Hvaða konur voru öflugar í kvenréttindabaráttunni aðrar en Bríet Bjarnhéðinsdóttir á sínum tíma? Hvað gerðu þær til að hafa áhrif ?Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefur orðið áberandi í sögunni af kvenréttindabaráttunni, eðlilega þar sem hún var frumherji á svo mörgum sviðum: hún hélt fyrsta opinbera fyrirlestur konu á Íslandi, þar sem hún fjallaði um kvenréttindi, hún gaf út og ritstýrði einu af fyrsti kvennablöðunum, hún átti frumkvæðið að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og átti félagið „heima“ á heimili hennar að Þingholtsstræti um langt árabil og hún var einu af fyrstu konunum sem voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. En auðvitað var Bríet ekki ein að verki. Ólafía Jóhannsdóttir og Þorbjörg Sveinsdóttir áttu frumkvæði að stofnun Hins íslenska kvenfélags árið 1894, fyrsta kvenfélagsins sem hafði pólitísk réttindi í öndvegi. Með fyrstu verkum félagsins var að safna undirskriftum kvenna að áskorun til Alþingis að veita konum meiri pólitísk réttindi. Undir þessa áskorun rituðu rúmlega 2.000 konur nöfn sín. Árið 1908 sameinuðust Hið íslenska kvenfélag og Kvenréttindafélag Íslands í annarri undirskriftasöfnun til Alþingis þar sem skorað var á þingmenn að veita konum kosningarétt. Þá söfnuðust rúmlega 11.000 undirskriftir kvenna. Undirskriftirnar voru mjög mikilvægar í baráttunni fyrir kosningarétti. Af fjöldanum má sjá að kvenréttindabaráttan var ekki mál einstakra forystukvenna heldur fjöldabarátta íslenskra kvenna. Hún fór fram um allt land, og snerti allar íslenskar konur. Kvenréttindabaráttan var heldur ekki eingöngu barátta fyrir kosningarétti. Konur kröfðust réttar síns og samfélagsbreytinga á öllum sviðum. Þær voru frumkvöðlar í heilsugæslu í Reykjavík og víðar um land, og mörg kvenfélög voru stofnuð til þess að vinna að samfélagsúrbótum á sviði heilsugæslu og líknarmála. Hér má nefna kvenfélagið Hringinn og Thorvaldsensfélagið sem enn starfa. Kvenréttindabaráttan hefur ávallt verið fjöldahreyfing. Myndir:
- Fyrstu konur í bæjarstjórn: Konur og stjórnmál. (Sótt 17. 9. 2015).
- Kvenréttindafélag Íslands (Sótt 16. 9. 2015).
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um kvenréttindabaráttuna má benda á vef Kvennasögusafns Íslands. Þar má til dæmis finna lista yfir bækur og greinar sem fjalla um kvennabaráttuna á Íslandi frá 1850. Þar má einnig finna stutt æviágrip þeirra kvenna sem fyrstar voru kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík neðst í kafla um Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1918. Þá má benda á vefinn Konur og stjórnmál þar sem má finna ýmsan fróðleik um sögu kosningaréttar íslenskra kvenna og fjallað um stjórnmálaþátttöku kvenna ásamt því að gera kvennabaráttu og jafnréttisbaráttu kvenna skil.