Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nafnorðið glæpon er ekki gamalt í málinu. Eftir því sem næst verður komist fór það að skjóta upp kollinum í íslensku rétt fyrir miðja 20. öldina. Þá, eins og nú, merkti það 'glæpamann' eða 'bófa' en það hefur yfir sér óformlegan eða slangurkenndan blæ sem trúlega hefur dregið úr líkum á því að það birtist oft á prenti.
Amma glæpon er heiti á sjónvarspmynd og barnabók eftir David Walliams.
Orðið er þó ekki síður athyglisvert sakir forms síns, fyrri hlutinn glæp- er vitaskuld dregið af glæpur en endingin eða viðskeytið -on er fáséð. Einna helst minnir orðmyndunin á mannanöfn úr Biblíunni, eins og Aron, Símon og Gídeon, og til eru fleiri nöfn sem enda á -on og eru ekki eins langt að komin, svo sem Hákon og Maron. Þá er ónefnt örnefnið Dímon, sem margt hefur verið bollalagt um í nafnfræðum, og þess munu dæmi að hestar og hundar séu kallaðir Kaffon.
Það sem kemst þó ef til vill næst því að kallast hliðstæða nafnorðsins glæpon hvað orðmyndun og merkingu snertir er glaron, mállýskuorð af Austurlandi sem merkir samkvæmt heimildum í talmálssafni Orðabókar Háskólans 'kærulaus eða ábyrgðarlaus maður'. Hér er ekki nóg með að endingin -on sé á sínum stað, orðið merkir einnig mann sem hegðar sér á tiltekinn hátt – og ekki til fyrirmyndar. Til fróðleiks má svo bæta því við að erfitt hefur reynst að rekja uppruna orðsins glaron, einna helst gæti það átt skylt við annað mállýskuorð að austan, sögnina glarka sem höfð var um óábyrga og áhættusama hegðun af ýmsu tagi.
Svo má líka velta fyrir sér hvort erlend orð eins og spion 'njósnari' kunni að eiga einhvern þátt í myndun orðsins glæpon - en úr þessu verður víst seint skorið.
Úr myndasögunni X-9 í Morgunblaðinu 10. mars 1946.
Orðið glæpon virðist hafa komið til sögunnar á fimmta áratug síðustu aldar. Elstu dæmin sem höfundur þessa svars hefur fundið eru úr Morgunblaðinu 1944, nánar tiltekið úr myndasögunni X-9 sem um þær mundir birtist daglega á síðum blaðsins og fjallaði „um leynilögreglumanninn X-9, sem lendir í ótal æfintýrum og kemur upp um fjölda stigamenn“ eins og segir í kynningu þegar sagan hóf göngu sína.
Heimildir og myndir:
Aðalsteinn Eyþórsson. „Hvenær kemur glæpon í íslenskt mál?“ Vísindavefurinn, 14. apríl 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69341.
Aðalsteinn Eyþórsson. (2015, 14. apríl). Hvenær kemur glæpon í íslenskt mál? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69341
Aðalsteinn Eyþórsson. „Hvenær kemur glæpon í íslenskt mál?“ Vísindavefurinn. 14. apr. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69341>.