Góðan dag. Ég hef áhuga á að fá upplýsingar um aldur Valagjár norðan Heklu. Hef verið að reyna að "gúggla" Valagjá en lítið fundið. Afstæður aldur gæti hjálpað.Valagjá myndaðist við gos úr eldstöðvakerfi Heklu, líklega stuttu fyrir landnám. Breytingar urðu á virkni Heklu í kjölfar stórs goss fyrir um 3000 árum, en fram að landnámi Íslands á níundu öld einkenndist virknin af minni gosum en áður. Alls eru þekkt um 30 gjóskulög frá þessu tímabili sem skipta má niður í þrjú gosskeið. Elsta gosskeiðið einkennist af súrri til ísúrri kviku og tvílitum gjóskulögum, næsta af ísúrri kviku og minni einlitum dökkum gjóskulögum, en það yngsta af basaltkviku og dökkum lögum. Basísku lögin eiga líklegast upptök á Heklusprungureininni þar sem virkni hófst að nýju. Í einu síðasta gosinu fyrir landnám runnu Sölvahraun og Taglgígahraun og varð Valagjá líklegast til í sprengigosi á svipuðum tíma. Heimild::
- Guðrún Larsen, Guðrún Sverrisdóttir, Haukur Jóhannesson, Árni Hjartarson, Páll Einarsson. "Hekla". Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 189-209. Viðlagatrygging Íslands/Háskólaútgáfan, 2013.
- Hiticeland.com. Birt með leyfi. (Sótt 10.5.2019).