Hvaða konur voru öflugar í kvenréttindabaráttunni aðrar en Bríet Bjarnhéðinsdóttir á sínum tíma? Hvað gerðu þær til að hafa áhrif ?Bríet Bjarnhéðinsdóttir hefur orðið áberandi í sögunni af kvenréttindabaráttunni, eðlilega þar sem hún var frumherji á svo mörgum sviðum: hún hélt fyrsta opinbera fyrirlestur konu á Íslandi, þar sem hún fjallaði um kvenréttindi, hún gaf út og ritstýrði einu af fyrsti kvennablöðunum, hún átti frumkvæðið að stofnun Kvenréttindafélags Íslands og átti félagið „heima“ á heimili hennar að Þingholtsstræti um langt árabil og hún var einu af fyrstu konunum sem voru kjörnar í bæjarstjórn Reykjavíkur.

Í kosningum til bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1908 var boðinn fram sérstakur kvennalisti. Efst á listanum var Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, í öðru sæti var Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, í því þriðja Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands og í því fjórða Guðrún Björnsdóttir, sem var félagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Þær náðu allar kjöri og voru fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn í Reykjavík.

Kvenréttindabaráttan snérist ekki bara um kosningarétt heldur líka um ýmiskonar samfélagsmál. Hér má sjá Ingibjörgu H. Bjarnason í ræðustóli á Austurvelli á hátíð kvenna 19. júní 1916 en þar lýsti hún formlega yfir stofnun Landspítalasjóðs. Ingibjörg varð seinna fyrst íslenskra kvenna til að taka sæti á Alþingi.
- Fyrstu konur í bæjarstjórn: Konur og stjórnmál. (Sótt 17. 9. 2015).
- Kvenréttindafélag Íslands (Sótt 16. 9. 2015).
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um kvenréttindabaráttuna má benda á vef Kvennasögusafns Íslands. Þar má til dæmis finna lista yfir bækur og greinar sem fjalla um kvennabaráttuna á Íslandi frá 1850. Þar má einnig finna stutt æviágrip þeirra kvenna sem fyrstar voru kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík neðst í kafla um Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1918. Þá má benda á vefinn Konur og stjórnmál þar sem má finna ýmsan fróðleik um sögu kosningaréttar íslenskra kvenna og fjallað um stjórnmálaþátttöku kvenna ásamt því að gera kvennabaráttu og jafnréttisbaráttu kvenna skil.