Ég hef verið svolítið í sjósundi í Nauthólsvíkinni. Hvaða náttúrufyrirbrigði eru hringar í sandinum í fjöruborði lónsins, nánast eins og eftir einhvern orm eða snigil?Hringirnir sem sjást í leirkenndum fjörum víða hér við land eru úrgangur eftir stórvaxinn burstaorm (Polychaeta) sem nefnist sandmaðkur (Arenicola marina). Stærstu sandmaðkar á Íslandi eru um 15-20 cm á lengd. Sandmaðkur lifir í J-laga röri sem er hluti af U-laga göngum sem hann grefur ofan í sandinn. Ormurinn sést sjaldan sjálfur þar sem hann dvelur mest allan tímann ofan í göngunum en ummerki um hann leyna sér ekki. Sandmaðurinn er setæta og étur setið við framendann. Það myndast því gjarnan gjarnan dæld eða trekt í sandinn fyrir ofan framenda ormsins. Setið fer í gegnum meltingarveg maðksins þar sem ýmsar lífrænar agnir meltast úr því. Að meltingu lokinni lyftir ormurinn afturendanum upp undir yfirborð og skilar af sér því sem hann ekki nýtir og þá myndast þessir hraukar sem sjást í fjörunni. Sandmaðkar eru mikilvæg fæða margra fjörufugla svo sem tjalds. Fuglinn grípur þá í afturenda ormsins og slítur hann gjarnan af en maðknum verður ekkert sérstaklega meint af heldur myndar nýjan afturenda. Áður fyrr nýttu menn sandmaðk nokkuð til beitu. Myndir:
- www.fauna.is. © Jón Baldur Hlíðberg. Birt með góðfúslegu leyfi myndhöfundar.
- Lugworm cast.jpg - Wikimedia Commons. Birt undir GNU Free Documentation License. (Sótt 28. 9. 2015).