Af hverju er orðatiltækið „út í hött“ dregið?Samkvæmt Ásgeiri Blöndal Magnússyni er orðið höttur í orðasamböndum eins og svara (líta) út í hött 'út í bláinn' og að vera á höttunum eftir einhverju 'reyna að ná í eitthvað, svipast um eftir einhverju' þekkt frá því á 18. öld og vafasamt að tengja þau hetti í merkingunni 'sítt höfuðfat, hetta, hattur'. Hann telur að höttur sé hér hugsanlega ummyndun úr *hottr, samanber nýnorsku hott, hutt 'þúfa, hnjótur, grashnotti', jósku hot 'jarðvegshnjótur, þúfa' og færeysku høttur 'þúfa' (1989:414). Jón G. Friðjónsson hallast að því að höttur merki hér 'fjallstindur' og vísar þar í Halldór Halldórsson 1991. Sjálfum finnst Jóni önnur skýring trúlegri, það er að höttur merki himinn, loft' og styðst þar við vangaveltur Helga Hálfdanarsonar sem Ásgeir féllst ekki á. Oft er það þannig að uppruni er umdeildur þegar heimildir eru fáar. (* merkir að orðmyndin er endurgerð, kemur ekki fyrir). Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Halldór Halldórsson 1991. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin og endurskoðuð.
- Helgi Hálfdanarson. 1985. Skynsamleg orð og skætingur. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Mál og menning, Reykjavík.
- File:Goðaborg am Berufjörður.jpg - Wikimedia Common (Sótt 16.06.15).