Hvað eru margir bæir/þorp á Íslandi sem eru ekki við sjó?Að baki orðunum bær og þorp liggja ekki skýrar skilgreiningar, það er ekkert sem segir hvenær húsaþyrping verður að þorpi eða bæ. Hér þarf því að byrja á að ákveða hvaða merkingu á að leggja í orðin. Ein leið er sú að gera ráð fyrir að bær eða þorp hafi sömu merkingu á þéttbýli, líkt og gert er í svari við spurningunni Hver er fámennasti bær/þorp á Íslandi og hversu margir búa þar? Gallinn við það er hins vegar sá að þéttbýli er skilgreint með að lágmarki 200 íbúa sem útilokar þá nokkur vel þekkt þorp. Til þess að ákveða hvaða staði á að taka með í þessu svari er því frekar valið að nota lista Hagstofunnar yfir byggðakjarna með að minnsta kosti 50 íbúa þann 1. janúar 2024.[1] Samkvæmt vef Hagstofunnar eru alls 104 byggðakjarnar á landinu þar sem íbúar eru 50 eða fleiri. Af þeim er 31 ekki við sjó. Byggðakjarnar fjarri sjó eru langflestir á Suðurlandi, eins og kortið hér fyrir neðan ber með sér. Engin þorp eða bæir á Snæfellsnesi eða Vestfjörðum eru fjarri sjó, nokkrir slíkir staðir eru á Vesturlandi og Norðurlandi en sárafáir á Austurlandi.

Kort sem sýnir byggðakjarna á Íslandi sem ekki standa við sjó.

Hvolsvöllur er einn þeirra byggðakjarna sem ekki stendur við sjó.
- ^ Samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er byggðakjarni samfellt byggt svæði innan eins sveitarfélags sem hefur: a. skýrt gatnakerfi; eða b. heiti; eða c. að hámarki 200 metra á milli húsa. Hagstofan birtir aðeins tölur um byggðakjarna sem hafa 50 íbúa eða fleiri eða hafa náð því marki einhvern tímann á því árabili sem útgefnar tölur ná til.
- Hagstofa Íslands. Mannfjöldi eftir byggðakjörnum, kyni og aldri 1. janúar 1998-2024.
- Hagstofa Íslands. Mannfjöldi í einstökum byggðakjörnum og strjálbýli eftir landsvæðum ár hvert 1889-1990
- Jórunn Íris Sindradóttir og Ómar Harðarson. 2015. Endurskilgreining Hagstofu Íslands á þéttbýlisstöðum og byggðakjörnum. Hagstíðindi, 100. árg. 11. tbl. Hagstofa Íslands.
- Kortagrunnur: Landmælingar Íslands - Kortasjá. Texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins.
- Mats Icelandic Image Library. © Christopher Lund. Birt með góðfúslegu leyfi.