Selbiti eða sölbiti er fólginn í því að fremsti liðurinn á laungutaung eða vísifíngri er spentur við þumalfíngursgóminn; er honum svo kipt fram af gómnum á höndina á þeim, sem á að verða fyrir skellinum, eða jafnvel framan í hann. Stundum eru bæði lángataung og vísifíngurinn sett í spennuna í einu, og verður þá selbitinn tvöfaldur í roðinu (167–168).Orðið sölbita telur Ólafur sunnlenskt og er þar annaðhvort um framburðarmynd að ræða eða orðið er hið sama og söl 'rauðþörungur notaður til manneldis', það er boðið er upp á bita af sölvum í stað selkjötsbita. Líklegast er að selbiti merki einfaldlega 'biti af selkjöti'. Sá sem ætlaði að hrekkja bauð upp á selbita en sá sem féll fyrir bragðinu fékk í stað selkjötsins sáran smell á höndina eða vangann. Orðasambandið að gefa einhverjum selbita er þekkt í málinu að minnsta kosti frá síðari hluta 18. aldar. Annað orðasamband sem ekki lýtur að hrekk er: að slá selbita í vasa sinn eða í vasa sínum, gefa selbita í vasa sinn eða vasa sínum (vösum sínum). Með því er átt við að einhver hafist það að sem lítur út fyrir að koma að gagni en reynist síðan gagnslaust. Um það á Orðabók Háskólans elst dæmi frá miðri 19. öld.
Útgáfudagur
3.12.2007
Spyrjandi
Anna Sævarsdóttir, Eva Hermannsdóttir
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Af hverju er það kallað "að gefa selbita" þegar gefið er högg á kinn með vísifingri sem spyrnt er frá þumli?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6937.
Guðrún Kvaran. (2007, 3. desember). Af hverju er það kallað "að gefa selbita" þegar gefið er högg á kinn með vísifingri sem spyrnt er frá þumli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6937
Guðrún Kvaran. „Af hverju er það kallað "að gefa selbita" þegar gefið er högg á kinn með vísifingri sem spyrnt er frá þumli?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6937>.