Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig tímasetja palolo-ormar hrygningu?

Jón Már Halldórsson

Palolo-ormar eru tegundir burstaorma (polychete) innan ættarinnar Eunicidae. Fullorðnir palolo-ormar eru allt að 40 cm á lengd. Þeir eru með liðskiptan líkama og á hverjum lið er útlimur eða bursti eins og áberandi greinótt tálkn. Á höfði dýranna eru áberandi skynangar. Karldýrin eru yfirleitt rauðbrún að lit en kvendýrin með áberandi grænleitan blæ.

Kunnastir eru þessir ormar í Suður-Kyrrahafi (Eunice viridis), aðallega við Samoaeyjar, þar sem þeir lifa í holum og göngum kóralrifja sem eru víðáttumikil á grunnsævinu á þessum slóðum.



Palolo-ormar tilheyra bustaormum.

Æxlunarhegðun palolo-orma er nokkuð merkileg. Á hrygningartímanum verða miklar breytingar á aftasti hluta ormanna. Vöðvar og mörg innri líffæri leysast upp en kynvefirnir stækka verulega. Útlimirnir á þessum líkamshluta breytast einnig þannig að þeir verða áberandi spaðalaga sem gerir sund þeirra auðveldara. Þegar þessum umskiptum er lokið koma ormarnir sér fyrir þannig að afturendinn stendur út úr göngunum og því næst losnar hann af dýrunum og syndir upp að yfirborðinu. Framparturinn einn er því eftir af orminum en næstu vikurnar vex nýr afturhluti. Á yfirborði sjávar losna sæði og egg úr þessum líkamshlutum og frjóvgun á sér stað. Tómu hylkin falla svo aftur til botns en nýja lífveran sem verður til við frjóvgunina lifir nálægt yfirborði í nokkra daga áður en hún leitar til botns.

Tímasetningin er mjög mikilvæg þar sem afturendarnir eru ekki lengi á sundi. Ormarnir verða því að losa afturhlutann á sama tíma til þess að egg og sæði geti sameinast. Þetta gerist alltaf á sama tíma árs (miðað við tungl) og á sama tíma dagsins. Í Suður-Kyrrahafi á æxlunin sér stað á tveggja daga tímabili á seinasta fjórðungi tunglsins í október. Tuttugu og átta dögum síðar, á síðasta fjórðungi nóvembertungls, kemur önnur hrina afturenda. Rétt við dagrenningu er sjórinn við yfirborð allt í einu krökkur af ormum sem allir eru að losa kynfrumur. Þetta stendur yfir í aðeins örfáar klukkustundir en eftir það verður allt eins og það var áður og ormarnir sjást ekki aftur fyrr en að ári liðnu.

Svipaður taktur á sér stað annars staðar þar sem palolo-ormar lifa, meðal annars við eyjar í Vestur-Indíum þar sem palolo-ormur Atlantshafs lifir (E. furcata). Þar á æxlunin sér stað í síðasta fjórðungi júní- eða júlítungls og hjá japanska palolo-orminum (Tylorrhynchus heterochaetus) á svipuðum tíma.



Ormarnir sem synda upp eru með lítið auga sem skynjar ljós og nota það til að leita í áttina að birtu. Það skýrir þó ekki hvernig ormarnir fara að því að samhæfa eða tímasetja hrygninguna.

Menn hafa velt fyrir sér hvernig ormarnir fara að því að tímasetja æxlunina svona nákvæmlega þar sem þeir geta ekki miðað við birtu sólar eða tungls, eða sjávarföll. Vísindamenn hafa ekki komist endanlega til botns í því máli en skýringar á þessarar mjög svo reglubundnu hrygningu eru sennilega svipaðar skýringum á æxlunarhring annarra dýra, það er samspil eðlisþátta í umhverfinu og lífeðlisfræðilegra þátta.

Þess má að lokum geta að afturendar palolo-ormanna þykja herramannsmatur. Í Suður-Kyrrahafi, til dæmis á Samoaeyjum er mikill fögnuður ár hvert þegar ormarnir synda upp og eru þeir ýmist borðaðir hráir eða matreiddir á einhvern hátt. Í Japan eru egghylki ormanna meðal dýrasta sjávarfangs sem völ er á.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

22.11.2007

Síðast uppfært

29.6.2018

Spyrjandi

Viktor Björn Óskarsson
Steingrímur Valgarðsson,

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvernig tímasetja palolo-ormar hrygningu?“ Vísindavefurinn, 22. nóvember 2007, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6920.

Jón Már Halldórsson. (2007, 22. nóvember). Hvernig tímasetja palolo-ormar hrygningu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6920

Jón Már Halldórsson. „Hvernig tímasetja palolo-ormar hrygningu?“ Vísindavefurinn. 22. nóv. 2007. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6920>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig tímasetja palolo-ormar hrygningu?
Palolo-ormar eru tegundir burstaorma (polychete) innan ættarinnar Eunicidae. Fullorðnir palolo-ormar eru allt að 40 cm á lengd. Þeir eru með liðskiptan líkama og á hverjum lið er útlimur eða bursti eins og áberandi greinótt tálkn. Á höfði dýranna eru áberandi skynangar. Karldýrin eru yfirleitt rauðbrún að lit en kvendýrin með áberandi grænleitan blæ.

Kunnastir eru þessir ormar í Suður-Kyrrahafi (Eunice viridis), aðallega við Samoaeyjar, þar sem þeir lifa í holum og göngum kóralrifja sem eru víðáttumikil á grunnsævinu á þessum slóðum.



Palolo-ormar tilheyra bustaormum.

Æxlunarhegðun palolo-orma er nokkuð merkileg. Á hrygningartímanum verða miklar breytingar á aftasti hluta ormanna. Vöðvar og mörg innri líffæri leysast upp en kynvefirnir stækka verulega. Útlimirnir á þessum líkamshluta breytast einnig þannig að þeir verða áberandi spaðalaga sem gerir sund þeirra auðveldara. Þegar þessum umskiptum er lokið koma ormarnir sér fyrir þannig að afturendinn stendur út úr göngunum og því næst losnar hann af dýrunum og syndir upp að yfirborðinu. Framparturinn einn er því eftir af orminum en næstu vikurnar vex nýr afturhluti. Á yfirborði sjávar losna sæði og egg úr þessum líkamshlutum og frjóvgun á sér stað. Tómu hylkin falla svo aftur til botns en nýja lífveran sem verður til við frjóvgunina lifir nálægt yfirborði í nokkra daga áður en hún leitar til botns.

Tímasetningin er mjög mikilvæg þar sem afturendarnir eru ekki lengi á sundi. Ormarnir verða því að losa afturhlutann á sama tíma til þess að egg og sæði geti sameinast. Þetta gerist alltaf á sama tíma árs (miðað við tungl) og á sama tíma dagsins. Í Suður-Kyrrahafi á æxlunin sér stað á tveggja daga tímabili á seinasta fjórðungi tunglsins í október. Tuttugu og átta dögum síðar, á síðasta fjórðungi nóvembertungls, kemur önnur hrina afturenda. Rétt við dagrenningu er sjórinn við yfirborð allt í einu krökkur af ormum sem allir eru að losa kynfrumur. Þetta stendur yfir í aðeins örfáar klukkustundir en eftir það verður allt eins og það var áður og ormarnir sjást ekki aftur fyrr en að ári liðnu.

Svipaður taktur á sér stað annars staðar þar sem palolo-ormar lifa, meðal annars við eyjar í Vestur-Indíum þar sem palolo-ormur Atlantshafs lifir (E. furcata). Þar á æxlunin sér stað í síðasta fjórðungi júní- eða júlítungls og hjá japanska palolo-orminum (Tylorrhynchus heterochaetus) á svipuðum tíma.



Ormarnir sem synda upp eru með lítið auga sem skynjar ljós og nota það til að leita í áttina að birtu. Það skýrir þó ekki hvernig ormarnir fara að því að samhæfa eða tímasetja hrygninguna.

Menn hafa velt fyrir sér hvernig ormarnir fara að því að tímasetja æxlunina svona nákvæmlega þar sem þeir geta ekki miðað við birtu sólar eða tungls, eða sjávarföll. Vísindamenn hafa ekki komist endanlega til botns í því máli en skýringar á þessarar mjög svo reglubundnu hrygningu eru sennilega svipaðar skýringum á æxlunarhring annarra dýra, það er samspil eðlisþátta í umhverfinu og lífeðlisfræðilegra þátta.

Þess má að lokum geta að afturendar palolo-ormanna þykja herramannsmatur. Í Suður-Kyrrahafi, til dæmis á Samoaeyjum er mikill fögnuður ár hvert þegar ormarnir synda upp og eru þeir ýmist borðaðir hráir eða matreiddir á einhvern hátt. Í Japan eru egghylki ormanna meðal dýrasta sjávarfangs sem völ er á.

Heimildir og myndir:

...