Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Íkveikjuæði (e. pyromania) er vandamál þar sem einstaklingar upplifa mikla löngun til að horfa á eld og kveikja í. Þetta vandamál svipar mjög til spilafíknar eða spilaáráttu og stelsýki. Íkveikjuæðið virðist þó vera töluvert frábrugðið hinum vandamálunum að því leyti að það er algengara að þeir sem kveikja í skipuleggi íkveikjuna töluvert fyrirfram. Einstaklingar með íkveikjuæði hafa gífurlegan áhuga á öllu sem tengist eldi, eins og til dæmis eldsvoðum, brunakerfum af ýmsu tagi, slökkvistöðvum og slökkviliðsbílum. Þeir reyna gjarnan að fylgjast með eldsvoðum, og auðvitað það sem hættulegast er - upplifa mikla löngun til að kveikja í. Þegar þeir síðan kveikja í finna þeir fyrir mikilli vellíðan eða spennulosun. Endurtekin íkveikja leiðir síðan til aukinnar löngunar eða þarfar að kveikja aftur í, líkt og í vandamálum sem tengjast áráttu eða fíkn. Það virðist líka oft vera að fólk með íkveikjuæði finni ekki fyrir samviskubiti vegna þess skaða sem íkveikjan veldur, hvort sem skaðinn er fjárhagslegur, tilfinningalegur, líkamlegur eða allt í senn.
Flestir þeir sem þjást af íkveikjuæði eru karlmenn á unglingsaldri eða ungir menn. Ekki er talið að börn sem kveikja í þjáist af íkveikjuæði. Börn ganga oft í gegnum tímabil þar sem þau eru heilluð af eldi, sem er nokkuð “eðlilegt”, en hinsvegar er mikilvægt að halda þessu í skefjum og fræða börn um eld, hvað beri að varast og hvernig við umgöngumst eld. Þegar skoðað er hvað fólk með íkveikjuæði á sameiginlegt, annað en þörfina fyrir að kveikja í, þá sjáum við að margir hverjir hafa frekar lélega félagshæfni, eru einangraðir og hafa jafnvel sögu annarra erfiðleika eins og lærdómserfiðleika.
Mikilvægt er að fólk átti sig samt á því að alls ekki allir sem kveikja í þjást af íkveikjuæði. Mörg dæmi eru um íkveikjur af öðrum ástæðum, til dæmis til að svíkja út tryggingafé fyrir eign sem það á sjálft, í pólitískum tilgangi eða til að fela verksummerki glæps. Aðrar ástæður fyrir því að fólk kveikir í geta verið mikil reiði, ölæði eða alvarlegar geðraskanir þar sem fólk gerir sér ekki grein fyrir hvað það er að gera Einnig er algengt að unglingar í uppreisn (unglingar sem eiga við hegðunarvandamál að etja) kveiki í. Þessir aðilar finna ekki fyrir neinni sérstakri löngun til að kveikja í heldur er um fjárhagslegan ávinning eða einhverskonar útrás að ræða.
Ef maður veltir fyrir sér hvort einhver sé með íkveikjuæði er hægt að skoða hvort einstaklingurinn hefur átt einhverja sögu um að kveikja mikið í sem barn. Hefur hann óeðlilega mikinn áhuga á eldi og eldsvoðum, fer jafnvel af stað til að fylgjast með eldsvoðum? Hefur hann jafnvel gert eitthvað annað - eins og að koma eldvarnarkerfi af stað af ásettu ráði? Auk þess má segja að ef við grunum einhvern um að vera með íkveikjuæði og að hafa orðið valdur að ákveðnum bruna, þá eru töluverðar líkur á að sá hinn sami hafi verið einn af áhorfendunum að eldsvoðanum.
En getur fólk losnað við þetta vandamál og náð bata? Ef menn nást og þiggja þá meðferð eða, sem betra væri, leita sér aðstoðar af sjálfsdáðum, þá eru töluverðar líkur á að einstaklingur nái bata og kveiki ekki í (aftur). Slík meðferð skilar um 70% árangri.
Frekara lesefni á Vísindavefnum: