Hvað eru grafgötur og hvað merkir orðasambandið að fara (ekki) í grafgötur með eitthvað?Orðið grafgötur er fleirtöluorð og merkir 'djúpar, niðurgrafnar götur, niðurgrafnir stígar'. Það er notað í orðasamböndunum fara ekki í grafgötur um eitthvað eða ganga ekki í grafgötur um eitthvað sem merkja annars vegar að 'velkjast ekki í vafa um eitthvað' og hins vegar að 'leyna einhverju ekki, láta afstöðu sína skýrt í ljós'.

Grafgötur. Jón G. Friðjónsson telur líkinguna sótta til þess að vegfarendur sjást varla ef þeir fara um niðurgrafna stíga, þeir fara leynt.
- Halldór Halldórsson. 1991. Íslenskt orðtakasafn. 3. útgáfa. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Mál og menning, Reykjavík. Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
- File:Canadian trenches - Vimy Sector.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 19.01.2016).