Kannist þið við nafnorðið þolinmóður? Gæti það verið verkfæri eða pinninn sem heldur hurðalömum saman? Þetta er komið frá eldra fólki sem fallið er frá fyrir löngu. Mögulega er um misheyrn eða misskilning að ræða en mig langar samt að forvitnast um þetta.Nafnorðið þolinmóður er notað um pinna eða titt sem eitthvað leikur á, snýst um, til dæmis í vasahníf, skærum, naglbít og fleiri verkfærum. Í Íslenskri orðabók, fyrra bindi, er mynd af þolinmóð á síðu 531. Í íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar (1814 II:500) er merkingin gefin 'Akse', það er 'öxull'. Orðið er gamalt í málinu. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er elsta heimild frá 1752:
anfærer velnefndur profasturenn þessa klukku med hennar kölfe, Rambhólldum spaungum holkum og þolinmodum.Annað yngra dæmi frá lokum 19. aldar er:
tvær álmur úr málmi, með hnúð á öðrum endanum, en festar saman á hinum endanum, og leika þar á þolinmóð, og er sitt glerheptið á hvorri til að halda um.Önnur dæmi í Ritmálssafni sýna að þolinmóður hefur verið vel þekkt orð og er það sjálfsagt enn, að minnsta kosti hjá eldra fólki. Heimild:
- Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. I–II. Havniæ.
- Knipex - Wikipedia, the free encyclopedia (Sótt 06.07.2015).