Hvernig er farið að því að finna út rennsli í rúmmetrum í hlaupum eins og Skaftárhlaupi?Rennsli fallvatns er fundið með því að mæla rúmmál vatns sem berst í gegnum þversnið farvegarins á tímaeiningu. Venja er að nota mælieininguna rúmmetrar á sekúndu [m3/s]. $$Rennslið [m^3/s] = flatarmál [m^2] \cdot hraði vatnsins [m/s].$$ Auðvelt er að mæla þversnið vatnsfalls á tilteknum stað og reikna flatarmál þess við tiltekna vatnshæð. Rennslið í þversniðinu fæst með því að mæla straumhraðann þar. Straumhraðamælingin skannar allt þversniðið, en hraðinn í því er breytilegur eins og sést á mynd 1. Straumhraðamælingin gefur rennslið þá stund meðan hún fer fram, en rennsli fallvatna er breytilegt með tíma. Straumhraðamælingar sem ná yfir allt þversnið vatnsfallsins eru tímafrekar og ekki raunhæft að sírita vatnshraðann í öllu þversniðinu. Til þess að fá samfelldan rennslisferil er vatnshæð árinnar mæld þar sem vitað er að samband er milli rennslis og vatnshæðar. Þegar rennsli í farvegi eykst hækkar vatnsborðið. Meðan engar breytingar verða á þversniðinu er fast samband milli vatnshæðar og rennslis. Þess vegna er mikilvægt að velja rennslismælistað sem er stöðugur. Auðvelt er að koma fyrir tækjum sem skrá vatnshæðina í sífellu. Með því að rennslismæla ána við mismunandi vatnshæð fæst rennslislykill, ferill sem nýtist við að yfirfæra vatnshæð í rennsli, sjá mynd 2.

Mynd 2: Rennslislykill. Brotinn lykill, lítið framlengdur. Skjálfandafljót við Aldeyjarfoss. Deplarnir sýna gildi stakra mælinga.
- Vatnafar á Íslandi | Veðurstofa Íslands. (Sótt 12.10.2015).
- Hvernig rennsli er mælt má m.a. finna hjá bandarísku jarðfræðistofnuninni: How streamflow is measured: USGS Water Science. (Sótt 12.10.2015).