Hver er uppruni orðatiltækisins „það er uppi á honum typpið“ og er hér verið að vísa til karlskyns kynfæra eða hefur orðið typpi aðra merkingu í þessu samhengi?Orðið typpi hefur fleiri en eina merkingu: 'toppur, nabbi, bóla, húnn á siglutré, snerill, getnaðarlimur, lítill hlutur'. Orðasambandið það er uppi á einhverjum typpið merkir 'einhver er mjög hress' og þekkist frá 20. öld. Dæmi úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er:
hann þekkti tilburðina og sá að þarna var Kúskerpisskotta á ferð og var uppi á henni typpið, glennti hún upp á hann glyrnurnar og var til alls ills búin.Dæmið sýnir að hægt er að nota sambandið um kvenkyns veru þótt oftar sé sagt að uppi sé á honum typpið. Eldra afbrigði orðasambandsins er að finna í orðabók Björns Halldórssonar frá 1814 (II:399), að hefja upp á einum typpið 'smjaðra fyrir einhverjum'. Yngra afbrigði þess er hafa upp á einhverjum typpið. Dæmi um það í Ritmálssafni er:
Stúlkurnar voru símasandi við hann og allt af að reyna að hafa upp á honum typpið.Óvíst er um merkingu typpis í þessum orðasamböndum. Jón Friðjónsson getur þess til í bók sinni Mergur málsins (2006:902–903) að líkingin vísi til þess er dýr/fugl sperrir rófuna/stélið (af gleði eða ánægju). Þar vísar hann í dæmi sem er svona í Ritmálsskránni:
Lóurnar hlupu um túnið, hljóðar að vísu, ... en þó brattar í spori og upp á þeim typpið.Jón nefnir einnig aðra skýringu sem hann hefur frá Halldóri Halldórssyni í Íslenkzu orðtakasafni. Halldór telur koma til greina að merkingin sé 'húnn á siglutré', þ.e. að upphaflega merkingin sé „að reisa siglutré á bát“ (1991:494). Heimildir:
- Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-latino-danicum. II. bindi.
- Halldór Halldórsson. 1991. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin og endurskoðuð. Reykjavík: Almenna bókafélagið.
- Jón Friðjónsson. 2006. Mergur málssins. Reykjavík: Mál og menning.
- Ritmálsskrá Orðabók Háskólans.