Góðan daginn. Mig langar að vita hvort þið kannist við orðatiltækið "kálfshár og fífa." Amma mín heitin notaði þetta alltaf ef börn voru í slæmu skapi. "Það er kálfshár og fífa í honum/henni." Ég finn engar upplýsingar um þetta á Netinu og mig leikur forvitni á að vita hvaðan þetta er komið. Kær kveðja, Áslaug.Orðasambandið það er kálfshár og fífa í einhverjum merkir að 'einhver sé stuttur í spuna, sé í vondu skapi'. Það er fremur sjaldgæft og aðeins fjórar heimildir finnast í Ritmálssafni Orðabókar Hákólans. Ein var úr tímaritinu Rétti frá 1937, tvær úr skáldsögum eftir Halldór Laxness og ein úr verki Þórðar Tómassonar, Eyfellskar sagnir. Það finnst einnig í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–1924:417). Um auðugri garð var gresja í safni Orðabókarinnar úr talmáli. Orðasambandið virðist nokkuð staðbundið á Suðurlandi. Halldór Halldórsson prófessor skrifaði um það í riti sínu Örlög orðanna sem kom út 1958 og hafði þá dæmi úr Árnes-, Rangárvalla- og Skaftfellssýslum. Halldór nefnir sem skýringu að kálfshár hafi lítið verið notað til að gera úr því hluti. Fífan var notuð í kveiki. Hafi kálfshár eitthvað verið notað með fífu til ljósa hefur líklegast ekki logað lengi í kveiknum. Heimildir:
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
- Halldór Haldórsson. 1958. Örlög orðanna. Reykjavík: Bókaforlag Odds Björnssonar.
-
File:BELA Cotton Grass (7497599092).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 7.09.2015).