Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað gerist á jörðinni ef tunglið yrði sprengt í loft upp?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Ef tunglið yrði sprengt í tætlur með sprengju í miðju þess mundi það að sjálfsögðu hverfa af himninum ásamt öllum atburðum sem tengjast því, þar á meðal sólmyrkvum. Ef til vill mundu koma fram hringir í staðinn, svipað og á Satúrnusi. Einhver brot kynnu að skella á jörðinni. Sjávarföll mundu minnka til muna og breytast að öðru leyti. Einhver fleiri fyrirbæri sem fylgja göngu og kvartilaskiptum tunglsins gætu breyst. Hugsanlegt er einnig að möndulstefna jarðar mundi fara að haga sér öðru vísi en hún gerir nú.


Þessu er erfitt að svara nema tiltekið sé nánar hvernig staðið yrði að verki. Hugsum okkur til dæmis að sprengju sé komið fyrir í miðju tunglsins. Þá mundu brotin frá sprengingunni dreifast jafnt í allar áttir en í fyrstu mundi svokölluð massamiðja þeirra hreyfast eftir sömu braut og tunglið hefði ella farið. Síðar mundi massamiðjan færast nokkkuð í átt til jarðar vegna þess að krafturinn sem verkar á brotin sem stefna inn á við vex meira en krafturinn á hin brotin minnkar. Flest brotin mundu fara að hreyfast á braut um jörð en sum þeirra kynnu að lenda á jörðinni ef sprengingin er nógu öflug. Hornhraði brotanna á hreyfingu þeirra um jörð yrði mismunandi samkvæmt þriðja lögmáli Keplers og þau mundu því ekki fylgjast að til lengdar. Ef til vill mundu að lokum myndast hringar um jörðina svipað og á Satúrnusi.

Allt þetta gæti í sjálfu sér talist til viðburða á jörðinni, til dæmis það að tunglið hverfur og hringar myndast í staðinn. Um leið hætta menn að sjá atburði eins og myrkva á sól og tungli. Hringarnir yrðu trúlega áhrifamikil sjón frá jörðinni og kynnu að hafa áhrif á útlit sólar og á sólskin, til dæmis þegar sólin stendur nákvæmlega í hringunum, en annars yrði hún væntanlega aldrei langt frá þeim, því að þeir yrðu nálægt þeirri sléttu sem tunglbrautin er nú í.

En hvarf tunglsins mundi líka hafa bein áhrif hér á jörðu niðri, áhrif sem við yrðum vör við jafnvel þótt við sæjum aldrei til himins. Þannig mundi meðalsveifla sjávarfalla minnka niður í þriðjung eða svo, aðalsveiflan yrði í takt við sólargang í stað tungls og stórstreymi og smástreymi mundu hverfa. Önnur fyrirbæri sem tengjast sjávarföllum mundu breytast á svipaðan hátt. Einnig gæti orðið truflun á þeim fyrirbærum í lífríkinu sem virðast fylgja göngu tunglsins þó að við vitum ekki alveg um orsakasamhengið sem þar býr að baki. Þá er meðal annars átt við tíðir kvenna og þær tegundir sjúkdóma sem virðast vera í takti við kvartilaskipti tunglsins.

Jörðin snýst um möndul sem vísar í ákveðna stefnu; norðurendi hans stefnir núna því sem næst á Pólstjörnuna. Þessi stefna breytist hins vegar með tímanum á reglubundinn hátt þannig að norðurendinn teiknar hring með geislanum 23,5 gráður á himinkúluna og fer eina umferð á hverjum 26.000 árum. Þetta nefnist pólvelta á íslensku en "precession" á erlendum málum og er hliðstætt hreyfingu skopparakringlu.

Pólveltan stafar af því að svolítil bunga er á jörðinni við miðbaug. Þetta veldur kraftvægi frá sól og jörð sem leitast við að rétta jörðina af þannig að möndullinn vísi hornrétt á jarðbrautina. Möndulsnúningurinn kemur hins vegar í veg fyrir það og í staðinn kemur fram umrædd pólvelta. Ef framlag tunglsins til hennar mundi hverfa eða breytast verulega raskast jafnvægið sem ríkt hefur og möndulstefnan gæti þá til dæmis farið alla leið niður í sólbrautarsléttuna. Slíkir viðburðir mundu valda mjög verulegri röskun á jörðinni, til dæmis á því veðrakerfi sem við eigum að venjast.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

28.7.2000

Spyrjandi

Eyjólfur K Kolbeins

Efnisorð

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað gerist á jörðinni ef tunglið yrði sprengt í loft upp?“ Vísindavefurinn, 28. júlí 2000, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=696.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 28. júlí). Hvað gerist á jörðinni ef tunglið yrði sprengt í loft upp? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=696

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað gerist á jörðinni ef tunglið yrði sprengt í loft upp?“ Vísindavefurinn. 28. júl. 2000. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=696>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist á jörðinni ef tunglið yrði sprengt í loft upp?
Ef tunglið yrði sprengt í tætlur með sprengju í miðju þess mundi það að sjálfsögðu hverfa af himninum ásamt öllum atburðum sem tengjast því, þar á meðal sólmyrkvum. Ef til vill mundu koma fram hringir í staðinn, svipað og á Satúrnusi. Einhver brot kynnu að skella á jörðinni. Sjávarföll mundu minnka til muna og breytast að öðru leyti. Einhver fleiri fyrirbæri sem fylgja göngu og kvartilaskiptum tunglsins gætu breyst. Hugsanlegt er einnig að möndulstefna jarðar mundi fara að haga sér öðru vísi en hún gerir nú.


Þessu er erfitt að svara nema tiltekið sé nánar hvernig staðið yrði að verki. Hugsum okkur til dæmis að sprengju sé komið fyrir í miðju tunglsins. Þá mundu brotin frá sprengingunni dreifast jafnt í allar áttir en í fyrstu mundi svokölluð massamiðja þeirra hreyfast eftir sömu braut og tunglið hefði ella farið. Síðar mundi massamiðjan færast nokkkuð í átt til jarðar vegna þess að krafturinn sem verkar á brotin sem stefna inn á við vex meira en krafturinn á hin brotin minnkar. Flest brotin mundu fara að hreyfast á braut um jörð en sum þeirra kynnu að lenda á jörðinni ef sprengingin er nógu öflug. Hornhraði brotanna á hreyfingu þeirra um jörð yrði mismunandi samkvæmt þriðja lögmáli Keplers og þau mundu því ekki fylgjast að til lengdar. Ef til vill mundu að lokum myndast hringar um jörðina svipað og á Satúrnusi.

Allt þetta gæti í sjálfu sér talist til viðburða á jörðinni, til dæmis það að tunglið hverfur og hringar myndast í staðinn. Um leið hætta menn að sjá atburði eins og myrkva á sól og tungli. Hringarnir yrðu trúlega áhrifamikil sjón frá jörðinni og kynnu að hafa áhrif á útlit sólar og á sólskin, til dæmis þegar sólin stendur nákvæmlega í hringunum, en annars yrði hún væntanlega aldrei langt frá þeim, því að þeir yrðu nálægt þeirri sléttu sem tunglbrautin er nú í.

En hvarf tunglsins mundi líka hafa bein áhrif hér á jörðu niðri, áhrif sem við yrðum vör við jafnvel þótt við sæjum aldrei til himins. Þannig mundi meðalsveifla sjávarfalla minnka niður í þriðjung eða svo, aðalsveiflan yrði í takt við sólargang í stað tungls og stórstreymi og smástreymi mundu hverfa. Önnur fyrirbæri sem tengjast sjávarföllum mundu breytast á svipaðan hátt. Einnig gæti orðið truflun á þeim fyrirbærum í lífríkinu sem virðast fylgja göngu tunglsins þó að við vitum ekki alveg um orsakasamhengið sem þar býr að baki. Þá er meðal annars átt við tíðir kvenna og þær tegundir sjúkdóma sem virðast vera í takti við kvartilaskipti tunglsins.

Jörðin snýst um möndul sem vísar í ákveðna stefnu; norðurendi hans stefnir núna því sem næst á Pólstjörnuna. Þessi stefna breytist hins vegar með tímanum á reglubundinn hátt þannig að norðurendinn teiknar hring með geislanum 23,5 gráður á himinkúluna og fer eina umferð á hverjum 26.000 árum. Þetta nefnist pólvelta á íslensku en "precession" á erlendum málum og er hliðstætt hreyfingu skopparakringlu.

Pólveltan stafar af því að svolítil bunga er á jörðinni við miðbaug. Þetta veldur kraftvægi frá sól og jörð sem leitast við að rétta jörðina af þannig að möndullinn vísi hornrétt á jarðbrautina. Möndulsnúningurinn kemur hins vegar í veg fyrir það og í staðinn kemur fram umrædd pólvelta. Ef framlag tunglsins til hennar mundi hverfa eða breytast verulega raskast jafnvægið sem ríkt hefur og möndulstefnan gæti þá til dæmis farið alla leið niður í sólbrautarsléttuna. Slíkir viðburðir mundu valda mjög verulegri röskun á jörðinni, til dæmis á því veðrakerfi sem við eigum að venjast....