Æxlunarhegðun palolo-orma er nokkuð merkileg. Á hrygningartímanum verða miklar breytingar á aftasti hluta ormanna. Vöðvar og mörg innri líffæri leysast upp en kynvefirnir stækka verulega. Útlimirnir á þessum líkamshluta breytast einnig þannig að þeir verða áberandi spaðalaga sem gerir sund þeirra auðveldara. Þegar þessum umskiptum er lokið koma ormarnir sér fyrir þannig að afturendinn stendur út úr göngunum og því næst losnar hann af dýrunum og syndir upp að yfirborðinu. Framparturinn einn er því eftir af orminum en næstu vikurnar vex nýr afturhluti. Á yfirborði sjávar losna sæði og egg úr þessum líkamshlutum og frjóvgun á sér stað. Tómu hylkin falla svo aftur til botns en nýja lífveran sem verður til við frjóvgunina lifir nálægt yfirborði í nokkra daga áður en hún leitar til botns. Tímasetningin er mjög mikilvæg þar sem afturendarnir eru ekki lengi á sundi. Ormarnir verða því að losa afturhlutann á sama tíma til þess að egg og sæði geti sameinast. Þetta gerist alltaf á sama tíma árs (miðað við tungl) og á sama tíma dagsins. Í Suður-Kyrrahafi á æxlunin sér stað á tveggja daga tímabili á seinasta fjórðungi tunglsins í október. Tuttugu og átta dögum síðar, á síðasta fjórðungi nóvembertungls, kemur önnur hrina afturenda. Rétt við dagrenningu er sjórinn við yfirborð allt í einu krökkur af ormum sem allir eru að losa kynfrumur. Þetta stendur yfir í aðeins örfáar klukkustundir en eftir það verður allt eins og það var áður og ormarnir sjást ekki aftur fyrr en að ári liðnu. Svipaður taktur á sér stað annars staðar þar sem palolo-ormar lifa, meðal annars við eyjar í Vestur-Indíum þar sem palolo-ormur Atlantshafs lifir (E. furcata). Þar á æxlunin sér stað í síðasta fjórðungi júní- eða júlítungls og hjá japanska palolo-orminum (Tylorrhynchus heterochaetus) á svipuðum tíma.
Menn hafa velt fyrir sér hvernig ormarnir fara að því að tímasetja æxlunina svona nákvæmlega þar sem þeir geta ekki miðað við birtu sólar eða tungls, eða sjávarföll. Vísindamenn hafa ekki komist endanlega til botns í því máli en skýringar á þessarar mjög svo reglubundnu hrygningu eru sennilega svipaðar skýringum á æxlunarhring annarra dýra, það er samspil eðlisþátta í umhverfinu og lífeðlisfræðilegra þátta. Þess má að lokum geta að afturendar palolo-ormanna þykja herramannsmatur. Í Suður-Kyrrahafi, til dæmis á Samoaeyjum er mikill fögnuður ár hvert þegar ormarnir synda upp og eru þeir ýmist borðaðir hráir eða matreiddir á einhvern hátt. Í Japan eru egghylki ormanna meðal dýrasta sjávarfangs sem völ er á. Heimildir og myndir:
- Karin Muller. Samoa Worm Sperm Spawns Annual Fiesta. National Geographic News, 29. október 2004.
- palolo worm. Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online, 22. nóvember 2007.
- Natural History Guide to American Samoa
- Ryan Photographic