Komið þið sæl. Ég er á Facebook. Þegar ég geispa golunn, hvernig geta þá mínir nánustu lokað eða látið loka síðunni? (Ruslpóstvörn er áreiðanlega ágæt, en kallar eins og ég eru fljótir að gleyma).Nútímatækni leysir ýmis vandamál en getur einnig búið til önnur. Margir nota samskiptamiðla eins og Facebook sér til gagns og gaman, til dæmis til að fylgjast með gömlum vinum og kunningjum sem þeir fengju annars ef til vill litlar fréttir af. Sumir umgangast einhverja fésbókarvini sína kannski ekkert nema á rafrænan hátt og „hitta“ þá ekki nema þar. Þá blasir við ákveðinn vandi. Vitum við í raun hvort rafræni einstaklingurinn sé til í raun og veru? Gæti hugsast að hann sé ef til vill ekki lengur á lífi? Spyrjandi þessarar spurningar veltir þessu einmitt fyrir sér. Hann er fyrirhyggjusamur og vill ábyrgjast að þegar hann fellur frá muni hans rafræna lífi ljúka um leið. Þá er engin hætta á því að gamlir skólafélagar og kunningjar frá fornri tíð telji að Árni sé sprelllifandi þegar í raun er búið að jarða hann. Á vefsíðum Facebook er að finna ýmislegt upplýsingaefni á ensku um rafrænan dauðdaga. Notendur geta til að mynda sjálfir valið í lifanda lífi, hvort þeir vilji að reikningur þeirra hverfi við andlát eða verði notaður í minningarskyni um þá. Um þetta má lesa á síðunni Report a Deceased Person. Samkvæmt upplýsingasíðum Facebook er það síðan á ábyrgð aðstandenda eða annarra að láta vita af andláti fésbókarnotenda. Það er gert með eyðublaðinu Special Request for Deceased Person's Account. Hins vegar geta fyrirhyggjusamir notendur annað hvort tryggt að aðgangs- og lykilorð að Facebook-reikningi þeirra sé tiltækt handa aðstandendum, eða skilið þannig við tölvur eða snjallsíma að þar séu lykilorðin vistuð. Aðstandendur geta svo gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt upplýsingum sem er að finna á síðunni Deactivating & Deleting Accounts. Hins vegar er rétt að taka fram að vel getur farið svo að vefsíðan Facebook verði ekki lengur til þegar spyrjandi eða lesendur þessa svars falla frá. Rafrænir miðlar eru ekki eilífir frekar en aðrir miðlar og tækniþróun er hröð í hinum rafræna heimi. Allt eins líklegt er að aðrir rafrænir samskiptahættir og samskiptasíður hafi tekið við stöðu Facebook þegar spyrjandi þessa svars fellur frá. Mynd:
- David Blaine - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 17.09.2015).