Hvaðan kemur orðið dýflissa og hver er réttur framburður þess?Orðið dýflissa 'fangelsi, svarthol' er tökuorð úr miðlágþýsku og var rithátturinn dyblissa, dyflissa, dybliza, dyfliza. Í miðlágþýsku er orðið fengið úr slavnesku, samanber fornslavnesku timinica, rússnesku temniza 'fangelsi'. Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:139) telur að hugtengsl við djöfull, dýfill og dífill hafi átt einhvern þátt í ummyndun íslenska orðsins. Elstu dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru úr þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu sem gefið var út 1540.
verder þu i dyppliztsu kastadr.Guðbrandur biskup Þorláksson ritar orðið einnig með -p-, það er
refsarinn kasti þier suo i dyplitzu.
Leid mijna Saalu vt af Dyplitzunne.Oskar Bandle sem rækilegast hefur rannsakað Guðbrandsbiblíu telur að þessi ritháttur sé alþýðuskýring og að orðið hafi verið sett í samband við dýpt, dýpi og djúpur (1956:155). Framburður með -b-, það er -bl-, er næsta öruggur á 19. öld þar sem dæmin í Ritmálssafninu eru langflest skrifuð dyblissa, díblyssa, dýblissa. Í íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal er orðið skrifað dýflissa og Jón Ófeigsson, sem samdi hljóðritunarkerfi fyrir bókina gefur framburðinn [diblisa] (1920-1924:131). Framburður klasans -fl- er -bl-, samanber stífla, hrafl, fífl, Keflavík sem fáir bera fram með -fl- og dýflissa fellur hjá flestum réttilega í þennan flokk. Framburðurinn [díflissa] er til orðinn fyrir ofvöndun, orðið er mörgum framandlegt. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Oskar Bandle. 1956. Die Sprache der Guðbrandsbiblía. Bibliotheca arnamagnæana. Vol. XVII. Ejnar Munksgaard, Kaupmannahöfn.
- Sigfús Blöndal. 1920-1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
- Dungeon display at Arundel Castle - Wikimedia Commons. (Sótt 22.06.2015).