Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað hefðu Icesave-samningarnir sem kenndir eru við Svavar Gestsson kostað íslenska ríkið hingað til ef þeir hefðu verið samþykktir?
Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra hinn 5. júní næstkomandi numið tæpum 208 milljörðum króna, að gefnu óbreyttu gengi punds og evru, eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Sú fjárhæð hefði fallið á ríkissjóð og hefði verið til greiðslu í jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum á næstu átta árum, eða um 26 milljarðar á ári ásamt vöxtum. Hins vegar hefðu engar greiðslur nú þegar verið inntar af hendi úr ríkissjóði vegna samninganna þar sem samningarnir kváðu ekki á um greiðslur umfram heimtur úr búi Landsbankans fyrr en eftir 5. júní 2016.
Umræddir samningar voru undirritaðir hinn 5. júní 2009. Svavar Gestsson var formaður samninganefndar íslenska ríkisins við gerð samninganna og eru þeir því oftast kenndir við hann. Alþingi samþykkti hinn 28. ágúst 2009 lög nr. 96/2009 sem heimiluðu fjármálaráðherra að staðfesta samningana fyrir hönd ríkissjóðs og tóku þau gildi 2. september eftir staðfestingu forseta. Bretar og Hollendingar höfnuðu hins vegar samningunum vegna fyrirvara sem Alþingi setti í lögin svo þeir tóku aldrei gildi. Nú er ljóst að fyrirvararnir hefðu engin áhrif haft á greiðslur ríkissjóðs vegna samninganna.
Efni samninganna
Meginefni samninganna var að breska og hollenska ríkið lánuðu Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta jafnvirði rúmlega 700 milljarða króna, í pundum og evrum, til fimmtán ára á föstum 5,55% vöxtum. Lánið var veitt til að endurgreiða hollenska seðlabankanum og breska tryggingarsjóðnum það sem þeir höfðu greitt innstæðueigendum Landsbankans. Fyrstu sjö ár lánstímans skyldi aðeins greiða inn á lánið sem samsvaraði því sem Tryggingarsjóðurinn fengi greitt úr slitabúi Landsbankans og eftirstöðvar lánsins að loknum þeim tíma skyldu greiðast á átta árum með 32 jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum. Með samningunum ábyrgðist ríkissjóður þessar greiðslur og þar sem eignir Tryggingarsjóðsins voru litlar sem engar hefðu þær að mestu fallið á ríkissjóð.
Áætlaður kostnaður
Í frumvarpi til laga nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs til að ábyrgjast lánin, var sett fram áætlun um það hvað samningarnir myndu kosta ríkissjóð að því gefnu að heimtur forgangskröfuhafa (innstæðueigenda) úr búi Landsbankans yrðu 75%. Áætlað var að eftirstöðvar lánanna hinn 5. júní 2016 myndu nema jafnvirði 415 milljarða króna. Í frumvarpinu var einnig sett fram fráviksáætlun miðað við 15% minni og meiri heimtur og voru niðurstöður hennar að ef heimtur yrðu miklar gætu eftirstöðvar lánsins jafnvel orðið einungis 309 milljarðar króna en allt að 521 milljörðum ef heimtur yrðu litlar.
Ef Icesave-samningarnir, sem kenndir eru við Svavar Gestsson, hefðu verið samþykktir árið 2009 hefðu eftirstöðvar þeirra hinn 5. júní næstkomandi numið tæpum 208 milljörðum króna, að gefnu óbreyttu gengi punds og evru, eða um 8,8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins 2016. Myndin sýnir Icesave-auglýsingu á leigubíl í London 2008.
Í töflu 1 er tekin saman áætlunin í frumvarpinu, fráviksáætlanirnar tvær og áætlunin sem hér er sett fram um eftirstöðvar lánanna sem fallið hefðu á ríkissjóð hefðu samningarnir verið samþykktir. Venja er að setja fjárhæðir í ríkisfjármálum fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF), meðal annars til að auðvelda samanburð milli ára, og er það einnig gert í töflunni.
Eftirstöðvar (milljarðar króna)
Hlutfall af VLF 2016
Áætlun 2009, 60% heimtur
521
26%
Áætlun 2009, 75% heimtur
415
21%
Áætlun 2009, 90% heimtur
309
15%
Áætlun 2016 (100% heimtur)
208
8,8%
Tafla 1. Áætlaðar eftirstöðvar lána Tryggingarsjóðsins hinn 5. júní 2016 skv. áætlun í frumvarpi til laga nr. 96/2009 (Áætlun 2009) miðað við mismunandi heimtur forgangskröfuhafa úr búi Landsbankans og eftirstöðvar skv. áætluninni sem hér er sett fram (Áætlun 2016). Hlutfall af VLF fyrir áætlun 2009 er tekið óbreytt úr frumvarpinu en fyrir áætlun 2016 er notuð spá Seðlabanka Íslands um VLF ársins 2016, eða 2.350 milljarðar króna (Seðlabanki Íslands, 2015, Viðauki 1, Tafla 1). Heimild: Frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, bls. 21, Seðlabanki Íslands (2015) og eigin útreikningar.
Það kom síðan á daginn að heimtur úr búi Landsbankans urðu mun meiri en reiknað var með og þegar upp var staðið fengu forgangskröfuhafar 100% heimtur af kröfum sínum. Þannig hefðu eftirstöðvar samningsins numið 208 milljörðum króna, sem á sínum tíma var talið besta mögulega niðurstaðan. Það er um helmingi betri niðurstaða en grunnáætlunin árið 2009, þar sem gert var ráð fyrir 75% heimtum. Þar sem fullar heimtur fengust úr búi Landsbankans samanstanda eftirstöðvarnar nánast eingöngu af áföllnum vöxtum og vaxtavöxtum. Ef eftirstöðvarnar eru metnar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefðu þær verið vel innan við helmingur af því sem áætlað var árið 2009 og er ástæða þess annars vegar sú að fjárhæðin er helmingi lægri og hins vegar að VLF ársins 2016 verður, samkvæmt nýjustu spá Seðlabankans, nokkuð meiri en áætlað var árið 2009.
Nánar um áætlunina
Í frumvarpi að lögum nr. 96/2009 eru ítarlegar upplýsingar um samningana og íslensk þýðing þeirra er í fylgiskjali með frumvarpinu. Allar upplýsingar um samningana sem hér er vísað til eru fengnar úr frumvarpinu.
Einn stærsti áhrifaþáttur á hugsanlegar greiðslur ríkissjóðs vegna samninganna eru greiðslur forgangskrafna úr slitabúi Landsbankans, bæði fjárhæð þeirra og tímasetning. Því hærri sem greiðslurnar eru í heildina, þeim mun minni hefði skuld Tryggingarsjóðsins í lok tímabilsins verið og greiðsla ríkissjóðs því lægri. Því fyrr sem greiðslurnar berast því hraðar hefði höfuðstóll skuldar Tryggingarsjóðsins lækkað og því vextir af skuldinni orðið lægri. Þá skipti gengi krónunnar gagnvart pundi og evru við útgreiðslu úr búi Landsbankans einnig miklu máli; krafa í bú Landsbankans er í krónum og því hærra sem gengi krónunnar er við útgreiðslu, þeim mun fleiri pund og evrur fást greidd upp í kröfurnar.
Í grunnáætluninni í frumvarpinu var byggt á að eignir slitabús Landsbankans myndu duga til greiðslu á 75% af forgangskröfum. Þessi áætlun reyndist mjög varfærin því forgangskröfur í slitabú Landsbankans voru greiddar að fullu í upphafi þessa árs. Í töflu 2 er yfirlit yfir greiðslur slitabús Landsbankans til forgangskröfuhafa, sem og hlutdeild Tryggingarsjóðsins (TIF) í greiðslunum, hefðu samningarnir verið samþykktir.
Dags.
Brúttó
Nettó
Hlutur TIF
2. des. 2011
409,9
404,6
200,8
15. maí. 2012
172,3
170,1
84,4
9. okt. 2012
80,0
79,0
39,2
12. sept. 2013
67,2
66,3
32,9
23. des. 2014
402,7
397,5
197,2
11. jan. 2016
210,6
210,6
104,5
Alls
1.342,7
1.328,0
659,0
Tafla 2. Greiðslur slitabús Landsbankans til forgangskröfuhafa og hlutur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) í hverri greiðslu hefðu Svavars-samningarnir verið samþykktir. Allar fjárhæðir í milljörðum króna. Heildargreiðslur (brúttó) Landsbankans til forgangskröfuhafa námu 1.342,7 milljörðum en af fyrstu fjórum greiðslunum voru 14,6 milljarðar greiddir inn á geymslureikninga vegna ágreiningskrafna og síðar endurgreiddir Landsbankanum. Nettógreiðslur til forgangskröfuhafa námu því 1.328 milljörðum króna og þar af hefði Tryggingarsjóðurinn fengið 659 milljarða. Nákvæm dagsetning greiðslunnar í maí 2012 liggur ekki fyrir og er hún hér áætluð um miðjan mánuð. Heimild: LBI (2015) og LBI (2016).
Svavars-samningarnir voru tveir, við breska ríkið annars vegar og hollenska ríkið hins vegar. Hefðu þeir verið samþykktir hefði skuld Tryggingarsjóðsins við breska ríkið numið 2,35 milljörðum punda og við hollenska ríkið 1,329 milljörðum evra. Vextir af láninu voru 5,55% og áttu að leggjast við höfuðstól þess árlega, 5. júní ár hvert. Miðað við gengi punds og evru á fyrsta vaxtadegi samninganna, hinn 1. janúar 2009, var höfuðstóll skuldarinnar að jafnvirði 638 milljarða króna þann dag, en miðað við gengið við undirritun samninganna, hinn 5. júní 2009, var hann að jafnvirði 710 milljarða króna.
Höfuðstólsreiðslur skyldu greiddar í myntum skuldarinnar, pundum og evrum, innan fimm virkra daga frá því að greiðslur úr slitabúi Landsbankans bárust í hvert sinn. Hér er gert ráð fyrir að greitt hafi verið samdægurs á miðgengi punds og evru á hverjum tíma. Í töflu 3 má sjá dagsetningar og fjárhæðir höfuðstólsgreiðslna Tryggingarsjóðsins og vexti sem hefðu bæst við höfuðstólinn árlega. Til hliðsjónar er einnig sýnt gengi punds og evru sem notað er til að umreikna fjárhæðir í pundum og evrum í krónur á hverjum tíma.
Dagsetning
Eftirstöðvar
Áfallnir vextir
Höfuðstóls-greiðsla
Gengi GBP
Gengi EUR
1. jan. 2009
638,2
175,43
169,97
5. jún. 2009
710,4
16,4
-
197,07
173,72
5. jún. 2010
704,8
37,1
-
188,88
156,85
5. jún. 2011
751,0
39,5
-
186,52
165,69
2. des. 2011
539,1
-
200,8
185,76
159,72
15. maí. 2012
492,1
-
84,4
203,18
162,79
5. jún. 2012
521,4
37,1
-
199,27
161,41
9. okt. 2012
472,9
-
39,2
195,91
158,12
5. jún. 2013
487,3
26,3
-
187,77
159,79
12. sep. 2013
463,1
-
32,9
191,93
161,24
5. jún. 2014
479,2
25,7
-
190,03
154,27
23. des. 2014
294,3
-
197,2
196,92
154,75
5. jún. 2015
319,0
22,5
-
202,49
148,53
11. jan. 2016
194,5
-
104,5
188,74
141,20
5. jún. 2016
207,9
14,3
-
187,19
141,80
Alls
207,9
218,7
659,0
Tafla 3. Áætlaðar eftirstöðvar höfuðstóls, áfallnir vextir og höfuðstólsgreiðslur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna Svavars-samninganna. Allar fjárhæðir í milljörðum króna. Til hliðsjónar er einnig gengi punds og evru sem notað er til að umreikna fjárhæðir í pundum og evrum í krónur á hverjum tíma. Heimild: Frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, LBI (2015), LBI (2016), Seðlabanki Íslands (á.d.) og eigin útreikningar.
Samburður við Lee Buchheit-samningana
Hinn 11. júní 2015 birtist hér á Vísindavefnum svar við sambærilegri spurningu um kostnað ríkissjóðs af Icesave-samningunum sem kenndir eru við Lee Buchheit. Svarið var þá að áætlaðar heildargreiðslur vegna þeirra samninga hefðu numið 87 milljörðum króna, þar af 81 milljarður í vaxtagreiðslur og 6 milljarðar vegna greiðslu á eftirstöðvum í júní 2016. Af því hefði, samkvæmt svarinu, ríkissjóður greitt 67 milljarða en Tryggingarsjóðurinn 20 milljarða.
Þegar þetta svar birtist hafði Landsbankinn ekki lokið uppgjöri við forgangskröfuhafa og því þurfti að áætla tímasetningar á síðustu greiðslunum úr búinu, sem voru áætlaðar 1. júlí 2015 og 1. janúar 2016. Landsbankinn fékk hins vegar ekki undanþágu fyrir greiðslunum fyrr en 11. janúar 2016 og fór lokauppgjörið fram þann dag. Vegna styrkingar krónunnar frá 1. júlí 2015 til 11. janúar reyndist þessi seinkun á greiðslunum draga nokkuð úr eftirstöðvum skuldar Tryggingarsjóðsins skv. samningunum og hefðu þær einungis numið 0,5 milljörðum króna. Vaxtagreiðslur hefðu hins vegar aukist um einn milljarð króna á móti svo endurmat á heildargreiðslum vegna þeirra samninga nemur því 83 milljörðum króna.
Við samanburð á hugsanlegum heildargreiðslum vegna þessara tveggja mismunandi samninga þarf að hafa í huga að greiðslur vegna þeirra fara fram á mismunandi tímum og því getur verið misvísandi að bera eingöngu saman heildarfjárhæðirnar. Greiðslur vegna Lee Buchheit-samninganna hefðu orðið mestar á árunum 2011–2014 en engar greiðslur hefðu hins vegar orðið af Svavars-samningunum fyrr en árið 2016. Þá gerði Lee Buchheit-samningurinn fyrir að eignir Tryggingarsjóðsins að fjárhæð 20 milljarðar króna yrðu nýttar til að greiða hluta af fyrstu vaxtagreiðslunni en ekkert slíkt ákvæði var í Svavars-samningunum.
Eins og fyrr segir er venja að setja fjárhæðir í ríkisfjármálum fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers árs. Slík framsetning gefur betri samanburð á fjárhæðum milli ára og í henni felst að einhverju leyti leiðrétting bæði fyrir verðlagi og tímavirði peninga. Sem hlutfall af VLF hefðu heildargreiðslur vegna Lee Buchheit-samninganna numið 4,6% en eins og fyrr segir eru áætlaðar eftirstöðvar Svavars-samninganna í júní nk. um 8,8% af VLF. Á þennan mælikvarða hefðu greiðslur vegna Svavars-samninganna því orðið tæplega tvöfalt hærri en greiðslur vegna Lee Buchheit-samninganna.
Fyrirvari
Að lokum verður að setja þann fyrirvara við þessa áætlun að hún er sett fram miðað við þá þróun sem orðið hefur frá því samningunum var hafnað. Hugsanlegt er hins vegar að samþykkt samninganna hefði haft áhrif á þróunina og þá hefði niðurstaðan að sjálfsögðu getað verið önnur. Samþykkt samninganna hefði sem dæmi getað haft áhrif á þróun gengis krónunnar, hvort sem er til styrkingar eða veikingar. Hefði krónan styrkst hefðu eftirstöðvarnar verið lægri en hærri hefði hún veikst. Þá hefði samþykkt samninganna einnig getað haft áhrif á tímasetningar á útgreiðslum úr slitabúi Landsbankans. Hinn 13. mars 2012 voru sett lög sem afnámu sérstaka undanþágu slitabúa frá fjármagnshöftum til að greiða til kröfuhafa (lög nr. 17/2012). Eftir það þurfti slitabú Landsbankans að sækja um undanþágu til Seðlabankans til að greiða til forgangskröfuhafa. Undanþágubeiðnirnar vegna greiðslnanna hinn 23. desember 2014 og 11. janúar 2016 voru langan tíma í meðförum Seðlabankans og ríkisstjórnar. Ef ríkissjóður hefði haft beina fjárhagslega hagsmuni af því að greiðslurnar færi fram fyrr er hugsanlegt að afgreiðsla undanþágubeiðninnar hefði tekið skemmri tíma. Eftirstöðvarnar hefðu þá verið nokkrum milljörðum króna lægri.
Hersir Sigurgeirsson. „Hvað hefðu Svavars-samningarnir kostað ef þeir hefðu verið samþykktir?“ Vísindavefurinn, 9. febrúar 2016, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70473.
Hersir Sigurgeirsson. (2016, 9. febrúar). Hvað hefðu Svavars-samningarnir kostað ef þeir hefðu verið samþykktir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70473
Hersir Sigurgeirsson. „Hvað hefðu Svavars-samningarnir kostað ef þeir hefðu verið samþykktir?“ Vísindavefurinn. 9. feb. 2016. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70473>.