- Fyrst er að nefna Goðafoss í Hallardalsá í landi Klúku í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu.
- Í Goðdalsá í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu. Í örnefnaskrá er talað um að Goði sem fossinn sé kenndur við sé heygður í Goða í túninu í Goðdal.
- Í Hofsá í Svarfaðardal í Eyfjarðarsýslu.
- Þar sem Mjaðmá og Þverá koma saman í landi Munkaþverár í Eyfjarðarsýslu fellur Þverá í fossi sem heitir Goðafoss. "Klettabríkur og steinstrýtur eru niðri í gilinu, beint á móti fossinum, og þjóðtrúin segir, að þar séu goðin, sem kastað hafi verið í fossinn eftir kristnitökuna, og hafi þau orðið að steini!" (Örnefnaskrá Munkaþverár sem Margeir Jónsson skráði.)
- Í Goðá í Reyðarfirði í Suður-Múlasýslu. Hjörleifur Guttormsson skrifar: "Goðá fellur í Goðafossi ofan við Hvamma og niður í Goðavík í landi næstu jarðar, Sigmundarhúsa. Innan til í víkinni er klettastrýta kölluð Goð." (Árbók Ferðafélagsins 2005:55).
- Í Skjálfandafljóti í Suður-Þingeyjarsýslu. Sá er þekktastur þeirra. Hans er þó ekki getið í heimildum fyrr en í sýslulýsingu Þingeyjarsýslu 1747 (236) þó að í uppsláttarritum sé því haldið fram að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi kastað heiðnum goðastyttum sínum í fossinn við kristnitökuna og Kristni saga borin fyrir því. (Landið þitt Ísland I).
Prestar Ólafs konungs skírðu heiðingjana, suma á Þingvöllum, en fleiri þó við heitar laugar skamt frá. Síðan voru hofin brotin niður og gekk Þorgeir þar á undan. Þegar hann kom heim af þinginu, kastaði hann goðunum úr hofi sínu í foss í Skjálfandafljóti, sem síðan heitir Goðafoss." (Íslandssaga handa börnum. Fyrra hefti. Reykjavík 1915, bls. 86).Jónas getur ekki heimilda fyrir sögunni sérstaklega en tilfærir Njálu sem heimild fyrir kristnitökunni. Þjóðsaga um goðin hefur lifað í Eyjafirði líka, þar sem hún er látin eiga við Goðafoss á Munkaþverá. Líklegt er því að goðin í Goðafossunum séu upphaflega klettar og strýtur en ekki goðalíkneski. Heimildir og mynd:
- Hjörleifur Guttormsson. 2005. Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands.
- Jónas Jónsson frá Hriflu.1915. Íslandssaga handa börnum. Fyrra hefti. Reykjavík 1915.
- Kristian Kålund. 1879-82. Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island. Kjøbenhavn.
- Landið þitt Ísland. Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson sömdu. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1984. I:246.
- Sýslulýsingar 1744-1749. Sögurit XXVIII. Sögufélag. Reykjavík 1957.
- Örnefnaskrár í Örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 26. 6. 2015).
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi. Upprunaleg spurning Hönnu hljómaði svona:
Hvað hét Goðafoss áður en Þorgeir Ljósvetningagoði henti heiðnu goðunum í fossinn?