Hvað er ISIS, hver eru markmið þeirra og af hverju?ISIS (skammstöfun á enska heitinu Islamic State in Iraq and Syria eða Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi) eru tiltölulega ný samtök sem starfa fyrst og fremst í Írak og Sýrlandi eins og nafnið gefur til kynna. Þau eru þó einnig talin vera ábyrg fyrir hryðjuverkum víðar, svo sem í Egyptalandi, Líbanon og í París. Tilurð þessara samtaka má einkum rekja til fimm þátta sem útskýra hvað ISIS er, hver markmið þeirra eru og af hverju. Í fyrsta lagi má rekja uppgang ISIS til innrásarinnar í Írak 2003 og hernámsins sem fylgdi í kjölfarið. Eitt af því fyrsta sem innrásaraðilarnir gerðu var að leggja niður stóran hluta íraska hersins. Fjölmargir Írakar, sérstaklega súnní-arabar sem voru nátengdir ríkisstjórn Saddam Husseins, voru afar óánægðir með þessa ákvörðun og þar af leiðandi ákveðnir í því að berjast gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra. Þessir aðilar herjuðu fyrst á hernámsliðið í Írak en færðu svo út kvíarnar til Sýrlands. Langflestir af forystumönnum ISIS eru fyrrverandi meðlimir íraska hersins. Í öðru lagi náði ISIS að skjóta rótum í Sýrlandi eftir að arabíska vorið braust út 2011 og sýrlenskir stjórnarandstæðingur hófu vopnaða uppreisn gegn Sýrlandsstjórn undir forystu Bashar al-Assad. Í fyrstu fengu margvíslegir stjórnarandstöðuhópar fjárhagslegan stuðning og vopn frá Vesturlöndum og ýmsum ríkjum við Persaflóann. En í þessu allsherjarstríði hefur ISIS náð að nýta sér stjórnleysið og óvinsældir stjórnar Al-Assads til að ná völdum í stórum hluta Sýrlands, sérstaklega í vestur- og norðurhluta landsins. Í þriðja lagi er ISIS afsprengi nýfasisma 21. aldar. Víða um heim, og sérstaklega í Evrópu, hafa komið fram róttækir, öfgafullir hægri flokkar sem byggja á útlendinga- og gyðingahatri, íslamófóbíu og kynþáttafordómum sem halda uppi hreinræktaðri þjóðernishyggju. Þessir aðilar vilja hreinsa þjóðina af óæskilegum erlendum áhrifum og einstaklingum. ISIS tengist þessari bylgju, og er að einhverju leyti viðbrögð við henni, því félagar í samtökunum telja sig vera verndara súnní-araba. Þeir vilja einmitt drepa eða hrekja úr landi óæskilega aðila sem passa ekki inn í þjóðernis- og rétttrúnaðarhugmyndir þeirra. Þess vegna hafa þeir ráðist á kristna araba, Kúrda, Túrkmena, Jasída, og sjíta-araba. ISIS-liðar vilja hreinræktað einsleitt ríki og hafa óbeit á þeirri fjölmenningu og fjölmenningarríki sem hefur einmitt einkennt Sýrland og Írak í um 1000 ár.

Jasídar ásamt bandarískum hjálparstarfsmanni. Síðla árs 2014 leituðu tugþúsundir Jasída skjóls á fjallinu Sinjar í norðvesturhluta Íraks vegna ofsókna ISIS-liða.
- Islamic State (IS) insurgents, Anbar Province, Iraq.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 26. 11. 2015).
- USAID Mt Sinjar.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 26. 11. 2015).