Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndAf hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda
Hin dramatíska, óhugnanlega og óvænta árás sem gerð var á Bandaríkin olli ákveðnum tímamótum. Í kjölfar árásanna hefur fólk verið mjög spyrjandi, sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem ég bý og starfa, og eftir því sem ég fæ best séð á það einnig við um Ísland. Fólk reynir að skilja hvað fái menn til að fremja slík voðaverk. Í þessari umræðu hefur kastljósi fjölmiðla verið beint í síauknum mæli að íslam enda voru hryðjuverkamennirnir flestir múslimar eftir því sem við best vitum. Talið er að þeir hafi verið meðlimir í al-Kaeda samtökunum sem þeir Ussama Bin Laden og Ayman al-Zawahiri stjórna meðal annarra.
Ég held að fullyrða megi að fréttaflutningur alþjóðlegra fjölmiðla að undanförnu hafi að miklu leyti einkennst af makalausri vanþekkingu og hrikalegri einföldun. Umræðan í fjölmiðlum hefur ekki einungis valdið því að fólk hefur alls kyns ranghugmyndir um íslam og múslima heldur hefur þetta líka orðið til þess að múslimar um heim allan telja sig útskúfaða og fyrirlitna vegna aðgerða fámenns hóps. Þetta gerist á tímum hnattvæðingar sem átti að einkennast af smækkandi heimi, frelsi fólks til ferðalaga og frjálsum vöruskiptum og þjónustu. En nú er fólk dregið í dilka eftir þeirri trú sem það játar rétt eins og við séum skyndilega komin aftur til miðalda.
Einfaldaðir sleggjudómar
Til að skilja grundvallarhugtökin í íslam og í trúarvenjum múslima er ekki heppilegt og jafnvel hættulegt að meta þau eingöngu út frá veraldarsýn og gildismati okkar. Ef við viljum reyna að skilja ástandið er mikilvægt að meta það ekki út frá einföldum "kategoríum" og "klisjum".Það er til dæmis villandi, sérstaklega í þessu sambandi, að líta á íslam einungis sem pólítísk trúarbrögð sem geri ekki greinamun á pólítík og trú. Með því er ekki einungis verið að helga inntak stjórnmálanna, sem gefur ranga mynd, heldur er einnig verið að takmarka mátt íslam og gera lítið úr þeim krafti og huggun sem trúin felur í sér. Þetta einfaldaða viðhorf sýnir að við< skiljum hvorki til fulls þær flóknu samfélagsaðstæður sem knýja fólk til aðgerða né hugtökin sem þar liggja til grundvallar. Þannig verðum við of fljót til þess að dæma verknað eins og hryðjuverk sem trúarlegan verknað þó ekki sé alltaf verið að þjóna trúarlegum markmiðum.
Okkur hættir líka til að ofnota orð eins og „múslimskir öfgamenn”. Við gerum þá hvorki greinarmun á nokkrum öfgamönnum og um milljarði múslima né á því hvaða pólítískum stefnumálum hryðjuverkamaðurinn hampar. Við blöndum hins vegar ekki endilega trú inní umræðuna þegar fjallað er um hryðjuverkamenn á Norður Írlandi, Perú eða á Spáni. Til dæmis var ekki rætt um hverrar trúar Timothy McVeigh var, en hann var dæmdur til dauða og tekinn af lífi vegna sprengingarinnar í Oklahóma.
„Við” og „þau”
Önnur einföldun, sem hefur jafnvel enn hættulegri afleiðingar er sú tilhneiging að líta á árásina þann 11.september sem "Clash of Civilizations" eða "árekstur menningarheima"í skilningi Samuels Huntingtons. Með slíkri svart-hvítri sýn er heiminum skipt í tvö lið, „þau” og „við”, og virðist gert ráð fyrir að einhvers konar Berlínarmúr hafi staðið fyrir botni Miðjarðarhafs sem skildi þessi menningarsvæði að. Þegar við skoðum hin fjölþættu tengsl þessara menningarheima og áhrif þeirra hvors á annan síðustu 1400 árin , til dæmis í nátturuvísindum, heimspeki eða matargerð, er hins vegar ógerningur að segja hvað tilheyri "okkur" og hvað "þeim."
Á miðöldum var til dæmis mikið samstarf milli arabískra og persneskra heimspekinga og vísindamanna. Í þeim hópi voru múslimar, gyðingar og kristnir sem unnu saman að því að túlka klassíska gríska heimspeki. Þeir uppgötvuðu margt og þróuðu stærðfræði og læknisfræði sem skilaði sér síðar til Evrópu. Einnig má benda á að fjöldinn allur af arabískum eða persneskum orðum eru til í íslensku: sykur, kaffi, algebra, rassía, fíll, hass, banani, skák og mát. Menningararfur okkar, til dæmis fræðimennska, á meðal annars rætur sínar að rekja til Mið-Austurlanda.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru skilin milli „okkar” og „þeirra” ekki svo skýr. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að atburðirnir jafngildi árekstri menningarheima. Eitt stórt menningarsvæði er ekki í stríði við annað stórt menningarsvæði heldur gerði lítill hópur fólskulegar árásir á stofnanir í Bandaríkjunum. Í fréttaflutningi er hins vegar einfalt og þægilegt að nota áðurnefnda flokkun.
Við sjáum oft myndir af mótmælum, til dæmis í Pakistan eða Íran, þar sem dökkir, reiðir, skeggjaðir menn, í framandi klæðum með Kóraninn á lofti hrópa slagorð sem við skiljum ekki eða virðast ógnandi. Þá sýnast andstæðurnar milli þeirra og okkar skýrar: Þeir eru það sem við erum ekki. Við teljum okkur vera skynsöm, framfarasinnuð, friðsöm og upplýst og skiljum einfaldlega ekki þetta hugarfar og þessa lífsýn. Draugar vakna úr fortíðinni sem minna okkur á það þegar harðlínumenn stjórnuðu lífi manna í nafni trúarinnar. Fólkið á myndunum er því algerlega á skjön við nútímann. En ef við skoðum nánar hvað fólkið er að segja, kemur í ljós að margir á Íslandi gætu samsinnt því. Þetta fólk er í raun að flytja mjög nútímalegan boðskap, þó það hljómi einkennilega, boðskap sem ber að taka alvarlega ef við viljum reyna að skilja reiði þeirra.
Af hverju hata þau okkur?
Á síðustu tíu árum hef ég lagt mig fram um að skilja trúarbrögð, tungumál, menningu og sögu Mið-Austurlanda. Þegar ég reyni að túlka þessa óskiljanlegu árás gegn saklausum borgurum í New York og Washington koma fram ýmsar tilfinningar. Í fyrsta lagi var ég dauðhræddur og reiður, þar sem ég bý nálægt New York. Frændi minn starfaði við hliðina á Tvíburaturnunum og því var mér mjög umhugað um velferð hans. Í öðru lagi vissi ég að þetta myndi hrinda af stað bylgju fordóma gagnvart mörgum samstarfsmönnum og nemendum mínum sem eiga rætur að rekja til Mið-Austurlanda. Í þriðju lagi var þetta ákveðin áminning um harðan veruleika Mið-Austurlanda og áréttaði ýmis stef úr sorgarsögu þessa svæðis. Í ljósi sögu Mið-Austurlanda vakna nokkrar spurningar:
Er hin ofbeldisfulla og brenglaða heimsmynd Ussama Bin Ladens og al-Kaeda-samtakanna einkennandi fyrir múslima í Mið-Austurlöndum?
Er hún toppurinn á ísjakanum?
Og mun hún hafa skelfilegar afleiðingar fyrir allan heiminn, ekki síst fyrir samfélög múslima?
Stjórnast þessi hópur af hugtakinu „jihad”, sem við skiljum sem „heilagt stríð” og ætlar hann sér að heyja stríð gegn okkur?
Ég legg áherslu á, að það er um einn milljarður múslima í heiminum í dag. Ef íslam væru trúarbrögð haturs og hér væri um að ræða átök tveggja siðmenninga þá væri heimurinn miklu verr á vegi staddur en hann þó er, þrátt fyrir allt. Hafa ber í huga að í arabísku liggja samhljóðarnir s-l-m í orðinu íslam líka til grundvallar í orðinu salaam (skylt hebreska orðinu shalom) sem þýðir friður. Friður er að sjálfsögðu eftirsóknarverðara ástand í íslam en stríð. Yfirgnæfandi meirihluti múslima eru friðsamir og vilja lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína.
Ekki verður þó litið framhjá því að síðastliðna hálfa öld hefur róttækum pólitískum hreyfingum, sem sumar setja trúmál á oddinn og eru andsnúin Vesturlöndum, vaxið fiskur um hrygg. Tilvist slíkra hreyfinga ætti að skoða meðal annars í ljósi aðstæðna sem hafa skapast í Mið-Austurlöndum síðustu 50 árin. Í Vestur-Evrópu hefur ríkt friður þessa áratugi. Það þekkjum við best hér á landi. Þessi tími hefur einkennst af stórkostlegum efnahags- og tækniframförum. En reynsla fólks í Mið-Austurlöndum gæti hins vegar ekki verið ólíkari reynslu okkar Vesturlandabúa.
Frá lokum seinna stríðs hafa Mið-Austurlönd orðið að þola látlaust ofbeldi. Um er að ræða ellefu stríð, ekki færri en þrjár almennar hallarbyltingar og langvinnar og blóðugar borgarastyrjaldir svo sem. í Líbanon og Yemen. Einnig hafa orðið margar uppreisnir, réttindi minnihlutahópa hafa verið fótum troðin svo og starfsemi pólitíska hreyfinga. Auk þess hefur verið mikið um fólksflutninga. Varla er til sú kynslóð í Mið-Austurlöndum sem hefur ekki upplifað stríð, byltingu, eða borgarastyrjöld.
Nú er ef til vill freistandi að líta á þetta ástand sem einkennandi fyrir Mið-Austurlönd og jafnvel rökrétt að draga þá ályktun að ástandið megi rekja til ofbeldishneigðra íbúa Mið-Austurlanda. Þegar þessi átök eru hinsvegar skoðuð nánar kemur í ljós að ýmis lönd á Vesturlöndum áttu beina aðild að ofbeldinu. Fjögur stríð voru beinlínis gegn Vesturlöndum. Þau voru átökin við Suez, Alsír, Afghanistan (hinu fyrra) og Persaflóastríðið. Í öðrum átökum stóðu Vesturlöndin annað hvort bakvið átökin eða voru talin vera það.
Þjóðir múslima hafa yfirleitt ekki riðið feitum hesti frá þessum átökum. Til dæmis hafa þær verið sérstaklega máttvana í öllum sínum aðgerðum gegn erkióvininum Ísrael. Hinn almenni borgari hefur misst tiltrú á eigin ríkistjórn og lítur á sig sem veikburða og áhrifalausan í þessum heimi. Mikil vanmáttarkennd ríkir enda hefur almenningur ekki haft mikla ástæðu til að fagna sigrum eða framförum. Auk þess hafa ríkisstjórnir landanna ekki veitt þegnum sínum lágmarksþjónustu. Kerfið er í molum, atvinnuleysi mikið og fá atvinnutækifæri. Þar af leiðandi ríkir almennt vonleysi. Úr vonleysinu hefur sprottið fram mikil reiði í garð Vesturlanda og sérstaklega Bandaríkjamanna.
Algengasta spurningin í Bandaríkjunum í dag hljóðar svo: „Af hverju hata þeir okkar?” George Bush, Bandaríkjaforseti hefur til dæmis kastað fram þessari spurningu og hún hefur prýtt forsíðu tímaritsins Newsweek. Í þessari saklausu og eðlilegri spurningu felst svarið við hluta af vandamálinu. Vesturlandabúar en þó sérstaklega Bandaríkjamenn, hafa litla sem enga hugmynd um hvað er að gerast í heiminum í kringum þá. Þeir gera sér enga grein fyrir því botnlausa vonleysi eða þeirri örbirgð sem ríkir í til dæmis Afríku og Asíu. Í stað þess að spyrja „Af hverju hata þau okkur?”, ættu þeir að spyrja spurningarinnar: „Hvað höfum við gert til þess að þau geti elskað okkur?” Séð frá sjónarhorni íbúa Mið-Austurlanda hafa Bandaríkjamenn gert fátt til að koma á eðlilegum og uppbyggilegum samskiptum við fólk í Mið-Austurlöndum.
Um samskipti Bandaríkjanna og Mið-Austurlanda
En hatar fólk í Mið-Austurlöndum Bandaríkjamenn? Svarið er bæði já og nei. Það er oftúlkun að telja að hatur einkenni viðhorf fólks til Bandaríkjamanna. Í Mið-Austurlöndum ríkir bæði reiði og öfund en líka aðdáun og það sem Bandaríkin hafa að bjóða þykir eftirsóknarvert. Yfirleitt eru mjög langar biðraðir fyrir utan öll sendiráð Bandaríkjanna. Í þeim bíður fólk sem vill fá vegabréfsáritun. Einnig er mikil neysla á bandarískum vörum og menningu, ekki síst á afþreyingarefni eins og Baywatch-þáttunum og kvikmyndum Schwarzeneggers. Eftirsóknarvert er að fjárfesta í bandarískum fyrirtækjum og geysilega mikið er keypt af bandarískum vopnum.
Á sama tíma ber á mikilli öfund og reiði í garð Bandaríkjanna. Reiðin stafar fyrst og fremst af því að íbúar Mið-Austurlanda telja utanríkisstefnu Bandaríkjanna ranga en þetta beinist ekki endilega gegn Bandaríkjamönnum sjálfum. Bandaríkin berjast fyrir og vilja viðhalda frelsi, jafnrétti og lýðræði innan eigin landamæra. Það á ekki við um utanríkisstefnu þeirra að mati fólks í Mið-Austurlöndum. Þar berjast Bandaríkjamenn alls ekki fyrir frelsi og lýðræði. Þvert á móti einkennast aðgerðir Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum, að mati þeirra sem þar búa, af valdahroka, græðgi og hræsni. Þeir telja að Bandaríkjamenn leggi sig fram um að styðja ríkisstjórnir, til dæmis í Egyptalandi og í Sádi-Arabíu,sem kúgi þegna sína og koma í veg fyrir að fólk fái að njóta frelsis í eigin löndum. Svo ekki sé minnst á hlutdeild Bandaríkjamanna í viðskiptabanninu við Írak þar sem hefur verið viðvarandi skortur á lyfjum og matvælum um árabil.
Síðast en ekki síst hafa Bandaríkjamenn stutt Ísrael í einu og öllu í stríðinu gegn Palestínumönnum að mati heimamanna. Nánast á hverjum degi þurfa Palestínumenn að þola yfirgang Ísraela sem fá gífurlega fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum og eru vopnaðir bandarískum vopnum. Bandaríkin beita líka áhrifum sínum innan alþjóðlegra stofnana til að verja Ísrael gegn óþægilegum samþykktum. Íbúar Mið-Austurlanda telja að Bandaríkin hjálpi Ísrael til að standa utan við alþjóðasamþykktir og lagasetningar og veiti þeim þar af leiðandi ótakmarkað svigrúm til að heyja baráttu sína gegn Palestínumönnum.
Margir í Mið-Austurlöndum hafa mjög mikla samúð með Palestínumönnum. Barátta Palestínumanna er mjög táknræn og margir sjá sig í hlutverki Palestínumannsins sem berst gegn óréttlæti og kúgun. Reyndar gera ekki margir greinarmun á Bandaríkja-mönnum og Ísraelum og líta á þá sem eina heild. Í al-Aksa moskvunni í Jerúsalem, einum helgasta stað múslima, er til dæmis platti í miðju moskunnar sem á eru festar leifar af skothylki sem var notað gegn Palestínumönnum. Á skothylkinu stendur skýrum stöfum "Made in USA." Ekki fer á milli mála hver óvinurinn er eða hver það er sem styður við bakið á honum.
Einnig verður að taka skýrt fram að það eru ekki trúarbrögð Bandaríkjamanna og Vesturlandabúa, kristin trú, sem er undirrótin að reiðinni í okkar garð. Múslimum er ekki sérstaklega í nöp við kristni og auk þess líta margir þeirra raunar ekki á okkur sem kristið samfélag heldur afhelgað. Ógnin frá Vesturlöndumtengist ekki kristni heldur af "sekulariseringunni" eða þeirri veraldarhyggju, nautnahyggju og græðgi sem þeir telja að einkenni fyrst og fremst Bandaríkjamenn en einnig aðra Vesturlandabúa. Bandaríkin erpersónugervingar nútímans þar sem öll siðferðisleg gildi virðast hafa fokið út í veður og vind, sem endurspeglast best í bandarísku afþreyingarefni sem dreift er um allan heim. Íbúar Mið-Austurlanda telja sig hafa sannanir fyrir því að illa sé komið fyrir okkur í siðferðismálum og benda á tölur í því sambandi. Hér er há tíðni hjónaskilnaða, fóstureyðinga og kynsjúkdóma, mikil misnotkun á eiturlyfjum og áfengi og lítil kirkjusókn.
Fólki í Mið-Austurlöndum finnst því að líf okkar sé eftirsóknarvert að einhverju marki en hefur áhyggjur af löstum þeim sem það telur einkenna líf okkar. Mið-Austurlandabúar vilja með öðrum orðum ekki fá allan pakkann. Þeir sjá að þessir nýju og oft óæskilegu þættir eru smám saman að gera innreið sína í samfélag þeirra. Margir hugsuðir og stjórnmálamenn í Mið-Austurlöndum eru því að glíma við þessi vandamál nútímans. Töluverð tilvistarkreppa ríkir þar sem verið er að leita að nýjum gildum og bættu siðferði til að mæta nútímanum.
Ef við lesum vandlega þessar pælingar eru þær um margt líkar þeim skrifum sem eiga sér stað til dæmis hér á landi um það hvernig við eigum að móta líf okkar á nýjum tímum og á hvaða stoðum við eigum að byggja grundvallarviðhorf okkar um hvað sé rétt, rangt, fallegt og æskilegt. En þó að við getum fallist á að þessar vangaveltur eigi margt sameiginlegt og getum jafnvel verið sammála túlkun þeirra á vandamálum nútímans myndum við varla vera sammála þeim lausnum sem sumir Mið-Austurlandabúar setja fram til að ráða bót á tilvistarkreppunni.
Í krafti trúarinnar
Í þessari tilvistarkreppu sem skapast af vonlausum aðstæðum í efnahagsmálum og stjórnmálum, finnst Mið-Austurlandabúum að þjarmað sé að þeim úr öllum áttum. Ómögulegt virðist að keppa við Vesturlönd með einum eða öðrum hætti og fólk hefur því helst fundið styrk og huggun í trúnni. Hér kemur íslam til sögunnar. Saga íslam er á margan hátt farsæl og sýnir múslimum að þeir réðu lögum og lofum í heiminum fyrir ekki svo löngu síðan. Á tímum kalífadæmis Abbasída , til dæmis, var Bagdad nafli alheimsins. Síðan varð efnhagsleg og pólitísk hnignun á svipuðum tíma og Evrópa var að brjóta sig úr hlekkjum hinna myrku miðalda. Margir múslimar sjá því samasemmerki milli uppgangs Vesturlanda og hnignunar Mið-Austurlanda hvort sem það á við rök að styðjast eða ekki.
Saga íslam kennir múslimum að það sé möguleiki að trúa því að múslimar nái fótfestu á ný og getið búið í farsælu og kraftmiklu þjóðfélagi. Þegar þeir skoða hvers vegna hnignunin átti sér stað komast margir að þeirri niðurstöðu að hún hafi stafað af því að múslimar iðkuðu ekki trú sína með réttum hætti. "Þegar við fórum eftir ákvæðum Kóransins, vorum við áhrifamikil og voldug": segja þeir gjarnan. Vandinn felst því ekki í trúnni heldur í trúariðkuninni.
Krafan hefur því verið sú að breyta þjóðfélaginu þannig að þegnarnir fái fleiri tækifæri til stunda trú sína. Hér hafa róttækar hreyfingar komið með sína lausn sem felst meðal annars í því að snúa aftur til fortíðar og breyta þjóðfélagsaðstæðum þannig að þær líkist því þegar íslam réð lögum og lofum. Til að ná þessum markmiðum telja róttækar hreyfingar til að múslimar verði að stunda jihad.
Frummerking „jihad”
Hugtakið jihad birtist oft í Kóraninum, sem er helgirit múslima. Orðið jihad merkir barátta eða átök. Á íslensku er það oft þýtt sem "heilagt stríð" sem gefur satt að segja ekki alltaf rétta mynd af þessu fyrirbæri. Íslensku orðin "heilagt stríð" eiga sér enga samsvörun í arabísku. Stríð er harb og muqaddas er helgi og þessi orð koma aldrei fyrir saman. En þegar við sjáum orðið jihad þýðum við það sem "heilagt stríð". Þess vegna gætir oft misskilnings þegar rætt er um jihad og fólk dregur rangar ályktanir. Ef við skoðum hvað hugtakið merkir og hvernig því hefur verið beitt bæði í Kóranium, í klassískum trúar-og lagatextum og í ritum og orðum nútíma múslima er ljóst að merking orðsins er margvísleg.
Hafa ber í huga að Múhameð spámaður múslima fékk vitranir og skilaboð beint frá Guði. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort að við trúum því hvort að Múhameð hafi verið spámaður eður ei. Staðreyndin er sú að um einn milljarður manna trúir því að Múhameð var síðasti spámaður Guðs í langri röð spámanna. Boðskapur íslam, eins og hann birtist Múhammeð, fjallar um það að sýna Guði undirgefni og lúta boðum hans. Múslimi er þessvegna sá sem sýnir Guði undirgefni og fellst á boð og bönn Guðs. Í boðskap Kóransins birtist fjölgyðisumhverfi Arabíuskagans þar sem ættbálkakerfið var undirstaða þjóðfélagsins. Kóraninn og lagasetningar múslima áttu að mynda nýjan flöt á samskiptum manna og kvenna sem var ekki bundinn hefðum ættbálkasamfélagsins í Arabíu.
Eitt af því sem einkenndi ættbálkanna var „rassía” (fyrirmynd orðsins sem notað er í íslensku í „lögreglan gerði rassíu”.) sem var stjórnlaust stríð milli ættbálkanna. Íslam kemur á reglu í samskiptum manna og hugtakið jihad á við það sem kemur í stað "rassíu". Í "kaos" ættbálkasamfélagsins kemur íslam sem „kosmos”. Jihad í Kóraninum hefur þar af leiðandi mjög jákvæða merkingu því meginmarkmið þess er að koma í veg fyrir rassíu og varðveita friðinn. Jihad felur þó í sér viðurkenningu á því að það liggi í eðli mannsins að hann eða hún hafi tilhneigingu til að syndga og virða ekki rétt náungans eða velferð samfélagsins almennt. Hugtakið jihad viðurkennir líka það eðli samfélaga að vera oft í stríði við hvort annað.
Hið ytra og innra jihad
Í grófum dráttum skiptist jihad í tvennt: Stærra jihad (jihad al-akbar) og smærra jihad (jihad al-aksar). Hið stærra jihad er erfiðara og lýsir baráttunni sem við heyjum hvern einasta dag. Það er hið innra jihad sem merkir baráttu einstaklingsins við að standast freistingar Djöfulsins.
Hið smærra jihad er hið ytra jihad sem við skulum nú skoða nánar. Bæði í Kóraninum og í Hadith, sem mynda grundvöllinn að Sharía, sem er lagakerfi Múslima, eru til skýrar reglur um rétta hegðun í stríðsrekstri. Í reglunum endurspeglast áhyggjur af því að múslimar hegði sér með ofbeldisfullum hætti og drepi og ræni í nafni trúarinnar. Það myndi spilla friði samfélagsins og er því talið óæskilegt. Því eru settar skýrar reglur um það hvenær aðstæður eru réttar fyrir hið ytra jihad. Kóraninn fjallar um hið ytra jihad sem baráttu múslima gegn trúleysingjum. Ef samfélagi múslima stafar ógn af trúleysingjum er það skylda múslima (fard kifaya) að berjast gegn slíkri ógn. Múslimar eru hvattir til að berjast eins og er sagt í Kóraninum, "bi amwalihim wa anfusihim" - með lífi sínu og eignum.
Til að hvetja menn enn frekar til dáða eru lýsingar Kóransins mjög skýrar hvað varðar umbun hermanna falli þeir í þess konar stríði. Ef hermaðurinn er píslavottur (shahid) fær hann rakleiðis inngöngu í himnaríki en þarf ekki að bíða eftir endalokum tímans. Í þessum stríðsrekstri verða múslimar þó fyrst að gefa trúleysingjunum tækifæri til þess að gerast múslimar. Ef trúleysingjarnir gerast múslimar þá eru forsendur jihad ekki lengur fyrir hendi. Þá eru til margvíslegar reglur um það hvaða einstaklingar geta fengið undanþágu frá herþjónustu, um að ekki eigi að drepa konur og börn óvinarins, um meðferð stríðsfanga og farið er mjög nákvæmlega yfir það hvernig megi og eigi að skipta herfangi.
Kóraninn gefur ekki skýr svör um það hvort múslimar geti stundað jihad "í sókn" eða "í vörn" og stangast vers Kóransins á um þessi mál. Velflestir ritskýrendur bæði nú og fyrr telja að jihad sé einungis réttlætanlegt sem sjálfsvörn. Einungis megi nota jihad í sókn ef landsvæði múslima og trúariðkun þeirra sé í hættu. En margir telja líka að jihad ætti einnig að beita í sókn og að bardögum ættu ekki að linna fyrr en allur heimurinn tilheyrir múslimum og allir séu undir verndarvæng umma, samfélags trúaðra. Í umma gera múslimar ráð fyrir að gyðingar og kristnir geta áfram stundað trú sína þó að þeir verði annars flokks þegnar en í þessu umma ræður íslam lögum og lofum. Þetta viðhorf er ekki einstakt fyrir íslam heldur hafa velflest trúarbrögð það að markmiði, meðal annars kristnin, „að gera allar þjóðir að lærisveinum”.
Mikið er fjallað um jihad í klassískum trúar- og lögfræðitextum. Fyrir þeim sem skrifuðu textana vakti að koma í veg fyrir að hugtakið yrði misnotað. En hér var mikill vandi á ferð því að engin kirkjuleg stéttaskipting eða verkaskipting er í íslam. Það er kannski einn megin munurinn á íslam og kristni því að í íslam er engin kirkja og engin prestastétt. Íslam er í raun mjög lýræðisleg trú þar sem enginn maður getur komið milli annars manns og Guðs. Það er því fátt sem trúarsamfélagið getur gert til að hamla gegn nýjum túlkunum eða oftúlkunum nema þær brjóti afdráttarlaust í bága við grundvallarhugmyndir íslam.
Þegar metin er notkun jihad á hinu klassíska tímabili íslam er ljóst að því var beitt í margvíslegum tilgangi. Hið ytra jihad eflir samstöðu múslima, réttmætir stöðu leiðtoga samfélagsins, og setur fram skýrar reglur um stríðsrekstur. En ef við skoðum notkun jihad hugtaksins á nítjándu og tuttugustu öld er ljóst að það hefur tekið verulegum breytingum. Því hefur reglulega verið beitt í pólitískum tilgangi og þá sérstaklega til þess að hvetja múslima til að rísa upp gegn heimsvaldastefnu eða imperíalisma Vesturlandanna. Þá álitu þeir sem efndu til jihad að samfélag múslima stæði ógn af heimsvaldastefnunni og því væri réttlætanlegt að efna til jihad. Hægt er að finna slíkar yfirlýsingar bæði á Indlandi gegn nýlenduherrum sínum, Bretum, og í Egyptalandi.
Þá gripu Tyrkir til þess ráðs í fyrri heimstyrjöldinni þegar þeir börðust við hlið Þjóðverja gegn bandamönnum að lýsa yfir jihad. Bretar höfðu verulegar áhyggjur af þessu enda voru margir múslimar í breska konungsdæminu, til dæmis á Indlandi. Áhyggjur Breta leiddu til þess að þeir föluðust eftir samstarfi við Araba í fyrri heimstyrjöldinni, sem var mótleikur gegn jihad-yfirlýsingu Tyrkja, eins og frægt hefur orðið í sögunni af Arabíu-Lawrence og verðlaunamynd sem gerð hefur verið um hann.
Einkennandi við þessar jihad-yfirlýsingar er að þær náðu alls ekki tilætluðum árangri. Ekki tókst að efla einingu meðal múslima eða hvetja þá til dáða. Fyrir því eru margar ástæður. Til dæmis voru boðskipti á þessum tíma ekki mjög öflug. Í öðru lagi voru yfirlýsingarnar skriflegar og flestir múslimar á þessu svæði voru ólæsir. Í þriðja lagi eru múslimar mjög fjölbreytilegur hópur og margir þeirra taka sér ekki vopn í hönd fremur en aðrir jarðarbúar nema þeir sjái beinlínis þörf til þess. Við skulum gefa þessu gaum sérstaklega nú í dag, því að við álítum oft múslima vera samstilltan hóp sem hegði sér alltaf eins. Þegar við skoðum söguna síðustu 600 árin, sést vel að svo hefur ekki verið. Ekki er því ástæða til þess að ætla að múslimar muni skyndilega nú í dag rísa allir upp sem einn maður undir merkjum trúarinnar.
Ekki hægt að kalla hryðjuverkin jihad
Á tuttugustu öldinni hefur einnig komið ný tegund af jihad sem er stríð milli múslima innbyrðis. Gott dæmi um slík átök var stríðið milli Írak og Íran á árunum 1980 til 1988 (þegar Saddam Hussein var "okkar maður”). Í þessu átakanlega og blóðuga stríði sem breytti nákvæmlega engu lýstu báðir aðilar yfir jihad. Íranskir unglingsstrákar voru sendir út á vígvöllinn með lykil um hálsinn sem átti að tákna að þeir ættu greiðan aðgang að hliði himnaríkis.
Í ljósi þessa er eðlilegt að spyrja hvort túlka megi atburðina þann 11. september sem jihad? Strangt til tekið gengur það ekki upp í trúarlegum skilningi. Það er svo margt í þeirri árás sem brýtur þvert gegn þeim klassískum hugmyndum og þeim grundvallarskilyrðum sem sett eru fram um hvernig eigi að heyja jihad. Í fyrsta lagi dó saklaust fólk í árásunum, þar á meðal konur og börn. Í öðru lagi voru margir múslimar á meðal þeirra sem féllu. Í þriðja lagi var fólkinu sem varð fyrir árásunum ekki gefinn kostur á að gerast múslimar. Í fjórða lagi geta múslimar iðkað trú sína í Bandaríkjunum og þar af leiðandi eru Bandaríkin ekki landsvæði þar sem trúariðkun múslima er í hættu.
Þó að ég telji ekki að um jihad hafi verið að ræða, þá hefur árásin verið kölluð „heilagt stríð” bæði í fjölmiðlum og af stjórnvöldum. Sú nafngift gefur til kynna að hér hafi íslam gert árás á siðmenningu „okkar”. Í stað þess að túlka þetta sem aðgerð fámenns róttæks hóps, var skuldinni skellt á heil menningarsamfélög. Með slíkri túlkun eru Vesturlandabúar að breyta árásinni í „heilagt stríð”. Fjallað var um atburðina sem baráttu á milli „góðs” og „ills”.
George Bush Bandaríkjaforseti sagði, að vísu óvart, að Bandaríkjamenn ætluðu í krossferð (crusade) og hann endar hverja einustu ræðu sem hann heldur á að segja: „Guð blessi Bandaríkin” (God Bless America). Þegar þessi orð Bandaríkjaforseta eru þýdd yfir á arabísku eða urdú virðist ljóst að Bush sjálfur sé að heyja heilagt stríð. Þó að Bush ætli sér alls ekki að nota þessi orð í trúarlegri merkingu taka þau á sig trúarlega merkingu annars staðar. Frá sjónarhorni fólks á Mið-Austurlöndum var Bush að skipa Guði að blessa Bandaríkin í þessum hernaði.
Við föllum í gryfju Ussama Bin Ladens
Þetta var nákvæmlega það sem Ussama Bin Laden vildi. Hann vill einmitt berjast undir þessum formerkjum. Með því að bregðast svona við föllum við því í gryfju Bin Laden. Hann getur nýtt sér viðbrögð okkar til að sannfæra múslima um að Vesturlönd séu í stríði við íslam. Þó að Bush og fleiri hafa oft sagt að þeir séu ekki í stríði við íslam heldur hryðjuverkamenn finnst sumum múslimum sem aðgerðir Bandaríkjamanna séu ekki í takt við málflutning þeirra. Þeir líta svo á að Bandaríkjamenn séu í raun að nota þetta tækifæri til að klekkja enn á ný á ríki múslima. Þessi hugmynd fékk enn frekari staðfestingu þegar alþjóðlegir fjölmiðlar eins og CNN kepptust við að túlka atburðina þann 11.september í svart-hvítri mynd, þar sem um var að ræða tvö lið, „okkur” og „þau”.
Mörgum múslimum sem flúðu til Vesturlanda undan vonleysinu í Mið-Austurlöndum finnst nú að þeir séu ekki velkomin í klúbbinn okkar. Litið sé svo á að trúarbrögð þeirra séu trúarbrögð hryðjuverka. Velflestir múslimar í Mið-Austurlöndum hafa alls enga samúð með Ussama Bin Laden eða heimsmynd hans. Þeir vilja alls ekki búa til samfélag í líkingu við það sem félagar Bin Laden hafa komið á þeim svæðum í Afganistan þar sem Talibanar eru við stjórn. En vegna þeirrar áráttu okkar að einfalda málin og skilgreina þessa árás sem átök menningarheima, hefur Ussama Bin Laden fengið tækifæri til að snúa málinu sér í hag og það gerir stöðuna nú óhugnanlega. Auk þess hefur maður eins og Ussama Bin Laden nú í fyrsta sinn aðgang að alþjóðlegum fjölmiðlum það sem fólk getur bæði séð hann og heyrt. Í útvarpi og sjónvarpi nær Bin Laden nú til hinns ómenntaða, ólæsa manns sem er líklegastur að ganga til liðs við samtök hans. Því hef ég miklar áhyggjur af honum og af samtökum hans.
Ussama Bin Laden hefur breytt boðskap sínum að undanförnu. Nú er hann ekki eins róttækur og í fyrri yfirlýsingum. Hann hefur sett ýmis málefni á oddinn svo sem örlög Palestínu og Írak sem flestir íbúar Mið-Austurlanda hafa samúð með. En erkióvinur Ussama Bin Ladens er ríkisstjórn Sádi-Arabíu. Bin Laden er ævareiður yfir því að herlið Bandaríkjanna hafi aðsetur í „landi spámannsins” eins og hann kallar Sádi-Arabíu, en Múhameð var frá Mekka og sú borg ásamt borginni Medina eru helgustu landsvæði múslima. Ég held að al-Kaeda samtökin ætli sér fyrst og fremst að ná valdi á Sádi-Arabíu, jafnvel á Egyptalandi og svo víðar á Mið-Austurlöndum.
Það sem vakti fyrir al-Kaeda samtökunum, ef við gerum ráð fyrir að þau hafi staðið fyrir árásunum, var meðal annars það að hrinda af stað glundroða og spennu í Mið-Austurlöndum sem myndi veikja þær ríkisstjórnir sem þar eru. Á óróatímum er auðvelt að nýta ástandið sér í hag og Bin Laden gerir það nú með mjög eindregnum hætti. Þó að tæknilega hafi árás hans ekki verið jihad eru eftirmál árásarinnar að taka á sig ýmis einkenni jihad. Bin Laden og fylgismenn hans hafa nýtt sér áróðurs- og sameiningarflötinn á jihad sér í hag.
Lokaorð
Þetta er stund Bin Ladens og ég er hræddur um að hann sé að nýta sér hana til hins ýtrasta. Ef ekki er farið varlega í baráttuna við hryðjuverkasamtök á þessu eldfima svæði er hætt við því að eldar fari að brenna úti um allt. Á næstu mánuðum, sérstaklega í föstumánuðinum Ramadan sem nú fer í hönd, verður áhugavert að fylgjast með fjórum löndum: Pakistan, Egyptalandi, Sádi-Arabíu og Írak. Í Ramadan fara flestir múslimar að endurmeta stöðu sína í heiminum. Fastan er tími samstöðu þegar fólk er mikið saman og ræðir oftar en ekki um trúarleg málefni. Ef stríðið geisar enn mun það vafalaust verða fólki til umhugsunar. Í Pakistan, Egyptalandi og Sádi-Arabíu er mikil undiralda óánægju og þar hafa róttækar hreyfingar náð að festa rætur. Aðstæður í þeim löndum eru því viðkvæmar. Aðstæður eru aðrar í Írak en þar hefur ógnarstjórn Saddams Hussein haldið róttækum hópum verulega í skefjum. Ég met stöðuna sem svo að ekki sé ólíklegt að Bandaríkjamenn muni sjá sér hag í því, í þessari baráttu við hryðjuverkamenn, að gera árás á Írak og koma Saddam Hussein frá völdum.
Þeir sem framkvæmdu árásina voru ekki góðir og gegnir múslimar og árásin á sér enga stoð í trúarlegum lögmálstextum. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn reyna að misnota trú í pólitískum tilgangi. Hér var um að ræða pólítíska árás samtaka sem ætla sér að ná pólítískum völdum, aðallega í Mið-Austurlöndum. Bin Laden og menn hans fylgja sinni dómsdagstrú og vilja koma á samfélagi þar sem þeir gætu haft tögl og hagldir meðal annars með líkum stjórnarháttum og Talibanar í Afghanistan. Slík ógnarstjórn er æskileg að þeirra mati því að hún festir þá í sessi og þeir geta kúgað þegna sína í nafni trúarinnar. Flestir múslimar í Mið-Austurlöndum vilja ekki lifa undir slíkri stjórn en hafa ekki um marga kosti að velja. Þegar öllu er á botninn hvolft veitir Bin Laden von og hann er tákn dirfsku og máttar á svæði þar sem fólk er haldið minnimáttarkennd. Á krepputímum og sérstaklega á tímum tilvistarkreppu er ofsatrú góður kostur fyrir marga því að hún veitir öryggi og ákveðna reglu. Hún getur komið á „kosmos” í „kaos” nútímans.
Erindi flutt í Háskóla Íslands 24. október 2001.
prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams
College, Massachussets
Útgáfudagur
24.10.2001
Síðast uppfært
8.11.2018
Spyrjandi
Ritstjórn
Efnisorð
Tilvísun
Magnús Þorkell Bernharðsson. „Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda.“ Vísindavefurinn, 24. október 2001, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70769.
Magnús Þorkell Bernharðsson. (2001, 24. október). Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda. Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70769
Magnús Þorkell Bernharðsson. „Af hverju hata þeir okkur? Jihad í nútímasögu íslam og Mið-Austurlanda.“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2001. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70769>.