegra fíkniefna og þar þrátt fyrir að hvergi sé beitt eins hörðum viðurlögum. Upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar var tekið stærsta skrefið í þyngingu dóma með tilkomu hárra lágmarksrefsinga og lífstíðardóma fyrir alvarleg fíkniefnabrot. Síðan þá hefur fangafjöldi nær þrefaldast og telur nú um tvær milljónir manna. Fangafjöldinn er jafnframt orðinn sá langhæsti á Vesturlöndum og situr nú fjórði hver fangi í heiminum í bandarísku fangelsi.

Hlutfall fíkniefnafanga í Bandaríkjunum er komið í um 60 prósent allra fanga. Á sama tíma hefur vandi vegna fíkniefna ekki minnkað heldur þvert á móti vaxið, ekki síst meðal minnihlutahópa, sem í ofanálag sjá á eftir æ fleiri í fangelsi meðan svokallaðir fíkniefnabarónar hafa að mestu leyti sloppið. Tölur yfir stöðu minnihlutahópa í réttarkerfi Bandaríkjanna gefa einmitt skýra vísbendingu um bágborna stöðu þeirra í samfélaginu. Á meðal svartra karla á aldrinum 15-35 ára eru t.d. á hverjum tíma um 40 prósent ýmist í fangelsi, á skilorði, í reynslulausn eða á handtökulista lögreglunnar og tæpur helmingur fanga er svartur þó hlutfall þeirra í samfélaginu sé einungis um 12 prósent. Sambærilegrar þróunar hefur einnig gætt annars staðar á Vesturlöndum þó einkenni hennar hafi birst skýrast í Bandaríkjunum.

Endurskoðun fíkniefnalöggjafarinnar

Í ljósi reynslunnar af refsistefnunni og þeirrar myndar sem dregin var upp hér að framan af eðli fíkniefnaneyslunnar hafa margar þjóðir farið að endurskoða fíkniefnalöggjöfina. Skilgreiningu á fíkniefnum og viðurlögum við meðferð ýmissa fíkniefna hefur sums staðar þegar verið breytt, sér í lagi hvað varðar neyslu og vörslu fíkniefna til eigin nota. Endurskoðun af þessu tagi hefur m.a. átt sér stað á Spáni, Ítalíu, Portúgal, Írlandi og Lúxemborg þar sem einkaneysla fíkniefna, sér í lagi kannabisefna, varðar í dag ekki við refsilög. Ýmist eru gefnar einfaldar aðvaranir eða sektargreiðslur og leiða mál af þessu tagi að jafnaði ekki til handtöku, ákæru né fangelsunar.

Í þessum ríkjum þótti framkvæmd á fyrri löggjöf taka of mikinn tíma frá löggæsluaðilum og stór hópur ungmenna, sem að öðru leyti var löghlýðinn, var gerður að glæpamönnum með öllum þeim afleiðingum og stimplunaráhrifum sem það hefur. Ef merki sjást um misnotkun efnanna hjá viðkomandi á að senda þá í viðeigandi ráðgjöf eða meðferð á heilbrigðisstofnun og á þetta fyrirkomulag við um Spán, Portúgal og Ítalíu.

Í nýlegri árskýrslu frá Evrópusambandinu (EMCDDA) er búist við að það megi sjá áframhald á þróun til afglæpunar á neyslu fíkniefna. Samkvæmt nýlegri frétt í Morgunblaðinu var sagt frá tillögum af þessu tagi í Noregi. (Morgunblaðið 24.1.200)

Þar mælir nefnd sérfræðinga með því að neysla hvers konar fíkniefna verði leyfð en að sala slíkra efna verði áfram refsiverð þó gert sé ráð fyrir að refsingar verði mildaðar frá því sem nú er. Svipaðar raddir hafa heyrst víðar eins og t.d. í Sviss, Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Fyrir um tveimur árum var sett á laggirnar nefnd sérfræðinga í Kanada, með einróma samþykkt þingsins, til að koma með nýjar tillögur í tengslum við fíkniefnabrot.

Dreifing sterkari fíkniefna

Þrátt fyrir þessar breytingar til afglæpunar hvað snertir neyslu fíkniefna til einkanota er víðast hvar lögð áhersla á að þung viðurlög skuli liggja við dreifingu og sölu á sterkari fíkniefnum einsog heróíni og kókaíni . Lögreglan eigi því að draga úr þeirri viðleitni sinni að uppræta neyslu veikari fíkniefna en beina kröftum sínum frekar að innflutningi og dreifingu harðari fíkniefna. Þróun í þessa átt felur í sér að litið er á misnotkun fíkniefna frekar sem félags- og heilbrigðismál en síður sem sakamál og áfram verði litið á sölu og dreifingu sterkari efna í hagnaðarskyni sem refsiverða.

Þótt umræða um lögleiðingu fíkniefna hafi orðið meira áberandi á síðustu árum hefur hvergi komið til slíkrar lögleiðingar á Vesturlöndum. Stundum er Holland nefnt sem dæmi um land þar sem fíkniefni eru frjáls en svo er alls ekki. Þar er hins vegar gerður skýr greinarmunur á veikari og sterkari fíkniefnum og hvort varsla á þeim sé til eigin neyslu eða til sölu í hagnaðarskyni og óvíða í Evrópu er lagt hald á meira magn fíkniefna en einmitt í Hollandi.

Skaðsemi e-pillunnar

Skaðsemi e-pillunnar og þungir dómar hafa talsvert verið í umræðunni að undanförnu. Ekki er um það deilt innan vísindaheimsins að e-pillan er skaðleg og getur leitt til margvíslegra vandkvæða bæði líkamlegra og andlegra. Í nýlegri skýrslu frá Evrópusambandinu (EMCDDA) er því haldið fram að skyndileg dauðsföll af völdum e-pillunnar, amfetamíns eða kókaíns án þess að viðkomandi hafi neytt heróíns heyri þó til undantekninga í Evrópu. E-pillan er samt óneitanlega varasöm og fræðimenn hafa lýst yfir áhyggjum af þeim áhrifum sem langtímaneysla kunni að hafa í för með sér og því sé nauðsynlegt að verja meira fé í rannsóknir á skaðsemi hennar.

Í Bretlandi hefur nefnd sérfræðinga nýverið lagt til að hætt verði að flokka e-pilluna með efnum á borð við heróín og kókaín enda sé neyslan orðin almenn og dauðsföll vegna hennar hlutfallslega fá miðað við önnur efni. Þessa dagana fara einmitt fram heitar umræður um þetta mál í Bretlandi. Hæstirétturinn í Sviss úrskurðaði fyrir fáum árum að e-pillan ætti ekki að flokkast með hættulegum efnum og að minni háttar viðskipti með efnið gætu ekki talist hættulegur glæpur. Rétturinn hafnaði því þeirri kröfu að þyngja bæri níu mánaða fangelsisdóm fyrir sölu á rúmlega 1,300 e-töflum.

Niðurlag

Ólögleg fíkniefni virðast hvarvetna búin að festa sig í sessi og stjórnvöldum hefur enn ekki tekist að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra þrátt fyrir mikinn viðbúnað löggæsluaðila. Rannsóknir, bæði hér á landi og erlendis, sýna að þeir sem hafa áhuga á að nálgast þessi efni segjast geta það hindrunarlaust þrátt fyrir bann.

Ljóst er að engin töfralausn finnst á fíkniefnavandanum en almennt verða stjórnvöld að setja sér raunhæf markmið og leitast eftir mætti að draga úr þeim skaða sem ávana- og fíkniefni valda án þess þó að valda neytendum þeirra meira tjóni en skaðsemi efnanna gefur tilefni til. Ekki má heldur gleyma því að heilbrigðisvandi vegna ólöglegra fíkniefna eins og kannabis, kókaíns eða heróíns bliknar í samanburði við þann vanda sem lögleg fíkniefni eins og tóbak og áfengi valda í Vestur-Evrópu.

Stefna stjórnvalda verður því umfram allt að vera sjálfri sér samkvæm og byggjast á víðtækum rannsóknum sem taka mið af ólíkum áhrifaþáttum neyslunnar og þeirri reynslu sem ríkjandi refsipólitík hefur leitt af sér. Ekki síður ber okkur að efla ábyrgðarkennd einstaklingsins fyrir lífi sínu og heilsu og gera sem flestum kleift að takast á við tilveruna í samræmi við samfélagshugsjónir okkar að öðru leyti. ...