Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hversu margir bæir eða þorp á Íslandi standa fjarri sjó?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað eru margir bæir/þorp á Íslandi sem eru ekki við sjó?

Að baki orðunum bær og þorp liggja ekki skýrar skilgreiningar, það er ekkert sem segir hvenær húsaþyrping verður að þorpi eða bæ. Hér þarf því að byrja á að ákveða hvaða merkingu á að leggja í orðin. Ein leið er sú að gera ráð fyrir að bær eða þorp hafi sömu merkingu á þéttbýli, líkt og gert er í svari við spurningunni Hver er fámennasti bær/þorp á Íslandi og hversu margir búa þar? Gallinn við það er hins vegar sá að þéttbýli er skilgreint með að lágmarki 200 íbúa sem útilokar þá nokkur vel þekkt þorp. Til þess að ákveða hvaða staði á að taka með í þessu svari er því frekar valið að nota lista Hagstofunnar yfir byggðakjarna með að minnsta kosti 50 íbúa þann 1. janúar 2024.[1]

Samkvæmt vef Hagstofunnar eru alls 104 byggðakjarnar á landinu þar sem íbúar eru 50 eða fleiri. Af þeim er 31 ekki við sjó. Byggðakjarnar fjarri sjó eru langflestir á Suðurlandi, eins og kortið hér fyrir neðan ber með sér. Engin þorp eða bæir á Snæfellsnesi eða Vestfjörðum eru fjarri sjó, nokkrir slíkir staðir eru á Vesturlandi og Norðurlandi en sárafáir á Austurlandi.

Kort sem sýnir byggðakjarna á Íslandi sem ekki standa við sjó.

Flestir þessara staða eru fremur fámennir; um fjórðungur þeirra hefur innan við 100 íbúa og rúmur helmingur hefur innan við 200 íbúa. Selfoss er fjölmennasta byggðin sem ekki stendur við sjó, íbúar þar voru rúmlega 9.800 þann 1. janúar 2024. Þar á eftir kemur Hveragerði með tæplega 3.300 íbúa, Egilsstaðir með rúmlega 2.600, Hvolsvöllur með tæplega 1.100 og Hella með rúmlega 1.000 íbúa. Aðrir staðir eru fámennari.

Byggðamynstur á Íslandi er að langmestu leyti afleiðing af þróun sem átti sér stað fyrir og eftir aldamótin 1900 og var knúin áfram af breyttum samfélagsháttum og tækifærum í sjávarútvegi. Fólk flykktist úr sveitum að sjávarsíðunni og fjölmörg þorp urðu til allt í kringum landið. Byggðakjarnar sem ekki standa við sjó eiga sér aðrar rætur. Sumir hafa orðið til í tengslum við landbúnað, verslun og/eða þjónustu við sveitir, svo sem margir staðanna á Suðurlandi. Aðrir staðir hafa sterka tengingu við skólahald eins og Bifröst, Hvanneyri, Hólar, Laugar og Laugarvatn. Samgöngubætur eða staðsetning nærri alfaraleið hafa líka ýtt undir myndin þéttbýliskjarna. Sem dæmi má nefna Varmahlíð, sem liggur mjög vel við samgöngum, á krossgötum og við aðalumferðaræðina milli landshluta og einnig Selfoss þar sem þéttbýli tók að myndast með tilkoma Ölfusárbrúar undir lok 19. aldar.

Hvolsvöllur er einn þeirra byggðakjarna sem ekki stendur við sjó.

Þéttbýliskjarnar sem ekki standa við sjó hafa flestir myndast síðar en sjávarþorpin og sumir nokkuð nýlega. Af stöðunum 31 eru aðeins Selfoss og Hveragerði nefndir í göngum Hagstofunnar fyrir mannfjölda í byggðakjörnum árið 1940, áratug seinna hafa Egilsstaðir, Hvolsvöllur og Hella bæst við og 1960 er Laugarvatn einnig tilgreint sem byggðakjarni. Sjö byggðakjarnar hafa bæst við á lista Hagstofunnar eftir aldamótin 2000, það eru Melahverfi, Reykholt, Lónsbakki, Brúnahlíð, Tjarnarbyggð, Árnes og Borg í Grímsnesi. Ólíkt mörgum sjávarbyggðum þar sem íbúum hefur farið fækkandi undarfarna áratugi eru sárafáir staðir fjarri sjó sem eru með færri íbúa í dag en þeir voru í upphafi aldarinnar.

Tilvísun:
  1. ^ Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er byggðakjarni samfellt byggt svæði innan eins sveitarfélags sem hefur: a. skýrt gatnakerfi; eða b. heiti; eða c. að hámarki 200 metra á milli húsa. Hagstofan birtir aðeins tölur um byggðakjarna sem hafa 50 íbúa eða fleiri eða hafa náð því marki einhvern tímann á því árabili sem útgefnar tölur ná til.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

9.9.2024

Spyrjandi

Kamilla Björt

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu margir bæir eða þorp á Íslandi standa fjarri sjó?“ Vísindavefurinn, 9. september 2024, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70633.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2024, 9. september). Hversu margir bæir eða þorp á Íslandi standa fjarri sjó? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70633

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hversu margir bæir eða þorp á Íslandi standa fjarri sjó?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2024. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70633>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hversu margir bæir eða þorp á Íslandi standa fjarri sjó?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvað eru margir bæir/þorp á Íslandi sem eru ekki við sjó?

Að baki orðunum bær og þorp liggja ekki skýrar skilgreiningar, það er ekkert sem segir hvenær húsaþyrping verður að þorpi eða bæ. Hér þarf því að byrja á að ákveða hvaða merkingu á að leggja í orðin. Ein leið er sú að gera ráð fyrir að bær eða þorp hafi sömu merkingu á þéttbýli, líkt og gert er í svari við spurningunni Hver er fámennasti bær/þorp á Íslandi og hversu margir búa þar? Gallinn við það er hins vegar sá að þéttbýli er skilgreint með að lágmarki 200 íbúa sem útilokar þá nokkur vel þekkt þorp. Til þess að ákveða hvaða staði á að taka með í þessu svari er því frekar valið að nota lista Hagstofunnar yfir byggðakjarna með að minnsta kosti 50 íbúa þann 1. janúar 2024.[1]

Samkvæmt vef Hagstofunnar eru alls 104 byggðakjarnar á landinu þar sem íbúar eru 50 eða fleiri. Af þeim er 31 ekki við sjó. Byggðakjarnar fjarri sjó eru langflestir á Suðurlandi, eins og kortið hér fyrir neðan ber með sér. Engin þorp eða bæir á Snæfellsnesi eða Vestfjörðum eru fjarri sjó, nokkrir slíkir staðir eru á Vesturlandi og Norðurlandi en sárafáir á Austurlandi.

Kort sem sýnir byggðakjarna á Íslandi sem ekki standa við sjó.

Flestir þessara staða eru fremur fámennir; um fjórðungur þeirra hefur innan við 100 íbúa og rúmur helmingur hefur innan við 200 íbúa. Selfoss er fjölmennasta byggðin sem ekki stendur við sjó, íbúar þar voru rúmlega 9.800 þann 1. janúar 2024. Þar á eftir kemur Hveragerði með tæplega 3.300 íbúa, Egilsstaðir með rúmlega 2.600, Hvolsvöllur með tæplega 1.100 og Hella með rúmlega 1.000 íbúa. Aðrir staðir eru fámennari.

Byggðamynstur á Íslandi er að langmestu leyti afleiðing af þróun sem átti sér stað fyrir og eftir aldamótin 1900 og var knúin áfram af breyttum samfélagsháttum og tækifærum í sjávarútvegi. Fólk flykktist úr sveitum að sjávarsíðunni og fjölmörg þorp urðu til allt í kringum landið. Byggðakjarnar sem ekki standa við sjó eiga sér aðrar rætur. Sumir hafa orðið til í tengslum við landbúnað, verslun og/eða þjónustu við sveitir, svo sem margir staðanna á Suðurlandi. Aðrir staðir hafa sterka tengingu við skólahald eins og Bifröst, Hvanneyri, Hólar, Laugar og Laugarvatn. Samgöngubætur eða staðsetning nærri alfaraleið hafa líka ýtt undir myndin þéttbýliskjarna. Sem dæmi má nefna Varmahlíð, sem liggur mjög vel við samgöngum, á krossgötum og við aðalumferðaræðina milli landshluta og einnig Selfoss þar sem þéttbýli tók að myndast með tilkoma Ölfusárbrúar undir lok 19. aldar.

Hvolsvöllur er einn þeirra byggðakjarna sem ekki stendur við sjó.

Þéttbýliskjarnar sem ekki standa við sjó hafa flestir myndast síðar en sjávarþorpin og sumir nokkuð nýlega. Af stöðunum 31 eru aðeins Selfoss og Hveragerði nefndir í göngum Hagstofunnar fyrir mannfjölda í byggðakjörnum árið 1940, áratug seinna hafa Egilsstaðir, Hvolsvöllur og Hella bæst við og 1960 er Laugarvatn einnig tilgreint sem byggðakjarni. Sjö byggðakjarnar hafa bæst við á lista Hagstofunnar eftir aldamótin 2000, það eru Melahverfi, Reykholt, Lónsbakki, Brúnahlíð, Tjarnarbyggð, Árnes og Borg í Grímsnesi. Ólíkt mörgum sjávarbyggðum þar sem íbúum hefur farið fækkandi undarfarna áratugi eru sárafáir staðir fjarri sjó sem eru með færri íbúa í dag en þeir voru í upphafi aldarinnar.

Tilvísun:
  1. ^ Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er byggðakjarni samfellt byggt svæði innan eins sveitarfélags sem hefur: a. skýrt gatnakerfi; eða b. heiti; eða c. að hámarki 200 metra á milli húsa. Hagstofan birtir aðeins tölur um byggðakjarna sem hafa 50 íbúa eða fleiri eða hafa náð því marki einhvern tímann á því árabili sem útgefnar tölur ná til.

Heimildir og myndir:...