Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Miðvikudaginn 19. nóvember 1919 birtist eftirfarandi frétt í símskeytadálki dagblaðsins Vísis undir fyrirsögninni „Þyngdarlögmálið“:
Símað er frá London, að stjörnufræði- og eðlisfræði-félagið enska hafi fallist á kenningar þýska prófessorsins Einsteins, sem eru andvígar kenningum Newtons og kollvarpa jafnvel þyngdarlögmálskenningum. [Khöfn 18. nóv.]
Mynd af sólmyrkva sem varð 29.5.1919. Niðurstöður mælinga á sveigju ljóssins í tengslum við þann sólmyrkva urðu meðal annars til þess að skjóta vísindamanninum Albert Einstein upp á stjörnuhimininn.
Nákvæmlega sama frétt birtist í öðrum íslenskum dagblöðum daginn eftir.[1] Engar frekari skýringar fylgdu fréttinni og það var ekki fyrr en rúmum hálfum mánuði síðar, 5. desember, sem Íslendingum bárust nánari upplýsingar. Þá birti Morgunblaðið fréttaskýringu undir titlinum „Byltingar í heimi vísindanna“. Í greininni sem sennilega var byggð á svipaðri umfjöllun í dönskum blöðum, einkum Politiken, segir meðal annars:
Eins og getið hefur verið um í skeytum hér í blaðinu, þá hefir prófessor einn, Einstein að nafni, gert stórmerkilegar uppgötvanir í sambandi við þyngdarlögmálið. Hafa þessar uppgötvanir vakið geisi-eftirtekt og er rætt og ritað um þær í öllum blöðum.[2]
Þá er sagt frá því að „konunglega stjörnu- og eðlisfræðifélagið í London [hafi nýlega haldið] fund mikinn“ um þetta efni þar sem forseti félagsins hafi meðal annars fullyrt
að þessar skoðanir Einsteins, sem nú væru fyllilega sannaðar, væri einn stærsti sigur mannlegrar hugsunar. Og af þeim hlyti að leiða að gjörvöll heimsmynd vor hlyti að breytast.
Næst er gerð tilraun til þess að segja frá nokkrum niðurstöðum Einsteins varðandi lengdarsamdrátt, tímaþan og brautarsnúning Merkúríusar. Glöggt má sjá á orðalaginu hversu framandi þessar nýju hugmyndir og mæliniðurstöður hafa verið íslenskum blaðamönnum. Aðalatriðið í fréttaskýringunni er þó stutt umfjöllun um mælingu á sveigju ljóss í þyngdarsviði sólarinnar:
Þó hefur sú staðhæfing Einsteins vakið mesta athygli að hægt er að vega sólarljósið. En þó hefur það verið sannað meðal annars af tveimur stjörnufræðis rannsóknarnefndum sem athuguðu sólmyrkvan 29. maí sl. ár [...] En meðan á sólmyrkvanum stóð, ljósmynduðu menn margar þær stjörnur, sem senda ljós sitt mjög nærri sólinni til jarðarinnar. Þá kom það í ljós, að geislar þesara stjarna sveigðust mikið að sólinni um leið og þeir fóru framhjá henni, vegna aðdráttarafls hennar. Þyngdarlögmál Newtons og yfirhöfuð allar kenningar hans raskast töluvert við þetta.
Greininni lýkur á nokkrum orðum um Einstein sjálfan, meðal annars að hann sé þýskur gyðingur og fæddur í Sviss, en starfi nú fyrir tilstilli Vilhjálms keisara við fjöllistaskólann í Berlín og hafi 18.000 þýsk mörk í árslaun.
Albert Einstein varð víðfrægur á örfáum dögum árið 1919. Þessi mynd er tekin af honum árið 1921.
Af ástæðum, sem ekki eru enn að fullu ljósar, urðu fréttirnar sem bárust út um heim allan frá London í nóvember 1919 til þess að Einstein varð víðfrægur á örfáum dögum. Á næstu mánuðum héldu íslensk dagblöð, einkum Morgunblaðið og Alþýðublaðið, því áfram að segja frá hinni nýju stjörnu, ævi hennar og högum. Í fyrstu voru fréttir af frægð Einsteins og andstöðunni gegn honum í Þýskalandi mest áberandi, en þegar líða tók á sumarið 1920 fóru nánari upplýsingar um kenningar hans, bæði takmörkuðu afstæðiskenninguna og þá almennu, að berast til landsins.
Tilvísanir:
^ Morgunblaðið, 5. desember 1919, bls. 3. Sjá einnig grein í Fram (Siglufirði, 29. desember 1919, bls. 1) sem virðist styðjast við sömu heimild og Morgunblaðið: „En Revolution i Videnskaben: Professor Einsteins epokegørende Teorier bekræftet. Newtons Tyngdelov omstødt.“ Politiken, 18. nóvember 1919. Danska greinin er byggð á umfjöllun enska dagblaðsins The Times dagana 7. og 8. nóvember 1919.
Einar H. Guðmundsson. „Varð Albert Einstein frægur vegna sólmyrkva?“ Vísindavefurinn, 19. mars 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69631.
Einar H. Guðmundsson. (2015, 19. mars). Varð Albert Einstein frægur vegna sólmyrkva? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69631
Einar H. Guðmundsson. „Varð Albert Einstein frægur vegna sólmyrkva?“ Vísindavefurinn. 19. mar. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69631>.