Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tíminn og gildin
Stundum tölum við um tímann nánast eins og örlög eða eitthvað sem við lútum eins og náttúrulögmáli og þó er hann eitt af því fáa sem getum ráðið sjálf hvernig við verjum. Viðhorf okkar til hans og nýting endurspegla ætlanir okkar og gildi en samt er einsog hann sé ósýnilegt afl sem öllu ræður: “tíminn leyfir það ekki” eða, með þungu andvarpi: “ég hef alltof lítinn tíma fyrir það sem mér finnst þó mestu skipta”, “tíminn er að renna út” og einhverju, sem er verulega áhugavert og þarft, er vikið til hliðar til að koma að auglýsingum.
Áður fyrr var tíminn nánast föst stærð og allt var á sínum stað og stundu, en í nútímanum valda ný áreiti og valkostir stöðugri togstreitu um það hvernig við verjum tímanum. Valið um það hvernig við ráðstöfum tímanum er augljósast þegar það snertir náin tengsl. Það snýst um hvaða tengsl við ræktum og þann tíma sem við verjum til þeirra. Á einu lífskeiði skiptir eitt meira máli en á öðru. Þannig verða líka foreldrahlutverkin nú svo miklu vandasamari en áður. Það eina sem við vitum um framtíð barna okkar er að þau munu vaxa úr grasi og aðlagast - eða EKKI aðlagast síbreyttum aðstæðum í æ fjölbreytilegri heimi - og á það geta foreldrar haft áhrif.
Venjulegir foreldrar vita til dæmis ofurvel að það er ekki síst í veikindum lítilla barna og þegar eitthvað ber útaf sem tilfinningatengslin styrkjast. Þegar við höfum ekki val um það hvernig við ráðstöfum tímanum verjum við honum best. Og það er einmitt sú tilfinningalega innistæða, akkerið, sem reynir á þegar barnið þarf að prófa sínar eigin leiðir síðar á unglings- og fullorðinsárum.
Í þessu efni reynir ekki aðeins á fjölskyldustefnu opinberra aðila og vinnuveitenda, það reynir líka á gildismat og vilja foreldra til að forgangsraða starfsframamarkmiðum og láta neyslu og tímaeyðsluna víkja fyrir velferð barna og fjölskyldusamveru. Forgangsröðunin og boðin sem í henni felast skila sér síðar.
Margt bendir raunar til að ný gildi og áherslur séu að mótast í íslensku samfélagi. Ungt fólk er farið að skipuleggja fjölskyldumyndun og sækir fjölskylduráðgjöf og fræðslu um hvernig best skuli staðið að málum. Sama á við í skilnaðarmálunum og þar sé ég áhugaverða breytingu. Í nýlegri rannsókn okkar Nönnu K. Sigurðardóttur ber hæst í niðurstöðunum jákvæðari viðhorf beggja kynja til foreldrasamstarfs og að hagsmunir barnsins séu í fyrirrúmi.
Svo virðist þó sem sterk utanaðkomandi samfélagsöfl hafi deyfandi áhrif á eðlislæga foreldrahvöt. Leiðsögn og stuðningur fá því aukið vægi og þar skiptir samstarf heilbrigðis- og félagsþjónustu miklu, ásamt samstillingu foreldra og kennara - þessara grundvallar “verndara” hvers barns.
Samfélagsbreytingar : Ný fjölskylduverkefni
Á síðustu öld var hlutverk fjölskyldunnar niðurnjörvað í ákveðnum verkefnum til þess að komast af og hjónabandið stóð traustum fótum í gagnkvæmum hagsmunaböndum. Í dag eru það tilfinningaböndin sem eru undirstaða hjónabandsins, þ.e. þörfin fyrir fullnægingu tilfinninga um snertingu, og nálægð; að tilheyra og vera mikilvægur fyrir aðra manneskju.
Þessar nýju forsendur fjölskyldunnar auka raunar enn á mikilvægi þess að foreldrar séu meðvitaðir um mikilvægi þess að raða í forgangsröð því hvernig tímanum er varið Sú starfsframakrefjandi menning sem við búum við í dag getur hæglega orðið andsnúin fjölskyldunni og foreldrar, sem setja starfsframa ofar öðrum gildum, hætta á að fjölskyldan verði beinlínis vettvangur hagsmunaárekstra þar sem börnin sitja á hakanum.
Hið breytta hlutverk fjölskyldunnar skapar henni sérstakt ábyrgðarhlutverk og valdaumboð. Þessi áhrifastaða snertir fyrst og fremst afskipti og taumhald. Hin nýju verkefni fjölskyldunnar eru ekki alltaf áþreifanleg en þau krefjast allt öðruvísi árvekni og vitundar en þau gömlu. Myndugleiki foreldra og áhrifavald mótast af þeim undirtökum sem foreldri nær þegar það gefur sér tíma til að styrkja stoðir parsambandsins og treysta grundvöllinn fyrir tilveru barnsins. Það næst aðeins með samveru og samræðum - og það krefst tíma.
Forsendan til þess að ná áheyrn barnsins, hljómgrunnurinn sjálfur, er hins vegar lagður löngu fyrr - á fyrstu árum barnsins.
Skömmustukennd - tengsl foreldra og barna
Grundvallarþörf barns er að finna nálægð og umhyggju í augnaráði foreldris sem hefur tíma til að horfa á það; foreldris sem er sjálfu sér samkvæmt og færir barninu sjálfstraust og öryggi með því að gefa því skýr boð um viðeigandi viðbrögð og hegðun. Nánu tengslin og innri siðaboðin sem kvikna í krafti þeirra eru barninu staðfesting á gildi eigin tilvistar með því að því er ætlað rými og tími, en tíminn sem er notaður til að horfa og hlusta, leiðrétta og staðfesta, styrkir þá innri rödd og samræðu sem öllu ræður síðar.
Það er í tengslum foreldra og barna sem siðvitund og innra taumhald barnanna mótast. (Kjellqvist, E-B. 1993). Heilbrigð samviska og skömmustukenndin eiga sér tvenns konar birtingarform í nútímasamfélag. Heilbrigð skömmustukennd vaknar þegar manneskjan gerir eitthvað sem er ekki í samræmi við innri siðaboð hennar. Þá skapast misfella eða sprunga í þeirri samfelldu heild sem djúpstæð siðagildi og eigin hegðun venjulega mynda. Það er þessi óþægilega tilfinning sem verður hið innbyggða leiðarljós. Hún fær barnið til að vilja hlýða þeim sem það treystir og til að finna og skynja tilfinningalega og vitrænt muninn á réttu og röngu. Aðeins í krafti slíkrar innri stýringar og heilbrigðrar samvisku getur barnið öðlast innra taumhald og leiðrétt hegðun sína sjálft - fyrr og síðar.
En skömmustukenndin getur líka birst á afbrigðilegan hátt. Við getum kallað þessa skömmustukennd sjálfhverfa vegna þess að hún birtist í því að barnið skammast sín fyrir sjálft sig en ekki einungis fyrir eitthvað sem það hefur gert. Hin sjálfhverfa skömmustukennd á sér flóknari rætur. Hún hefur skapast af því að barnið hefur ekki fengið fullnægt frumþörfinni fyrir staðfestingu á sjálfu sér og tilverurétti sínum. Tímanum hefur verið varið í annað. Þessi skömmustukennd, sem er óuppbyggileg og brengluð, veldur lágu sjálfsmati og vonleysi.
Niðurlægingin, yfir því að vera ekki elskaður og verðugur verndar og umsinnu, felur heldur ekki í sér neitt leiðréttandi afl. Hún skapar ekki lífskraft, heldur ráðvillu og kvíðafullt tóm sem oft verður afdrifaríkt þegar út í hringiðu unglingsáranna kemur. Hin sjálfhverfa skömm beinist ýmist inn á við í þunglyndi, fíkniefnaneyslu eða að annarri sjálfseyðileggjandi hegðun, eða út á við í árásum og eyðileggingu á umhverfinu.
Alheimur og foreldrahlutverk
Í ljósi þeirrar skelfingar sem ríður yfir í heilu heimshlutunum virðast öll vopn slegin úr höndum okkar. Samfélagsrýnar sem fjalla um alheimsáhrif, siðrof og sundrungu tengja umræðuna æ oftar fjölskyldunni og uppeldisskilyrðum (Beck, 1996/1992; Bauman-Bordieu/TINA).
Almenn viðhorf til barna skipta miklu, en mestu skipta aðstæður foreldra og tök þeirra á tilverunni. Í bók sinni Living on Thin Air bendir Charles Leadbeater (1999, 109-114) á að það sé innan fjölskyldunnar sem börn móti afstöðu til þess hvernig og hvað þau læri. Sú þekking og gildi sem börn tileinka sér í uppvextinum eru hinn raunverulegi mannauður. Nái hin tímafreku verðmæti einsog virðing og umburðarlyndi ekki að skapast í nánum tengslum bresta forsendur fyrir nýtingu þess góða sem skólinn og aðrar samfélagsstofnanir reyna að bjóða.
Þegar samfélagsleg upplausn ríkir og börn sjá fullorðna ýmist vera gerendur eða þolendur í ofbeldi og grimmdarverkum í þeim mæli sem þau dynja nú yfir, gleymist ekki aðeins að vernda börnin heldur erum við að miðla þeim óbærilega spilltum menningararfi sem þau munu ekki eiga annars úrkosta en bera áfram - í afskiptaleysi eða hatri.
Ef við trúum ekki einfaldlega á að allt stefni að endalokum þá eigum við einn góðan kost (Fletcher, 1988): að foreldrar uppfylli þarfir barna fyrir sinnu og samskipti og kveiki þannig með þeim lífstrú og sterka sjálfskennd með virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum börnum. Við, sem búum við velferð og frið höfum tvöfalda ábyrgð: gagnvart okkar eigin börnum OG um leið gagnvart börnum í stríðshrjáðum löndum og löndum hins þriðja heims, í nútíð og framtíð. Áherslubreytingin í hlutverki foreldra og ábyrgra stjórnvalda sækir styrk sinn í þekkingu okkar og velferðarhugmyndir en ekki síst í þá einu raunverulegu auðlind sem við eigum - og ráðum sjálf í þágu barnanna - tímann.
Heimildir
Jönsson, Bodil, (2000), Tio tankar om tiden, Brombergs förlag.
Kjellqvist, E-B. (1993), Rött och vitt: Om skam och skamlöshet, Carlsson, Stokkhólmur.
Sigrún Júlíusdóttir. „Foreldrahlutverk og réttur barna til sinnu og samveru.“ Vísindavefurinn, 4. júní 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70771.
Sigrún Júlíusdóttir. (2003, 4. júní). Foreldrahlutverk og réttur barna til sinnu og samveru. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70771
Sigrún Júlíusdóttir. „Foreldrahlutverk og réttur barna til sinnu og samveru.“ Vísindavefurinn. 4. jún. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70771>.