Mig langar að spyrja ykkur að því hvar á Íslandi er best að vera þegar almyrkvinn gengur yfir Ísland 12. ágúst 2026. Mér sýnist hann vera mestur einhverstaðar á Vestfjörðum en sé það ekki nógu vel. Var að vona þið gætuð vitað það og sagt mér það. Gráðurnar sem eru gefnar upp fyrir hann eru 65.2N og 25.2W og mesti myrkvinn sagður kl 17:47. Væri gaman að fá að vita þetta og hvar mestur myrkvi verður.Sólmyrkvar eiga sér stað þegar tungl er nýtt og gengur fyrir sólina og varpar skugga á takmarkað svæði á yfirborði jarðar. Skugga tunglsins er skipt í tvo hluta, alskugga og hálfskugga. Sé maður staddur innan hálfskuggans, hylur tunglið aðeins hluta sólarinnar og maður sér svonefndan deildarmyrkva. Sólskífan virðist þá vera sigð vegna tunglsins. Sólmyrkvinn þann 20. mars 2015 var deildarmyrkvi á Íslandi. Til þess að sjá almyrkva verður maður að vera staddur í alskugga tunglsins þar sem tunglið byrgir algerlega fyrir sólina og ekkert ljós berst frá henni. Í þeirri fjarlægð sem jörðin er frá tunglinu er alskugginn mjór og þekur því aðeins lítið svæði á jörðinni. Þegar jörðin snýst, myndar alskugginn myrkvaslóð eða -rák á yfirborði jarðar. Almyrkvi verður aðeins á þeim stöðum á jörðinni sem slóðin liggur um. Þann 12. ágúst 2026 verður næsti almyrkvi á sólu sem sést frá Íslandi. Ferill skuggans sem fellur á jörðu mun liggja yfir vestanvert Ísland. Það verður því bara á vestasta hluta landsins sem hægt verður að upplifa almyrkva, annars staðar á landinu verður deildarmyrkvi. Myrkvinn stendur mislengi yfir, lengur eftir því sem vestar dregur. Sem dæmi þá mun almyrkvinn standa í 2 mínútur og 13 sekúndur á Látrabjargi, vestasta odda landsins, í 1 mínútu og 36 sekúndur á Ísafirði en 1 mínútu og 10 sekúndur í Reykjavík. Á Akureyri sést deildarmyrkvi og mun tungl hylja 97,9% af þvermáli sólar þaðan séð. Á Norðfirði mun tungl hylja 95% af þvermáli sólar. Á vef NASA er gagnvirkt kort sem sýnir feril skuggans. Með því að smella á tiltekinn stað á kortinu má fá upplýsingar um hvenær myrkvinn sést á viðkomandi stað, hversu lengi hann mun standa yfir og hversu stóran hluta af þvermáli sólar tunglið mun hylja. Spurt var hvar best væri að vera til að sjá myrkvann 2026. Ef lengd myrkvans er það sem fólk sækist eftir, þá er best að vera sem vestast á landinu. Þegar þetta er skrifað, í mars 2015, eru engar aðrar forsendur til þess að meta hvar á landinu gott er að vera til að sjá myrkvann. Þegar nær dregur myrkvanum ættu menn þess vegna að huga að skýjafari. Það skiptir jú öllu máli að vera á stað þar sem sést til sólar. Því miður eigum við ekki veðurspá fyrir 12. ágúst 2026. Heimildir og myndir:
- Sævar Helgi Bragason. Hvað er sólmyrkvi og hvað varir hann lengi?. Vísindavefurinn 30.5.2003. (Skoðað 20.3.2015).
- Sólmyrkvar á Íslandi fram til 2200. Almanak Háskóla Íslands 28.3.2006. (Skoðað 20. 3. 2015).
- Háskóli Íslands - Reykjavík, Iceland - College & University | Facebook. (Sótt 20.03.2015).
- Kort: NASA - Total Solar Eclipse of 2026 August 12. (Sótt 20.3. 2015).